Hættulegustu menn í heimi

blog

Saga mannkyns sýnir að hættulegustu menn sögunnar eru handhafar sannleikans. Þeir eru til á öllum öldum, í flestum trúarbrögðum, kynþáttum og stjórnmálahreyfingum. Þessir umboðsmenn sannleikans verða hættulegir þegar sjálfsupphafning þeirra nær því stigi að þá varðar ekki lengur um almennt siðferði og þeir taka án laga og réttar að dæma fólk og refsa í nafni sannleikans.

Eftir harmleikinn á Ísafirði virtist augljóst að margt það ágæta fólk sem á og vinnur fyrir DV myndi harma atburðinn, af augljósum ástæðum yfirfara og meta vinnubrögð í málinu og taka til endurskoðunar ritstjórnarstefnu blaðsins í ljósi atburðarins og viðbragða almennings.

Þess í stað kom Jónas Kristjánsson f.h. DV í Kastljós og sagði okkur að grundvallaratriðið væri SANNLEIKURINN; að munurinn á siðferði þeirra og okkar hinna væri að þeir byggðu sínar siðareglur á SANNLEIKANUM. Eftir að hafa sent aðstandendum hins látna samúðarkveðjur sagði ritstj. að þeir hefðu ekki orðið fyrir neinu. Það var eftir að hann  tilkynnti að í nafni sannleikans muni blaðið halda áfram réttarhaldi yfir hinum látna meðan líkið bíður kistulagningar. Óvenjuleg heift í garð hin látna en ritstj. neitaði þó að hafa fellt dóm yfir honum, um leið og hann fjallaði um þolendur gerða hans ítrekað án fyrirvara. Einkennilegust var þó sú afstaða ritstj. að þeir sem höfðu önnur sjónarmið en hann voru að kæfa og gera sakbitna pilta sem orðið höfðu fyrir hræðilegum glæp, þeir voru að innleiða tíma Steingríms Njálssonar, voru sósíalfasistar eða stjórnuðust af annarlegum hvötum.

Nú verður ritstj. að ráða sjálfsvirðingu sinni, en viðbrögð hans eru á ábyrgð eigenda og samstarfsmanna meðan hann er fulltrúi þeirra. Illt væri ef forherðing ritstj. gerði að engu ýmsa ágæta viðleitni samverkafólks hans og eigenda blaðsins. Þeir þættir í stefnu blaðsins um að gera ógæfu og einkamál almennra borgara að söluvöru og þó einkum hitt að taka sér dóms- og refsivald í glæpamálum þjónar ekki afkomu blaðsins, efni þess, starfsmönnum, hag eigendanna, lesendum, almennu siðferði né nokkrum öðrum hlut. Frá þeim stefnuþáttum sem engum eru til framdráttar hljóta menn að hverfa.