blog

Talsmenn aðhaldsleysis

blog

Það hefur tekið sig upp gamall söngur í efnahagsmálum. Fellum gengið og leyfum verðbólgunni að ganga yfir, en hverfum frá háum vöxtum. Og þó það hljómi vel að gagnrýna háa vexti Seðlabankans er í því fólgið að senda eigi almenningi reikninginn í formi verðbólgu.

Enn einn grátkórinn

Á síðum blaðanna hafa sumir framámenn í stjórnmálum og viðskiptum þannig verið að segja okkur að vegna alþjóðlegrar lausafjárkreppu eigi Seðlabankinn að endurskoða vaxtastefnu sína, m.ö.o. að lækka stýrivexti. Þó blasir það við hverjum manni að ef lausafjárskortur er vandamálið þá er vaxtalækkun ekki svarið.

Á viðsjártímum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er trúverðugleiki mikilvægur. Hringlandaháttur með peningamálastefnu er við þær aðstæður fráleitur. Talsmenn aðhaldsleysis hafa því þurft hugmyndaauðgi til að renna rökum undir mál sitt. Þannig kom í vikunni fram hagfræðingur sem taldi að Seðlabankinn ætti að byggja ákvarðanir sínar um vaxtalækkanir á sömu sjónarmiðum og sá bandaríski. Brosleg hugmynd í besta falli, því þó við Íslendingar séum mestu snillingar veraldar í viðskiptum þá telur þjóðin enn aðeins 0,3 milljónir manna. Vaxtaákvarðanir bandaríska bankans taka auðvitað mið af því að þær hafa áhrif á aflvél heimsviðskiptanna, bandarískt atvinnulíf, en 0,75% vaxtalækkun Seðlabanka Íslands mun seint verða talið svar við fjármálavanda þeim sem heimurinn glímir við. Auk þess var yfirlýst forsenda lækkunar vestra trúverðugleiki sem agalausir Íslendingar hafa ekki.

Hin ósýnilega hönd

Það er út af fyrir sig eðlilegt að nú þegar þrengir að brjótist menn um og biðji um öðruvísi veruleika. Hér varð gríðarleg auðmyndun þegar fjármálafyrirtækin fengu lán á lágum vöxtum til fjárfestinga í áhættu- og ábatasömum verkefnum, en nú eru lágu vextirnir ekki lengur í boði, hvorki á heimsmarkaði né í Seðlabankanum. Af þessu breiðstræti brostinna vona hrópa sumir að Seðlabankinn sé í öngstræti. En hann gerir ekki annað en það sem hann boðaði og allir vissu að yrði og er bráðum að fara að bíta. Og það er mikilvægt að við hægjum á.

Við þurfum að draga úr neyslu okkar og fyrirtækin þurfa að leyfa hinni ósýnilegu hönd markaðarins að taka til áður en hlaupið er undir pilsfald ríksins. Því við vitum öll að það er allskonar rugl í gangi í neyslu og stöku fjárfestingum og því þarf að vinda ofan af með aðhaldi til þess að við getum svo aftur hafið uppgangstímabil. Suðaustur-Asía var ágætt dæmi um hvernig fer ef það er ekki gert.

Hvernig sem menn berja höfðinu við Arnarhólinn komast þeir ekki framhjá því að í áratugi hafa sveiflur, mikil verðbólga og háir vextir einkennt íslensku krónuna. Á því er engin skyndilausn til og síst sú að hækka skuldir heimilanna með verðbólgu. Verðtryggingin hefur líka gert krónuna að lélegu hagstjórnartæki. Ef við viljum breytingar til framtíðar er augljóslega líklegra að við náum stöðugleika og lágum vöxtum í Evrópusamvinnu og með þeim aga sem þarf að fylgja upptöku evru, fremur en með aðferðum og aðhaldsleysi gærdagsins. Bara yfirlýsingin um að við ætluðum í evrópska myntbandalagið myndi strax auka trúverðugleika okkar á alþjóðamörkuðum.

Sterkar stoðir

Í öllu krepputalinu eigum við að hafa í huga að Ísland er ótrúlega auðugt samfélag og sterkt. Mannauður okkar, auðlindir og sterkt atvinnulíf eru stoðir undir lífskjörum okkar sem ekki á að örvænta um. Þeir erfiðleikar sem við fáumst við eru tímabundnir og sagan sýnir að við erum fljót að ná okkur aftur á strik. Og þegar samdráttur verður munu ríki og Seðlabanki  auðvitað með aðgerðum milda lendinguna svo sem kostur er. En allt hefur sinn tíma.

Jafnaðarstjórn og mannréttindasigrar

blog

Sá trúnaður sem kjósendur sýndu okkur í Samfylkingunni sl. vor var af ýmsum ástæðum og væntingar jafn fjölbreytilegar og stuðningsfólkið var margt. Þar réði þó miklu hjá stórum hópi sú stefnubreyting flokksins í umhverfismálum sem varð við útgáfu hins „Fagra Íslands“ Samfylkingarinnar. Þó var það langsamlega stærsti hópurinn sem lagði höfuðáherslu á mikilvægi þess að fá að landsstjórninni flokk sem legði höfuðáherslu á að auka jöfnuð í samfélaginu. Lykillinn að velgengni okkar í farsælu stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn verður því augljóslega að vel takist að uppfylla væntingar um aukinn jöfnuð.

Stórt skref

Nú ræðst jöfnuður ekki af ríkisstjórninni einni en hún þarf sannarlega ekki að kvarta undan framlagi atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar í þeim kjarasamningum sem nú hafa náðst. Þar á bæ hafa menn líka skynjað þá þungu kröfu frá fólkinu í landinu að eftir launaskrið og kaupréttarsamninga síðustu ára þurfi að rétta hlut venjulegs fólks. Og forysta SA og ASÍ hefur með eftirtektarverðum hætti gert það að aðalatriði samninga, þó auðvitað megi alltaf um það deila hvort nógu langt sé gengið.

Í upphafi viðræðna kynnti verkalýðshreyfingin áherslur sínar í skattamálum. Þær voru ótvírætt hugsaðar með hag lág- og meðaltekjufólks að leiðarljósi en sættu nokkurri gagnrýni á þeim forsendum að þær flæktu skattkerfið og ykju svokölluð jaðaráhrif. Auðvitað olli það ákveðnum vonbrigðum að ríkisstjórnin var ekki tilbúin til viðræðna þá en lýsti sig reiðubúna til að gera það síðar í ferlinu. Allt hefur sinn tíma.

Það samkomulag um skattalækkanir sem náðist í lok kjarasamninganna milli ríkisstjórnar, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar er til fyrirmyndar og áherslurnar mjög ánægjulegar þó auðvitað megi alltaf gera betur. Þar er í fyrsta lagi verið að verja lang mestu fé til að hækka persónuafslátt sérstaklega á næstu þremur árum. Persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun lengi og því hafa tekjulægstu hóparnir í vaxandi mæli verið að greiða skatta. Þetta á ekki bara við um launafólk heldur líka aldraða og öryrkja. Með því að hækka persónuafsláttinn er verið að tryggja venjulegu fólki sömu krónutölu í skattalækkunum og öðrum, án þess þó að flækja skattkerfið og því ber að fagna.

Þá er ekki síður ánægjulegt að verið er að hækka umtalsvert skerðingarmörk bæði í barnabótakerfinu og í vaxtabótakerfinu, þannig að fleiri njóti þeirra. Í skýrslu sem við kölluðum eftir fyrir tveimur árum kom fram að á Íslandi eru umtalsvert fleiri börn sem alast upp við fátækt en á hinum Norðurlöndunum, þó við stöndum sem betur fer vel gagnvart öðrum þjóðum. Af henni sést að frændur okkar á Norðurlöndunum skiptu tekjum ekki jafnar milli barnafjölskyldna, en skatta- og bótakerfi þeirra hjálpuðu fleiri barnafjölskyldum yfir lágtekjumörkin. Með því að leggja áherslu á barna-, húsaleigu- og vaxtabætur eigum við að geta gert svipaða hluti, þó við samningana nú sé bara stigið lítið skref í þessu. Þá eru fleiri jákvæðir þættir í skattalækkununum, m.a. lækkun til fyrirtækja, afnám stimpilgjalda að hluta og hvatning til ungs fólks um sparnað.

Kjaramál eru mannréttindamál

Fyrr í vetur voru kynnt mikilvæg skref í kjaramálum aldraðra og öryrkja sem Jóhanna Sigurðardóttir, félags og tryggingamálaráðherra, hefur verið að útfæra. Þar er að finna kjarabætur sem eru hrein og klár mannréttindamál eins og afnám tenginga við tekjur maka. Þar með lýkur mannréttindabaráttu um að hver manneskja sé sjálfstæður einstaklingur sem staðið hefur í á annan áratug. Þar eru líka stigin veigamikil skref í að hvetja lífeyrisþega til atvinnuþátttöku og hætta að refsa fólki fyrir að bjarga sér.

Þegar allt þetta er lagt saman held ég að óhætt sé að fullyrða að á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar hafi náðst mikilvægir áfangar í átt til þess að auka jöfnuð. En kjörtímabil er fjögur ár og betur má ef duga skal.

Örlítið meira lýðræði, takk

blog

Stjórnarkreppan í Reykjavíkurborg er engan endi að taka. Hægri
glundroðinn er svo gagnger að í kjölfar klofnings F-listans gefa
borgarfulltúar Sjálfstæðisflokksins út skýrslu með minnihlutanum um
framgöngu eigin oddvita og um að borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins í
Reykjavík hafi skort pólitískt, siðferðilegt og lagalegt umboð til
stórra og óvenjulegra ákvarðanna!

Sú veika borgarstjórn sem þetta afhjúpar er afleiðing af umboðsskorti
og skorti á lýðræði. Frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hætti sem
borgarstjóri í Reykjavík hefur enginn borgarstjóri haft atkvæði
meirihluta borgarbúa og með svo takmarkað umboð hafa þeir komið og
farið hver á fætur öðrum. Því forsendan fyrir sterkum borgarstjóra í
Reykjavík er beint umboð frá borgarbúum. Við þetta bætist að meirihluti
Framsóknar og Sjálfstæðisflokks var byggður á minnihluta atkvæða
borgarbúa og völd Framsóknar í því samstarfi langt umfram það sem
þeirra lýðræðislega umboð fól í sér.

Nú er svo kominn borgarstjóri sem enginn myndi kjósa og meirihluti sem
lítill hluti borgarbúa styður. Og þessi meirihluti er myndaður um tvö
mál sem kjósendur höfðu ekki hugmynd um að stærsti stjórnmálaflokkurinn
í Reykjavík myndi setja á oddinn eftir kosningar, þ.e. friðun Laugavegar 4 og 6 og votlendisins í Vatnsmýri.

Þó Reykjavíkurlistinn hafi gengið sér til húðar var það rétt sem lagt
var upp með. Nauðsyn þess að Reykvíkingar hefðu skýra valkosti og kysu
meirihluta og borgarstjóra beint í kosningum en þyrftu ekki að sitja
uppi með niðurstöður úr vafasömu baktjaldamakki eftir kosningar. Á
þarsíðasta kjörtímabili settum við líka ákvæði um að íbúar gætu krafist
atkvæðagreiðslu um stórframkvæmdir og gerðum ýmsar tilraunir með beint
lýðræði. Þeirri þróun er mikilvægt að halda áfram og augljóslega
nauðsynlegt að borgarbúar geti knúið fram kosningar ef meirihlutinn
bregst algjörlega trausti.

Íhaldssamari en Norðmenn

Sumir segja að lýðræði okkar sé enn að slíta barnsskónum, enda Ísland
ungt lýðveldi og við til þessa ekki véfengt umboð sterka borgarstjórans
fremur en kóngsins áður, heldur bara hlýtt hans ráðstöfunum. Það er
ekki bundið við borgarmálin heldur á það ekki síður við í landsmálum.
Það er ótrúlegt að í sextíu ára sögu lýðveldisins hafi þjóðin aldrei
nokkru sinni knúið fram eða fengið að taka sjálf ákvörðun um eitt
einasta atriði er máli skipti. Aldrei. Og hvaða rugl er það? Hefur á
heilum mannsaldri ekkert það álitamál verið uppi á Íslandi að
almenningur ætti að taka afstöðu til þess fremur en ríkisstjórnin?

Í vikunni fengum við sem fyrr fréttir af því að árið 2006 hefði
matvöruverð enn verið tveimur þriðjuhlutum hærra á Íslandi en að
meðaltali í Evrópu. Við vitum að svipað á við um marga aðra vöru s.s.
lyf, barnavörur og ýmsar nauðsynjar fyrir alþýðu manna. Þetta er
auðvitað sérstaklega íþyngjandi fyrir venjulegt fólk með lágar og
meðaltekjur og þá ekki síst barnafjölskyldur. Miklu alvarlegri eru þó
þau erfiðu skilyrði sem hið séríslenska vaxtaokur skapar almenningi og
venjulegum fyrirtækjum. En stýrivextir Seðlabanka Íslands eru 10% hærri
en evrópska bankans.

Af þessum ástæðum og ýmsum öðrum, ekki síst menningarlegum, hafa æ
fleiri hallast að því að við eigum að bindast bandalagi við aðrar
evrópskar þjóðir og sækjast eftir þeim vöru- og vaxtakjörum sem þar
tíðkast og efla evrópsk menningaráhrif á Íslandi um leið.

Aldrei hefur þjóðin staðið frammi fyrir stærri ákvörðun en þessari.
Alþingi hefur enga burði til að taka á málinu. Umræðan sem þarf að fara
fram verður ekki fyrr en við tökum afstöðu til aðildar. En ennþá árið
2008 bíðum við og frestum ákvörðunum og ólíkt nær öllum þjóðum í Evrópu
höfum við ekki tekið afstöðu til Evrópusamvinnunar. Jafnvel Norðmenn
hafa ekki sjaldnar en tvívegis gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um
stefnu sína í málinu. Við aldrei. Ekki fyrr en við neyðumst til þess og
höfum glatað allri samningsstöðu. Svolítið eins og sveitamaðurinn sem
aldrei skal flytja á mölina nema nauðbeygður.

Pistillinn birtist í 24 Stundum 9. febrúar

Harður leikur

blog

Stundum verða stjórnmálin okkur öllum sem við þau störfum til minnkunar. Þá er eins og síðri hvatir okkar verði alsráðandi, s.s. hégómleiki, hefnigirni, sviksemi og græðgi. Rógsherferðir og persónuníð skreyta svo drullukökuna.

Það var annarskonar og betri kaka í boði þegar Davíð Oddsson hélt hátíð sína í Tjarnarsal ráðhússins á fimmtudag í síðustu viku. Þar á hann að hafa þakkað þáverandi forseta borgarstjórnar, Ólafi F. Magnússyni, fyrir að veita sér og sínum afnot af ráðhúsinu á afmælinu, enda gott að eiga góða að. Bankastjórinn hefur nokkrum dögum síðar orðið jafn hissa og aðrir þegar í ljós kom hver áhrínsorð þetta voru. Dramatískur fyrirboði í anda Íslendingasagnanna eins og annað þessa dagana. 

Það þarf ástæðu

Viku síðar gekk reiðialda yfir ráðhúsið og um kvöldið komst ég að því að dóttir mín hafði með menntaskólafélögum sínum farið þangað að mótmæla. Hún vildi að ég setti lög um það að menn þyrftu að hafa ástæðu til að rjúfa stjórnarsamstarf. Hún er föðurbetrungur, því sjálfur hafði ég verið upptekinn af ýmsum aukaatriðum málsins. Því þó á slíkri lagasetningu séu augljós vandkvæði er mergurinn málsins sá að Ólafur F. Magnússon, læknir og borgarstjóri, hefur ekki með sannfærandi hætti fært fram neinar gildar ástæður fyrir því að svíkja samstarfsmenn sína. Fyrirvaralaust og án þess að gera grein fyrir alvarlegum málefnaágreiningi eða úrbótum sem hann krefðist, sveik hann sitt heit. Það verður ekki réttlætt með því að kannski hafi aðrir ætlað að svíkja.  Og samábyrgir þessu urðu sjálfstæðismenn með því að launa honum brest sinn með æðsta og mikilvægasta embætti Reykjavíkurborgar, óverðskuldað.

Það var gott að eiga Dag að oddvita þegar óheilindin voru afhjúpuð, svo saklaus sem hann augljóslega var af þeim. Það gaf ungu fólki einhver ærlegheit að trúa á mitt í ruglinu og það er mikilvægt. Alvarleiki málsins er nefnilega trúnaðarbrestur stjórnmála við almenning sem enn rýrir tiltrú á stjórnmálum og var ekki á bætandi.

Við þurfum að hafa í huga að í löndum þar sem traust á stjórnmálin hverfur fylgir almennt siðferði og traust manna á meðal fljótt á eftir. Mestu forréttindin við að vera Íslendingur er einmitt það traust, gagnkvæm virðing, umburðarlyndi og samkennd sem þetta litla samfélag á og um það þurfum við að standa vörð.

Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var mynduð bundu margir vonir við að nýtt skeið væri runnið upp í íslenskum stjórnmálum. Breiður og sterkur meirihluti styrkti miðjuna í stjórnmálunum og starfað að hagsmunum venjulegs fólks. En víkjandi yrðu gömlu átakastjórnmálin og sérhagsmunabröltið.

Bingi

Á hinum sögulega borgarstjórnarfundi axlaði Björn Ingi Hrafnsson, Framsóknarflokki, skinn sín og hætti í borgarstjórn. Í stuttri viðdvöl hans þar hefur ítrekað verið rætt um óheilindi, refskap, spillingu o.þ.h. þegar hann hefur verið annarsvegar. Það hefur þó farið nokkuð eftir því með hverjum hann hefur starfað hverju sinni, hvernig menn í öllum flokkum hafa um hann talað og oft ótrúlegur viðsnúningur hjá sama fólkinu í ummælum eftir því hvort hann var að vinna með þeim eða ekki. Ræður sjálfstæðismanna á fundinum voru þannig næsta ótrúlegt lof eftir lastið síðustu 100 daga. Kannski brottför Binga eigi að verða okkur stjórnmálamönnum nokkur lærdómur um að af meiri hófsemi og stillingu megum við stundum fjalla hver um annan. Það yrði kannski til að auka eitthvað tiltrú þá sem brýnast er að reisa.

Pistillinn birtist í 24 stundum 26. janúar

Vaxandi ójöfnuður

blog

Engum blöðum er um það að fletta að ein helsta ástæða þess að kjósendur höfnuðu áframhaldandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var óánægja með vaxandi ójöfnuð og kjör hinna verst settu. Um það vitnar pólitísk umræða undanfarinna ára og margháttaðar upplýsingar sem staðfest hafa það.

Það var þess vegna mjög mikilvægt fyrir nýja ríkisstjórn að leggja strax í stjórnarsáttmálanum áherslu á bætt kjör lífeyrishafa, sem sannarlega var ekki vanþörf á. Enn betra var að því skyldi fylgt eftir með jafn myndarlegum hætti og raun ber vitni strax í fyrstu fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar. Og það eru ekki aðeins fjármunirnir sem þar skipta máli heldur líka brýn mannréttindamál, eins og afnám tenginga við tekjur maka og aukið frelsi til sjálfsbjargar. Báðir stjórnarflokkarnir lögðu áherslu á kjör lífeyrisþega í kosningabaráttunni og því mikilvægt fyrir trúverðugleika þeirra að láta verkin sýna merkin, þó þetta séu auðvitað bara fyrstu skrefin.

Kjarasamningar

En það er miklu fleira fólk en lífeyrishafar sem býr við kröpp kjör og þarf að rétta sinn hlut. Það kemur auðvitað glöggt fram þessa daga í tengslum við kjarasamninga. Bæði lágtekju- og meðaltekjufólk hefur þurft að horfa uppá vaxandi tekjumun og breytingar á skattkerfi hafa miðað að því að létta sköttum af hátekjufólki og eignamönnum. Skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun sem leitt hefur til þess að fólk með mjög lágar tekjur greiðir talsvert í skatta. Þá dró bæði úr vaxta- og barnabótum á síðustu kjörtímabilum. Á þetta höfum við í Samfylkingunni  lagt áherslu í okkar málflutningi.

Í stjórnarsáttmálanum hafa flokkarnir náð saman um að stefnt skuli að skattalækkunum á kjörtímabilinu, en það mun auðvitað að miklu leyti ráðast af því svigrúmi sem verður í ríkisfjármálum til þess. Sérstaklega er þar vísað m.a. til hækkunar persónuafsláttar og aukinna barnabóta til hinna tekjulægstu, o.fl. Það verður spennandi að sjá hve mikið svigrúm við munum hafa til að fylgja þessum viljayfirlýsingum eftir og hvernig til tekst almennt.

Barnabæturnar eru hér ekki síst mikilvægar því í skýrslu sem ég kallaði eftir frá forsætisráðherra árið 2006, kom fram að um fimm þúsund börn ælust upp á heimilum sem væru undir fátæktarmörkum. Þetta kom okkur mörgum á óvart og ég held að það sé þverpólitísk samstaða um að huga þurfi sérstaklega að þessum hópi. Það athyglisverða í skýrslu forsætisráðherra var að á hinum Norðurlöndunum var ekki mikill munur á stöðu fátækra barnafjölskylda fyrir skatta. En þegar skattar og bætur voru teknar með tókst hinum Norðurlöndunum að draga mun meira úr fátækt barna en okkur, svo munaði allt að helmingi. þannig eigum við augljóslega sóknarfæri í skatta- og bótakerfinu að þessu leyti.

Tillögur ASÍ

Eins og kunnugt er hefur ASÍ sett fram tillögur um skattalækkanir fyrir meðal- og lágtekjufólk. Þær miða að því að mæta einmitt þeim hópum sem við í Samfylkingunni höfum lagt áherslu á og eru allrar athygli verðar. Tillagan er um barnabætur og auka persónuafslátt fyrir lágtekjufólk uppá 20 þúsund á mánuði, sem muna myndi verulega um. Slík tillaga hefur þann kost að vegna þess að hún nær ekki til allra eins og almenni persónuafslátturinn, þá verður hún ekki eins dýr. Gallinn er hins vegar sá að það flækir skattkerfið, sem er umdeilt og því geta fylgt talsverð jaðaráhrif. Þó ekki hafi verið fallist á tillögurnar eins og þær voru fram settar, er það eftir sem áður brýnasta verkefnið næstu vikur að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Því þurfa að nást samningar um kjarabætur hinna lægst launuðu og auðvitað mun ríkisstjórnin vilja greiða fyrir því eins og kostur er.

Ár Samfylkingarinnar

blog

Fyrir rúmum áratug fór ný kynslóð að knýja á um sameiningu jafnaðarmanna. Margir höfðu reynt það á undan henni og alla síðustu öld beið draumurinn á rauðu ljósi en brast hvað eftir annað. Birtar voru auglýsingar í blöðunum undir yfirskriftinni „Ungt fólk krefst árangurs“. Í borginni var fyrirstaðan lítil. Eftir áratuga áhrifaleysi var vilji almennings ljós og knúði loks fram stofnun Reykjavíkurlistans. Um aldamótin var Samfylkingin svo stofnuð úr fjórum flokkum, ekki síst á þeirri röksemd að sundrung jafnaðarmanna hefði leitt til viðvarandi áhrifaleysis þeirra.

Nú, sjö árum síðar, er flokkurinn kominn í ríkisstjórn, leiðir höfuðborgina, hefur hreinan meirihluta í Hafnarfirði, á aðild að meirihluta á Akureyri, o.s.frv. Samfylkingin er ekki aðeins orðin burðarflokkur í ríkisstjórn, eins og formaðurinn hét, heldur í íslenskum stjórnmálum. Það var einmitt á þessu ári sem Samfylkingin naut ávaxtanna af starfi undanfarinna ára með myndun ríkisstjórnar og yfirtöku borgarinnar. Eftir að hafa átt á brattan að sækja snéri flokkurinn vörn í sókn með nýrri umhverfisstefnu, fagra Íslandi. Í kjölfarið fylgdi þung áhersla á jöfnuð, málefni barna og lífeyrishafa og jafnrétti kynjanna, sem saman gerðu Samfylkinguna að trúverðugri breiðfylkingu jafnaðarmanna. Þó að á móti blési stóðu flokksmenn og forysta saman og gengu jafnvel hús úr húsi til að sannfæra kjósendur um erindi sitt.

Nýr Sjálfstæðisflokkur

Með myndun Þingvallastjórnarinnar á vordögum sýndi nýr formaður Sjálfstæðisflokksins sterka forystu og pólitískan kjark. Hinn frjálslyndi armur flokksins réði nú ferð en ekki afturhaldsöflin. Sú stjórn sem var mynduð er fyrst og fremst miðjustjórn um hagsmuni venjulegs fólks og fyrirtækja. Ósætti gömlu afturhaldsaflanna við þróunina braust svo út með sérkennilegum hætti í innri uppreisn þeirra í eigin borgarstjórnarflokki og bræðravígum í beinni útsendingu. En tilveran er gædd ríkri kímnigáfu og þeir uppskáru ekki annað en að leiða Samfylkinguna til forystu í borginni.

Hin nýja miðjustjórn nýtur víðtæks stuðnings og hefur gríðarstóran meirihluta á þingi. Áhyggjuefni er hve stjórnarandstaðan er veikburða, bæði sögulega og þá sérstaklega nú. Þrátt fyrir að vera fáliðaðri en nokkru sinni fyrr, finnur hún sér ekkert betra að gera en berjast innbyrðis. Þannig skamma framsóknarmenn Frjálsynda flokkinn, Frjálslyndir skamma VG sem svo aftur skamma Framsókn þegar þeir eru ekki að skamma Frjálslynda flokkinn. Á meðan skortir ríkisstjórnina eðlilegt aðhald.

Nóg að gera

En þó allt gangi ljómandi vel eru verkefnin næg. Mikilvægar kjara- og mannréttindabætur hafa náðst fyrir lífeyrishafa en mikilvægt er að fleiri skref verði stigin í átt til aukins jöfnuðar. Og þá ekki síst fyrir lág- og meðaltekjufólk og barnafjölskyldur. Það geysar 6% verðbólga í landinu, auk hæstu raunvaxta í heimi, og því er mikilvægt að ríkisstjórnin sé enn betur á verði, m.a. í komandi kjarasamningum. Óvissuástand á mörkuðum kallar á að allir sýni aðhald og vekur áhyggjur um stöðu ungs fólks sem ráðist hefur í íbúðakaup á yfirspenntum markaði, í háum vöxtum og verðbólgu. Mest væri auðvitað um vert ef framsækin öfl í stjórnarflokkunum gætu stigið einhver skref í átt til Evrópu og þá einkanlega evrunnar. Í viðsjám á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er erfitt að finna trúverðugleika þess að ætla að halda áfram úti minnstu flotmynt í heimi, sem hoppar og skoppar sem kunnugt er. Almenningur og fyrirtæki þurfa stöðugra umhverfi og vaxtastig líkt og í samkeppnislöndunum. Við þurfum að lækka vöruverð, auka framboð og samkeppni innanlands og efla útflutning. Upptaka evrunnar myndi auðvelda það, þó að hún leysi ekki skammtíma vanda okkar. Og þó nýtt ár verði ekki ár evrunnar er óskandi að við hefjum raunverulega umræðu um þá brýnu almannahagsmuni sem í þeim leiðangri felast.

Pistillinn birtist í 24 stundum 29.12.2007

Landsvirkjun Power

blog

Síðastliðinn þriðjudag var ég gestur í Kastljósinu, þar sem ég ræddi málefni Landsvirkjunar Power ásamt Álfheiði Ingadóttur. Þessar umræður er hægt að sjá hér.

Til upprifjunar og fróðleiks varðandi orkumálin, fylgir hér grein sem ég birti í Fréttablaðinu þann 10. október sl. Næsta dag var nýr meirihluti myndaður í borgarstjórn Reykjavíkur.

Hraðsala á almannaeign

Samfylkingin ræðir í kvöld á opnum fundi orkumálin, enda sýna atburðir síðustu mánaða að boðskapur okkar jafnaðarmanna um opinbera eign veitukerfa og almannaeign auðlinda var framsýnn og er réttur. Hættuástand hefur nú skapast þegar borgarstjórnarmeirihlutinn reynir í örvæntingu að klóra yfir klúður sitt í Reykjavík Energy Invest með því að efna til hraðsölu á hlut almennings í fyrirtækinu.

Þó rétt sé að selja hlutinn og hætta að koma óorði á útrásina er ekki sama hvernig og hvenær. Í fyrsta lagi er fráleitt að selja einkaaðilum meira en orðið er fyrr en Alþingi hefur afgreitt lög sem tryggja almannahagsmuni varðandi veitustarfsemi og eignarhald orkuauðlinda en þess er að vænta í vetur. Í öðru lagi er rangt að veita litlum hópi fjárfesta forkaupsrétt að þekkingu OR og viðskiptatækifærum erlendis. Í þriðja lagi er hætt við að í hraðsölu fái almenningur ekki sannvirði fyrir eignir sínar eins og varð við sölu bankanna, enda ekkert óháð verðmat farið fram.

Ef sátt á að takast um málið er nauðsynlegt að bíða lagasetningar og þess að forkaupsréttur falli úr gildi. Þegar því er náð þarf svo að tryggja aðkomu eigendanna, almennings, að sölunni. Það mætti gera með því að tryggja forkaupsrétt almennings. Eða einfaldlega með því að senda íbúum Reykjavíkur, Akraness og Borgarbyggðar sín hlutabréf sem fólk getur þá sjálft selt eða haldið. Eða efna mætti til atkvæðagreiðslu meðfram kosningum um ráðstöfun sölutekna til góðra verkefna. Með svipuðum hætti mætti einnig fara með gagnaveituna, ef vilji er til að selja hana.

Það hefur verið eftirtektarvert að í umróti síðustu daga hefur það verið minnihlutinn í borgarstjórn sem haldið hefur ró sinni, meðan meirihlutinn hefur hoppað um af hræðslu við eigin mistök. Vonandi tekst minnihlutanum með festu sinni að varna því að meirihlutinn fórni frekar en orðið er almannahagsmunum í angist sinni og innbyrðis átökum.

(Birtist í Fréttablaðinu 10. október sl.)

Sjálfstæðir einstaklingar

blog

Í þessari lokaviku þingsins var afgreitt margt þjóðþrifamálið. Auk löngu tímabærra breytinga á starfsháttum þingsins bar sjálft fjárlagafrumvarpið auðvitað hæst. Í því er ekki síst ástæða til að fagna mikilvægum áföngum í kjarabaráttu aldraðra og öryrkja.

Einna mikilvægast í því er að með fjárlögunum er tryggt fé til að uppfylla afnám tengingar lífeyris við tekjur maka en kostnaður við það er tæpir tveir milljarðar á ári. Þessi stefna var mörkuð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og með samþykkt fjárlaganna er tíu ára einbeittri baráttu Öryrkjabandalagsins og samtaka aldraðra loksins lokið.

Fyrir tíu árum bjuggu öryrkjar við það að væru þeir giftir eða í sambúð með manneskju með meðaltekjur voru þeim skammtaðar um tuttugu þúsund krónur á mánuði af ríkinu. Þeir voru þannig dæmdir til að biðja ástvin sinn um vasapeninga og grunnframfærslu. Eftir að hafa árum saman rætt við stjórnvöld um sjálfsagaðar lagfæringar á þessu, stefndi Öryrkjabandalagið ríkinu.

Sá sögulegi dómur Hæstaréttar að ríkisstjórnin hafi, með því að svipta þetta fólk nær öllum bótarétti, brotið á grundvallarmannréttindum þeirra verður lengi í minnum hafður.  Málatilbúnaður ÖBÍ og Ragnars Aðalsteinssonar var vandaður en það sýndi sjálfstæði hæstaréttar og kjark að kveða upp dóm í svo pólitísku máli.

Dabbía

Viðbrögð Davíðs Oddssonar og Framsóknarflokksins létu ekki á sér standa. Jón Steinar Gunnlaugsson var látinn semja nýtt fyrirkomulag svo áfram væri hægt að skerða tekjur fólks vegna tekna maka þeirra, þó ekki með jafn ósanngjörnum hætti og áður. Á næsta ári verða þær tengingar semsagt úr sögunni

Þegar maður lítur nú til baka er óskiljanlegt hvers vegna Davíð Oddssyni var svona mikið kappsmál að geta skert greiðslur lífeyrirsþega með tekjum maka þeirra. Málið er  augljóst mannréttindamál og snýst um það grundvallaratriði að vera sjálfstæður einstaklingur. Tekjutenging við maka leiddi einnig til þess að fólk í erfiðum félagslegum aðstæðum skráði ekki sambúð sína og giftist ekki. Þannig var óréttlætið jafnvel andstætt hjónabandinu og sjálf Þjóðkirkjan lét það til sín taka þess vegna. Þetta er líka brýnt jafnréttismál, því auðvitað voru það oftar konur sem þurftu að gjalda tekna maka sinna. Þetta er nú öllum augljóst en hitt furðulegt, hve langt stjórnvöld sukku í þá dabbíu sem málaferlin við öryrkja voru.

Sjálfsbjargarviðleitni

Annar mjög mikilvægur þáttur í þeim breytingum sem við gerum á næsta ári er að draga verulega úr öðrum tekjutengingum, þ.e. við atvinnutekjur. Það er skrýtið hvað löggjafinn gekk langt í að refsa fólki fyrir sjálfsbjargarviðleitni. Svo langt var gengið að tekjutengingar eru næstum orðnar skammaryrði. Eru þær þó hugsaðar til þess að eyða ekki dýrmætu skattfé í aðstoð við þá sem ekki þurfa. Þar að auki hefur reglufrumskógur og hans óréttlæti hvatt til undanskota og rangrar upplýsingagjafar.

Í tilfelli öryrkja hefur þetta verið jafnvel enn fráleitara, því fyrir mörg okkar sem fötluð eru, er það mikilvæg endurhæfing og félagslegur stuðningur að vinna. Það ætti þess vegna að vera sérstakt keppikefli samfélagsins að hvetja öryrkja á vinnumarkað en ekki refsa þeim. Sömu sjónarmið geta líka átt við um suma aldraða en síðar á kjörtímabilinu verður líka hætt að refsa þeim fyrir ráðdeildarsemi, með því að hætta að skerða lífeyri ef þeir taka út séreignasparnað. Enda eru það í hæsta máta einkennileg skilaboð til fólks að refsa því fyrir að leggja til hliðar fyrir elliárin. Þó það kosti mikið á pappírunum að hætta að refsa fólki fyrir allt að 100 þúsund krónu atvinnutekjur á mánuði og fyrir sparnaðinn, er ég sannfærður um að þegar dæmið er gert upp mun samfélagið hagnast á þessum breytingum. Því þegar við hvetjum fólk til sjálfshjálpar og ráðdeildarsemi skilar það sér í sköttum, betra heilsufari og sterkara samfélagi.

(Pistillinn birtist í 24 stundum 15.12)

Raflínur í jörð

blog

Á Alþingi hefur verið lögð fram tillaga til þingsályktunar um lagningu raflína í jörð og er ég fyrsti flutningsmaður hennar. Gagnrýni á sjónmengun af völdum háspennulína hefur vaxið samhliða aukinni raforkuframleiðslu. Það er því mikilvægt að fyrir liggi pólitísk stefnumörkun og að um hana náist góð sátt.

Þingmenn úr öllum flokkum eru meðflutningsmenn og stendur t.a.m. öll umhverfisnefnd þingsins að tillögunni. Verkefni eins og lagning raflína í jörð ætti að vera þverpólitískt og vænti ég þess að málið njóti víðtæks stuðnings í þinginu. Tillagan gerir ráð fyrir að nefnd hagsmunaaðila móti stefnu um hvernig leggja megi raflínur, sem nú eru ofan jarðar, í jörð á komandi árum og áratugum.

Tillöguna og greinargerð með henni má sjá hér.

FÁTÆKT BARNA Á ÍSLANDI

blog

Í apríl 2005 lagði ég ásamt fleiri þingmönnum Samfylkingar fram beiðni um skýrslu frá forsætisráðherra er fjallaði um fátækt barna á Íslandi. Samkvæmt skýrslunni, sem lögð var fram á Alþingi í desember á síðasta ári, kom fram að 6,6% íslenskra barna töldust búa við fátækt árið 2004, miðað við skilgreiningu OECD. Í ljós kom að staða Íslands hvað þetta varðar var góð miðað við önnur OECD ríki. Þegar kom að samanburði við hin Norðurlöndin, reyndist fátækt barna hins vegar vera mest á Íslandi.  Til að fylgja þessu máli eftir sendi ég fyrirspurn til Geirs H. Haarde forsætisráðherra, um fátækt barna og hvernig þróunin hafi verið hér á landi síðan 2004. Hér fylgir fyrirspurnin og svar forsætisráðherra.