október, 2007

Skrattinn og loftslagið

blog

skrattinn er óskemmtilegt veggskraut, sagði einhver um
loftslagsumræðuna þegar hægri menn töldu áhyggjur vísindamanna óþarfar.
spár um mikla hlýnun og alvarlegar afleiðingar hennar voru fyrir örfáum
árum taldar hrakspár og svartsýni af æðstu ráðamönnum. nú deilir enginn
um loftslagsbreytingar og alvarleika þeirra og í vikunni áttum við
ágætar utandagskrárumræður um málið.

of rúmar heimildir

þegar gaman er að lifa finnst manni árin fljúga hjá. þannig kom það
mér óþægilega á óvart þegar ég rifjaði upp fyrir sjálfum mér að liðin
eru tíu ár frá því kyoto samningurinn var gerður. þar fengu íslendingar
mjög rúmar heimildir til að menga andrúmsloftið, bæði almennt og
sérstaklega fyrir stóriðju. þær heimildir hafa verið allt of rúmar því
í áratug höfum við ekkert þurft að gera til að draga úr mengun heldur
höfum við haldið áfram að menga og auka mengun ár frá ári. samt eru
allir sammála um ógnina og mikilvægi þess að við gerum eitthvað í
henni. og þó líða tíu ár án þess að við höfumst nokkuð að sem heitið
getur. samt erum við ein af auðugustu og upplýstustu þjóðum heims og í
hópi þeirra sem ætla mætti að bregðist fyrst við. kannski það taki
heiminn hálfa öld að bregðast við aðsteðjandi hættu.

það er þó ekki svo að ekkert  jákvætt hafi gerst. það má nefna
vetnisstrætó og -stöðvar í reykjavík og skyld verkefni, s.s. skattleysi
vetnisbíla. flest er það þó bundið við áhuga okkar á töfralausnum
framtíðarinnar en að gera eitthvað núna strax þykir okkur ekki eins
spennandi. talandi dæmi um það er að ennþá gefum við sérstakan afslátt
af eyðslufrekustu bílunum á þeirri forsendu að þeir séu
landbúnaðartæki!

vonandi er þetta þó að breytast og það var mikilvægt að sjá
loftslagsmálum gert hátt undir höfði, bæði í stjórnarsáttmála og
stefnuræðu forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar. ákvarðanir
reykjavíkur og akureyrar um frítt í strætó, ókeypis bílastæði fyrir
vistvæna bíla og vinna fjármálaráðuneytisins við að endurskoðun
eldsneytisskatta eru líka dæmi um skref sem vekja vonir um að tími
aðgerða sé að renna upp.

2050 hvað?

það er ekki út í hött að spyrja sig hvort það taki heiminn hálfa öld
að bregðast við. við íslendingar og fleiri þjóðir höfum sett okkur
markmið um árangur í mengunarmálum árið 2050 – að minnka losun
gróðurhúsalofttegunda um 50-75%. þó það sé góðra gjalda vert að ætla að
minnka losun einhvern tíma seinna þá er það langt frá því að vera nóg.
enda vinnur ríkisstjórnin að því að setja okkur markmið til skemmri
tíma, eða á næsta áratug. þegar við setjum okkur þau hljótum við að
líta til þeirra markmiða sem evrópusambandið hefur sett sér um að draga
úr mengun um 1/5 hluta fyrir 2020 og séu aðrir tilbúnir til að ganga
lengra muni ekki standa á evrópu í að gera það. við íslendingar getum
ekki verið eftirbátar evrópusambandsins og hljótum að lágmarki að setja
okkur sömu markmið. til að ná þeim þurfum við að hefjast handa því
slíkur árangur næst ekki að sjálfu sér. við hljótum líka að spyrja
hvort markmið okkar til lengri tíma um 50-75% samdrátt séu nægilega
metnaðarfull þegar við sjáum norðmenn setja sér mark um algjöran
samdrátt eða 0% nettó losun, m.a. með aðgerðum í þróunarríkjunum. en
brýnast er að byrja!

(pistill þessi birtist í blaðinu 20.10.07)

Júní, júlí ágúst og september

blog

stundum er sagt að það séu fjórar góðar ástæður fyrir því að gerast
þingmaður –  júní, júlí, ágúst og september. sem kunnugt er kemur þing
ekki saman fyrr en 1. október ár hvert en þingsetningardagurinn var
einmitt í upphafi vikunnar. það var ánægjulegt að heyra nýjan forseta
alþingis leggja áherslu á að breyta úreltum starfsháttum þingsins og
nauðsyn þess að auka virðingu þess.

það er löngu orðið tímabært að lengja starfstíma þingsins, hætta
næturfundahöldum, meirihlutaofbeldi og málþófsæfingum. hugmyndir
forseta um opna nefndarfundi og fjölskylduvænna vinnuskipulag eru í
takt við tímann en mikilvægast þó að efla sjálfstæði þingsins. segja má
að í valdatíð davíðs oddssonar hafi hægt mjög á þingræðisþróun í
landinu og jafnvel að þá hafi alþingi breyst í afgreiðslustofnun fyrir
ríkisstjórnina.  bráðnauðsynlegt er fyrir lýðræðisþróun í landinu að
snúa af þeirri braut.

umræðan fyrstu daga þingsins undirstrikar þetta enn frekar. þar
situr óvenju stór meirihluti og stjórnarandstaðan því veikburða og
sömuleiðis sundruð. við þær aðstæður verður enn mikilvægara að þingið
sé sem sjálfstæðast og veiti framkvæmdavaldinu eðlilegt aðhald. nýr
forseti þingsins er ekki sá fyrsti sem haft hefur metnað fyrir hönd
þess og spennandi verður að sjá hvort honum auðnast að fylgja honum
eftir.

lítið svigrúm fyrir stóriðju

það nýmæli var við þingsetninguna að strengjasveit lék í þinghúsinu.
einkar hátíðlegt en minnti mig af einhverjum ástæðum á strengjasveitina
í titanic. það var kannski ekki svo fráleitt því eins og lesendur muna
lék strengjasveitin í titanic áfram hvað sem á gekk – sannfærð um að
skipið gæti ekki sokkið. með sterkan stjórnarmeirihluta, veika og
sundraða stjórnarandstöðu og öflugan efnahag er auðvitað hætta á því að
við ofmetnumst af velgengni eins og varð um titanic forðum. það þarf
nefnilega sterk bein til að þola góða daga.

þegar stjórnarandstaðan er vanmáttug í að benda á hætturnar og
verkefnin framundan, verður ríkisstjórnin að vera enn betur vakandi.
við þurfum að taka mjög alvarlega þann mikla fjármagnskostnað sem
skuldsett heimili þurfa að bera í þessu efnahagsástandi. við verðum að
taka alvarlega stöðu ungs fólks sem er eignalaust að koma inn á
yfirspenntan fasteignamarkað  á hávaxtaskeiði og í of mikilli
verðbólgu. okurverð á nauðsynjavörum eins og mat og lyfjum er
óviðunandi og við verðum að geta rætt opinskátt um óstöðugleika
gjaldmiðilsins án þess að virðulegir ráðherrar bresti í grát yfir illu
umtali um íslensku krónuna. við þurfum með hraði að létta tekjutenginum
af lífeyrisþegum til að losa þá úr skipulagðri fátækt en vaxandi
misskipting er jú það sem helst ógnar stöðugleika skipsins.

mikilvægast er þó að skattalækkunum verði á kjörtímabilinu einkum
beitt til að bæta hag lág- og meðaltekjufólks, skuldugra og
barnafjölskyldna s.s. með afnámi stimpilgjalda, hækkun barnabóta og
persónuafsláttar. ekki er síst mikilvægt að það svigrúm sem er til
skattalækkana á kjörtímabilinu verði nýtt þegar slaknar á en ekki hellt
sem olíu á eld þenslu. þær ágætu horfur sem eru í hagstjórninni kalla
fyrst og fremst á aðgát af hálfu stjórnvalda og ekki verður séð að
svigrúm sé til mikilla stóriðjuframkvæmda að óbreyttu. það er
fagnaðarefni því það gefur tíma til vandaðrar stefnumörkunar í
umhverfismálum sem nauðsynleg er áður en lengra er haldið. 

umræðan í vikunni sýndi að auk þess að friða náttúruperlurnar okkar og
vernda hið ómetanlega miðhálendi landsins eigum við alveg eftir alla
vinnu í grænum sköttum, áður en lengra er haldið í stóriðju.  þá var
úthlutað ókeypis heimildum til stóriðju að menga andrúmsloftið með
gróðurhúsalofttegundum skv. lögum fyrri ríkisstjórnar. þó er augljóst
að menn eiga að borga fyrir að menga loftið eins og fyrir að míga á
almannafæri. og ef við beitum grænum sköttum hyggilega getur það enn
aukið svigrúm okkar til að lækka skatta á tekjur  fólks.

(pistill þessi birtist í blaðinu 06.10.07)

Auðlindasjóður

blog

þau gleðitíðindi bárust nýlega úr íslenskum orkuiðnaði að goldman sachs
hefði hug á að fjárfesta í geysi green, íslensku orkufyrirtæki sem á
hlut í hitaveitu suðurnesja og hefur stórhuga áform um útrás. athygli
vakti að í umræðum um hina erlendu fjárfestingu kom fram andstaða við
hana og þá ekki síst hjá formanni framsóknarflokksins sem brá sér að
venju í hlutverk nátttröllsins.

í hinni hörðu alþjóðlegu samkeppni um lífskjör er erlend fjárfesting
í íslensku atvinnulífi afar mikilvæg. ekki á það síst við í
þekkingariðnaði eins og orkuiðnaðinum þar sem skapast áhugaverð störf,
vel launuð fyrir menntað fólk sem skilar miklum tekjum enda gríðarlegar
fjárfestingar á bak við hvert starf. en í stað þess að gleðjast elur
stjórnarandstaðan, með leiðtoga sinn guðna ágústsson í broddi
fylkingar, á fordómum í garð útlendinga og hræðsluáróðri um
einkavæðingu auðlinda og almenningsveitna. og þó var það einmitt
framsóknarflokkurinn sem færði landeigendum auðlindir í jörðu á
silfurfati. sami flokkur heimilaði hömlulaus viðskipti með þessar
jarðir og enn var það sami flokkurinn sem seldi hlut ríkisins í
almenningsveitum til einkafyrirtækis. en nú eru þeir ekki lengur í
ríkisstjórn heldur stjórnarandstöðu og eru því á móti öllu, líka eigin
ákvörðunum!

framsóknarklúður

auðvitað eru hinir erlendu aðilar ekki að falast eftir hlut í geysi
vegna áhuga á pípulögnum á reykjanesi. við íslendingar búum svo vel að
vera í fremstu röð í heiminum í nýtingu jarðhita og nú á tímum
hnattrænnar hlýnunar er það gríðarlega mikils virði. við eigum líka hóp
öflugra alþjóðlegra fjárfesta sem hafa sýnt hvað eftir annað færni sína
í uppbyggingu og útrás. á þessu samspili byggist hinn erlendi áhugi og
eftirtektarvert að nú fyrst sé að færast líf í útrásina í íslenskum
orkuiðnaði.

það er umhugsunarefni hvers vegna við höfum fram að þessu einkum
verið í útrás í tiltölulega nýjum atvinnugreinum og á sviðum þar sem
við höfum ekki áður haft mikið forskot og það á meðan sá iðnaður sem
við erum hvað best í hefur að mestu setið eftir – fyrir utan eina og
eina virkjunarframkvæmd. ástæða þess er fyrst og fremst það vonda
skipulag sem við höfum haft í orkuiðnaði og rangar pólitískar áherslur,
einkum vegna afskipta framsóknar. það er fagnaðarefni að vera komin með
nýjan iðnaðarráðherra sem lætur að sér kveða og vekur það vonir um nýtt
skipulag sem skilar okkur betri árangri.

þau fyrirtæki sem hafa verið ráðandi á orkumarkaði eru opinber
fyrirtæki. ástæða þess er sú að við teljum flest mikilvægt að ákveðnir
þættir á orkumarkaði séu í opinberri eigu. en opinber fyrirtæki eiga
ekki að vera áhættusækin, eiga hægt með að laða að sér fjármagn og eiga
að leggja höfuðáherslu á þarfir íslendinga en ekki útrás. fyrir vikið
höfum við ekki virkjað nema brot þeirrar þekkingar og tækifæra sem við
eigum á þessu sviði, líkt og var um viðskiptabankana fyrir
einkavæðingu.

verkefni stjórnvalda

það sem við þurfum að gera er eins og iðnaðarráðherra hefur bent á,
að tryggja meirihlutaeign hins opinbera á dreifiveitum sem eru í eðli
sínu einokunarstarfsemi. jafnvel á að koma til greina að þær séu
alfarið í opinberri eigu. þá þarf að skilja á milli auðlindanna og
orkufyrirtækjanna og tryggja almannaeign þeirra auðlinda sem
framsóknarflokkurinn var ekki búinn að láta af hendi en það er sem
betur fer stærstur hluti auðlindanna. að þessu fengnu er ekkert því til
fyrirstöðu að hleypa atvinnulífinu í ríkari mæli inn í orkuvinnslu og
sölu og virkja þannig einkaframtakið og afl þess, en tryggja um leið
almenningi eðlilegt endurgjald fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum.

við jafnaðarmenn höfum ítrekað bent á svipaða aðferðafræði, t.d. um
sameiginlegar auðlindir okkar í hafinu umhverfis landið. olíusjóður
norðmanna er auðvitað kennslubókardæmi um hvernig farsællega má á
félagslegan hátt tryggja að allur almenningur njóti góðs af auðlindum
landsins. slíkar aðferðir má auðvitað nota í orkuvinnslu, ef hér hefst
einhverntíma olíuvinnsla, við leigu á fjarskiptarásum í lofti, úthlutun
á óveiddum fiski í sjó o.s.frv. slíkt fyrirkomulag gæti að mörgu leyti
falið í sér sögulegar sættir sjónarmiða um einkarekstur annars vegar og
almannahagsmuni hins vegar.

(pistill þessi birtist í blaðinu 22.09.07)

Aldrei aftur Írak

blog

ein versta ákvörðun í utanríkismálum íslands, ef ekki sú versta, er
auvitað stuðningurinn við innrásina í írak. áður en hún var tekin hefði
engum dottið í hug að við ættum eftir að verða aðilar að ólögmætu
árásarstríði með þeim hætti. það samræmist einfaldlega ekki sjálfsmynd
okkar sem herlausrar og friðsamrar þjóðar að blessa þannig hræðilegar
afleiðingar árásarstríðs.

ákvörðun þeirra davíðs oddssonar og halldórs ásgrímssonar um að blanda
okkur öllum í þessa ógæfuför var að mörgu leyti skólabókardæmi um
vondar ákvarðanir. höfundar stjórnarskrár okkar og laga höfðu ekki
hugmyndaflug til að setja sérstök ákvæði um hvernig taka ætti ákvörðun
um aðild íslands að stríði. og þetta tómarúm nýttu tveir menn sér til
að skuldbinda þjóðina, gegn vilja hennar, vegna innrás í annað land. þá
lágmarksreglu að bera ákvörðunina undir utanríkismálanefnd alþingis
brutu þeir jafnvel og þó er hún sett vegna þeirrar reynslu mannanna að
mikilvægar ákvarðanir eiga fleiri en tveir að taka, ef vel á að fara.

ófriðargæslan

þó myllur lýðræðisins mali stundum hægt þá mala þær þó og það er
eftirtektarvert að þeir sem þessa vondu ákvörðun tóku kusu báðir að
leita eftir störfum á öðrum vettvangi á síðasta kjörtímabili. við er
tekin ný ríkisstjórn sem harmar ástandið og vill leggja sitt að mörkum
fyrir hönd okkar íslendinga til að stuðla að uppbyggingu og
mannúðarstarfi á svæðinu. þá hyggst utanríkisráðherra ekki endurnýja í
stöðu upplýsingafulltrúa í írak og hefur tilkynnt þá ákvörðun við litla
hrifningu yfirhershöfðingjans. þessu tengd var svo heimsókn nýs
utanríkisráðherra til miðausturlanda í sumar þar sem hún m.a. kynnti
sér hagi flóttamanna frá írak í jórdaníu og undirstrikaði siðferðilega
ábyrgð okkar á stöðu þeirra. að ógleymdri þeirri áherslu sem ingibjörg
sólrún lagði á vandann í ísrael og palestínu og skyldu okkar til að
stuðla eftir föngum að friðsamlegri lausn. og við sjáum líka nýjar
áherslur í friðargæslunni um mannúðarstarf og þróunarsamvinnu í stað
þeirrar tilhneigingar sem var til byssuleikja í því starfi.

loksins sjálfstæð?

allt gefur þetta okkur tilefni til bjartsýni um íslenska
utanríkisstefnu. og þá ekki síður friðvænleg þróun í okkar heimshluta
og gleðileg og löngu tímabær brottför bandaríska hersins frá íslandi og
uppbygging menntastofnunar á miðnesheiði.

og nú er ætlunin að efna til umræðna um starf okkar í alþjóðamálum og
til hvers við erum í framboði til öryggisráðs s.þ. en það var harla
óljóst meðan utanríkisstefna okkar var fengin frá bandaríkjunum. en
slíkt framboð gæti öðlast tilgang ef okkur ber gæfa til að þróa
sjálfstæða utanríkisstefnu, einsog margt bendir til. 

við íslendingar höfum alla burði til að leggja verulega af mörkum í
alþjóðastarfi. auðlegð okkar gerir þá siðferðiskröfu til okkar að við
uppfyllum viðmið alþjóðasamfélagsins um framlög til fátækra þjóða og
það er fagnaðarefni að hvert skrefið af öðru er nú stigið í þá átt.
lýðræðishefð okkar og virðing fyrir mannréttindum eru líka hluti
þeirrar auðlegðar sem við eigum að leggja metnað okkar í að miðla. við
þurfum að láta af einangrunartilhneigingu en taka óhikað virkan þátt í
alþjóðasamstarfi eins og evrópusamstarfinu enda sýnir árangur okkar hér
heima og erlendis ótvírætt að við þurfum ekki að óttast um hlut okkar í
alþjóðasamstarfi. með því móti stuðlum við best að friðsamlegri sambúð
þjóða , en til að eiga erindi á alþjóðavettvangi verðum við að vita
hvað við viljum og tala skýrt. aldrei aftur írak.

(pistill þessi birtist í blaðinu 08.09.07)

Evra án Evrópusambands

blog

í fyrradag hélt rannsóknamiðstöð um samfélags- og efnahagsmál
eftirtektarverða ráðstefnu. umfjöllunarefnið var „dollaravæðing“, þ.e.
einhliða upptaka landa á myntum eins og evru og dollar. það hefur
auðvitað ekki þótt fínt heldur til marks um ósjálfstæð og veikburða
ríki að geta ekki haldið úti eigin gjaldmiðli. enda hefur það einkum
verið neyðarráðstöfun þeirra sem ekki gátu ráðið málum sínum sjálf. en
það er engu að síður sjálfsagt að spyrja hvort peningaleg
þjóðernisstefna og metnaður um þjóðarmynt eigi nokkuð erindi í
alþjóðavæddum heimi ársins 2007.

týnd?

það er líka eðlilegt að við eyjaskeggjarnir veltum því fyrir okkur
hvort við getum ekki tekið upp meginlandsmyntina án þess þó að verða
hluti að þinginu og framkvæmdavaldinu í brussel. afstaða okkar til
evrópusamvinnunnar er jú einmitt sígild afstaða eyjarinnar til
meginlandsins. við viljum hafa allskyns hagnýta hluti af meginlandinu
svo sem greiðar samgöngur, aðgang að mörkuðum o.s.frv. en samt halda
okkar eigin þjóðhátíð. þannig viljum við taka þátt í öllu samstarfi
evrópusambandsins nema þinginu og ráðherraráðinu því þá getum við
haldið áfram að neita því að við séum hluti af esb þó við tökum þátt í
öllu samstarfi evrópuríkjanna.  minnir svolítið á yngri dætur mínar
þegar þær setja lítið blað fyrir andlitið og segja „týnd“.

það er einhvern veginn eins og við höldum að við höfum glatað
sjálfstæði okkar með fullri þátttöku og þó finnast okkur lítil lönd sem
taka fullan þátt eins og írland, finnland og danmörk ekki vera
ósjálfstæð ríki. miklu frekar finnast okkur ósjálfstæð ríki eins og el
salvador og ecuador sem neyðast til að nota gjaldmiðil annarra þjóða án
nokkurra áhrifa á hann. en ef okkur líður betur með að ganga inn í
áföngum þá er auðvitað ekkert að því. hitt vita allir að við munum bæði
taka upp evru og ganga í esb, spurning er bara hvenær og í hvaða röð!

ekki hvort heldur hvenær

ánægjulegt er að sjá áhugasama um þessa umræðu ýmsa af helstu
stuðningsmönnum fyrrverandi formanns sjálfstæðisflokksins og myndu
sumir segja að þá væri fokið í flest skjól fyrir íslensku krónuna. en
það er auðvitað til marks um þá breytingu að margir þeir sem telja
krónuna hafa gagnast okkur vel fram að þessu telja þó mjög vafasamt að
hún sé nógu stór til að valda auknum umsvifum okkar eða nógu sterk
fyrir öldurót alþjóðavæðingar gjaldeyrismarkaða. þeirra sjónarmið er
því ekki eins og til dæmis okkur sem telju að krónan hafi einfaldlega
reynst almenningi of dýr í verðlagi verðbólgu og vöxtum, heldur að hún
henti ekki lengur. órói á alþjóðamörkuðum, skráning íslenskra
fyrirtækja í evrum, vaxandi spákaupmennska og sveiflur á gengi
krónunnar gera æ ljósara hve erfitt er að halda úti smámynt.

það er óskandi að sú viðhorfsbreyting sem er að verða til evrunnar í
ákveðnum hópum leiði til pólitískra aðgerða í peningamálum. það er
sjálfsagt að skoða hvort unnt er að ná ávinningum evrunnar án aðildar
að esb ef það er það sem þarf til að skapa pólitíska samstöðu um málið.
þá verður þó auðvitað öllum að vera ljóst að verði niðurstaðan úr þeim
leiðangri sú að aðild sé nauðsynleg verða menn að vera tilbúnir til
þess að taka það skref.

mikilvægast er að á vettvangi stjórnmálanna tökum við sem fyrst á við
upptöku evrunnar því sá tími er liðinn að stjórnmálaöflin hafi áratugi
til að breyta um stefnu. hraði í nútímaviðskiptum og alþjóðavæðingin
gerir aðrar kröfur. það sjáum við á því að fyrirtæki og einstaklingar
eru farin að fara bakdyramegin inn í evruna í lántökum sínum með
tilheyrandi áhættu. það er lykilatriði um farsæld í efnahagsmálum að
nota góðu tímana til að taka erfiðu ákvarðanirnar  því þegar vel árar
eigum við fleiri kosta völ. til að halda raunverulegu sjálfstæði er
líka best að ráða ferðinni en hrekjast ekki í hallæri undan gangi
sögunnar.  

(pistill þessi birtist í blaðinu 25.08.07)

Enginn er eyland

blog

þessar fyrstu vikur ágústmánaðar eru jafnan aðgerðalitlar þegar við
flest erum að reyna að hökta af stað í vinnunni á virkum dögum en
helgarnar undirlagðar af verslunarmönnum, gay pride og menningarnótt.
svo lítið í gangi að útvarpinu tókst að gera frétt um að formaður
stéttarfélags hefði lýst því yfir að launamál yrðu sett á oddinn í
næstu kjarasamningum! en fjármálamarkaðurinn sefur aldrei og þó ekkert
sé jafn leiðinlegt og viðskiptafréttir eiga þær þessa dagana að vera
okkur umhugsunarefni. þannig hefur krónan okkar þegar þetta er skrifað
fallið um 10% á skömmum tíma. 

ástæða þess er ekki síst vaxandi áhættufælni fjárfesta á alþjóðamarkaði
vegna hræringa m.a. tengdum bandarískum húsnæðismarkaði.  íslenska
krónan er svo lítil og sveiflur gengis hennar svo miklar að hún er
flokkuð með áhættusömum myntum og þegar blikur eru á lofti í
efnahagsmálum heimsins selja menn íslenskar krónur til að draga úr
áhættu sinni. og þannig virkar heimurinn í dag að breytingar í
bandaríkjunum eða kína geta tafarlaust haft áhrif á gengi íslensku
krónunnar þó okkar atvinnulíf gangi jafn vel í dag og í gær. 

þau rök hafa verið notuð gegn því að við tökum upp evru sem gjaldmiðil,
í stað hinnar áhættusömu íslensku krónu, að gengi evrunnar stjórnist af
því hvernig gangi á meginlandinu en okkar hagsveifla sé allt önnur og
krónan fylgi  þróuninni hjá okkur og þannig höfum við stjórn á okkar
efnahagsmálum með krónunni. þessi rök verða æ minna rétt með aukinni
alþjóðavæðingu. það hvernig vanskil á bandarískum fasteignalánum lækka
gengi krónunnar er gott dæmi um það. við erum hluti af hagkerfi
heimsins og verðum næmari fyrir breytingum erlendis með hverju árinu.
þó hagsæld hér ráði gengisþróun til mjög langs tíma eru allt aðrir
þættir áhrifamiklir á löngum tímabilum svo sem vextir á
alþjóðamörkuðum, framboð af lánsfé o.s.frv. enda hefur okkur ekki
gengið betur en svo að stjórna sveiflum í efnahagslífi að myntin okkar
er flokkuð með áhættusömum gjaldmiðlum.

nauðsyn trúverðugleika

og þá er eðlilegt að spurt sé hvers vegna við ættum að hafa litla,
sveiflukennda og áhættusama mynt þegar við getum með þátttöku í
evrópusamstarfinu og aga í efnahagsmálum tekið upp víðtækan, virkan og
viðurkenndan gjaldmiðil eins og evruna. í ljósi reynslu okkar af því að
hafa fljótandi krónu í vaxandi alþjóðavæðingu virðist margt benda til
að stöðugleiki verði meiri á íslandi til lengri tíma með því að taka
upp traustari mynt. þá er ótvírætt að slík breyting yrði mjög til að
auka traust og trúverðugleika íslenks atvinnulífs og fátt er
mikilvægara.

hagsmunir venjulegs fólks

það er ekki síður mikilvægt fyrir heimilin í landinu ef hér takist
að skapa þann stöðugleika sem skort hefur í áratugi, í honum eru
lífsgæði fólgin. fyrir nú utan að margir binda vonir við að upptaka
evru gæti beinlínis bætt lífskjör. ekki síst er vonast eftir lægri
vaxtakostnaði og má m.a. sjá það af því hve margir hafa sótt í
fasteignalán í erlendri mynt undanfarið. en á meðan launin eru í
annarri mynt en lánin, þ.e. krónunni, þá er mjög áhættusamt að taka
erlent lán. einkum á það við um ungt fólk sem á lítið í íbúðinni, er að
kaupa þegar fasteignaverð er mjög hátt og krónan sterk einsog hún hefur
verið. þá getur eign þeirra í íbúðinni einfaldlega étist upp við
breytingar á markaði en ef launin væru í evrum væri áhættan mun minni. 
þá má binda vonir við að fleiri fyrirtæki bjóði hér vöru og þjónustu
þegar við erum orðin hluti af stærri markaði en aukin samkeppni er jú
eitt brýnasta hagsmunamál neytenda í litlu landi eins og íslandi.  og
þegar litið er til þess að vörur hér eru jafnan miklu dýrari en almennt
á evrusvæðinu er eðlilegt að áhugi neytenda á breytingu aukist.

þó evran sé ekki töfralausn og dugi ekki til að leysa viðfangsefni
dagsins bendir æ fleira til þess að hún sé hluti af framtíðarlausninni
fyrir ísland og aðeins sé spurning um hvenær en ekki hvort. og kannski
það sé orðið brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála eftir þá miklu
eigna- og tekjuaukningu sem orðið hefur eftir inngöngu okkar í evrópska
efnahagssvæðið að treysta þau lífskjör í sessi með því að gera okkur að
hluta af stærri, traustari og hakvæmari markaði en við nú erum.

(pistill þessi birtist í blaðinu 11.08.07)

Heilbrigð skynsemi

blog

það er einfaldlega heilbrigð skynsemi að skipta um ríkisstjórn eftir 12
ára setu. það felur í senn í sér nauðsynlegt aðhald frá kjósendum og
varnar þeirri spillingu sem jafnan vex með langri valdasetu.

það er líka einfaldlega heilbrigð skynsemi sem segir okkur að nú sé
rétt að gera hlé á ríkisreknum stórframkvæmdum fyrir stóriðju. það er
það vegna þess að þenslan er of mikil og líka vegna þess að þau störf
sem íslenskt atvinnulíf sjálft getur skapað eru miklu áhugaverðari
fyrir ungu kynslóðina en stóriðjan. en það er líka heilbrigð skynsemi
vegna þess að við erum farin að ganga hættulega nærri náttúru landsins
og við þurfum að ákveða hvaða hluta landsins við viljum friða og eiga
þannig óspillta um aldur og ævi. ef við tökum okkur ekki hlé er hætt
við að fyrir skammtímagróða fórnum við náttúru- og umhverfisgæðum sem
við munum sjá eftir þann dag sem við fórnum þeim og alla daga þar
eftir.

lífskjör venjulegs fólks

það er líka bara heilbrigð skynsemi að vilja auka jöfnuð á íslandi.
einu sinni var það kommúnismi en nú er ójöfnuðurinn orðin svo mikill að
allt venjulegt fólk vill sporna við honum. enda er mesti kosturinn við
ísland og það að vera íslendingur sá jöfnuður sem hjá okkur hefur
verið, það jafningjasamfélag sem af jöfnuði leiddi og þessi ómetanlega
sannfæring um að allir hafi tækifæri og allir gert allt.

hver sem hugsar um alþjóðamál gerir sér grein fyrir því að við verðum
hluti alþjóðavæðingarinnar og að mestu skiptir að við höfum forystu um
það sjálf. það er þess vegna bara heilbrigð skynsemi að kalla eftir
stjórnvöldum sem taka vilja þátt í evrópusamvinnunni. enda bara
sjálfsagt mál að láta á það reyna í samningum hvort við getum náð fram
miklu hagstæðara matarverði og vöxtum fyrir venjulegt fólk. að ég nú
ekki tali um hin auknu útrásartækifæri íslenskra fyrirtækja og aukna
samkeppni í verði á vöru og þjónustu á íslandi sem af því myndi leiða.

til þess að fara að fullum krafti í evrópusamvinnuna þarf hins vegar
nýja ríkisstjórn sem endurheimtir stöðugleika í efnahagsmálum meðal
annars með þeim aga í ríkisfjármálum sem alveg hefur vantað síðustu ár
því í dag uppfyllum við ekki einu sinni skilyrðin fyrir því að taka upp
evruna. skynsemin segir okkur að tímabært sé að hverfa frá hinum eilífu
íslensku sveiflum í jafnari og stöðugri vöxt því sígandi lukka skapar
fjölskyldunum bestu lífskjörin.

velferð allra

það er ekkert ofstæki heldur hófsöm rökhyggja að álykta að það þurfi
að leggja meiri áherslu á velferðarmál en verið hefur. biðlistar
aldraðra, biðlistarnir á barna- og unglingageðdeild og blindu
skólabörnin eru bara nokkur dæmi um vanrækslu. það þarf heldur enga
öfga femínista til að sjá að aukinn launamunur kynjanna á síðustu 12
árum er falleinkunn fyrir ríkisstjórnina og sýnir með öðru að breytinga
er þörf.

það þarf sterkt afl með mikla kjölfestu til að breyta um stefnu. það
afl er samfylkingin sem jafnhliða breytingum mun standa vörð um frjáls
viðskipti, frelsi einstaklingsins og frumkvæði fólks og félaga. og svo
er það bara heilbrigð skynsemi að eftir 100 ár sé kominn tími til að
gera konu að forsætisráðherra okkar.

(þessi pistill birtist í blaðinu 12.05.07)