febrúar, 2007

Enginn Reykvíkingur í Sjálfstæðisflokknum?

blog

Það er rétt svo að maður fylgist með pólitíkinni með öðru auganu heima í fæðingarorlofi. En út um það sá ég í vikunni Sturlu Böðvarsson, sverð Sjálfstæðisflokksins sóma og skjöld í samgöngumálum, kynna framtíðaráætlanir sínar. Ekki hélt ég að fyrir okkur Reykvíkinga gæti vont versnað í þeim efnum, enda erum við vondu vön af samgönguráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Þeir láta okkur greiða langstærsta hluta bensíngjaldanna en verja aðeins einum þriðja þeirra til samgöngubóta hjá okkur. Í nýrri samgönguáætlun versnar þetta enn og er engu líkara en að í þingflokki Sjálfstæðismanna sé enginn Reykvíkingur svo algjörlega eru verkefnin hér hundsuð.

       
Yfirbyggðar kappakstursbrautir

Sem kunnugt er hefur mikill áhugi verið í tíð þessarar ríkisstjórnar á jarðgangagerð milli fáfarinna staða. Svo fáfarinna raunar að fréttir herma að þau nýjustu séu notuð til kappakstursæfinga, enda ótrúleg framför á snjóþungum svæðum að fá yfirbyggðar kappakstursbrautir með þessum hætti án nokkurs tilkostnaðar. Á þessum sama tíma er þessi sami Sjálfstæðisflokkur að leggja fram áætlun sem á kjörtímabili borgarstjórnar  gerir ekki ráð fyrir göngum við Mýrargötu og á Miklubraut, fjölförnum þjóðleiðum sem vegna byggðaþróunar þurfa að grafast í jörð að hluta. Hún gerir alls ekki ráð fyrir Öskuhlíðargöngum eða Kópavogsgöngum til að auðvelda samgöngur milli miðborgarinnar og Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar þó þar á milli séu farnar tugþúsundir ferða daglega. Hún gerir aðeins ráð fyrir hálfum mislægum gatnamótum á Miklubraut og Kringlumýrarbraut, hvernig sem það nú er hægt. Hins vegar fullri kostun mislægra gatnamóta í Elliðaárdal sem borgaryfirvöld hafa hafnað! Þá hefur flokkurinn eftir 16 ára samfellda setu í samgönguráðuneytinu ekki enn gert upp við sig hvaða leið eigi að fara með Sundabraut og hefur aðeins fundið fjármagn fyrir henni hálfa leið. Að Sundabrautin verði aðeins lögð hálfa leið fyrst um sinn hefur valdið íbúum Grafarvogs verulegum áhyggjum því þannig mun umferð til og frá borginni að verulegum hluta fara um hverfið. Er nema von að sagt sé að Reykvíkingar eigi enga stjórnarþingmenn? Og augljóslega er orðið brýnt hagsmunamál vegfarenda í Reykjavík að skipta um samgönguyfirvöld.

Almenningssamgöngur og loftslagsmál

Eitt síðasta verkið mitt á þinginu áður en ég fór  aftur í fæðingarorlof var að innan umhverfisráðherra eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Því miður var hún ekki tilbúin en hefur nú litið dagsins ljós með markmiði um helmings samdrátt loftmengunar á næstu 43 árum. Það er útaf fyrir sig lofsvert en ég spurði ráðherrann um afstöðu ríkisstjórnarinnar til yfirlýsinga Evrópusambandsins sem snúa að því að minnka mengun mun fyrr. Þar hafa menn sagt að þeir séu tilbúnir í 20% samdrátt innan 13 ára og 30% ef önnur iðnríki eru tilbúin til hins sama. Og eðlilegt er að spurt sé hvort við séum tilbúin í það. Og þá hvernig stjórnvöld hyggist gera það því aðgerðir ríkisstjórnarinnar virðast flestar vera í allt aðra átt eins og stóriðjupólitíkin, ofurgjöldin á díselolíu og tollaafslættir fyrir mest mengandi bílana eru allt dæmi um.

Og þegar við erum að ræða um samgönguáætlun sömu dagana er umhugsunarefni að í henni ætlum við að verja nærri 400 þúsund milljónum króna án þess að vart sé nokkurrar áherslu á almenningssamgöngur. Áhugi ríkisins á almenningssamgöngum hefur aðallega falist í að leggja skatta og gjöld á þær. Strætó borgar 300 milljónir í ár fyrir að fá að veita almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu! Og þó almenningssamgöngur verði aldrei nema lítill hluti lausnarinnar þá er hægt að efla þær. Það sýnir nýji meirihlutinn á Akureyri t.d. með því að hafa frítt í strætó og fjölga farþegum um helming með litlum tilkostnaði.

Grein þessi birtist í Blaðinu 17.02.2007.

Fátækt barna

blog

Vaxandi umræða er um fátækt og tekjuskiptingu. Á mánudag ræddum við skýrslu um fátækt barna sem forsætisráðherra lagði fram vegna beiðni minnar og nokkurra annarra þingmanna Samfylkingar. Á miðvikudag sótti ég svo fyrirlestur Hannesar Hólmsteins og skömmu áður Ragnars Árnasonar, en þeir félagar reyna nú að afsanna það að ójöfnuður fari vaxandi og að fátækt sé áhyggjuefni. Fyrir vikið stangast yfirlýsingar á og mikilvægt er að átta sig á hvað er rétt og hvað rangt, en yfirgripsmiklar rannsóknir Stefáns Ólafssonar eru sérhagsmunahópum greinilega áhyggjuefni.

Ríkisstjórnin vandamálið

Það er umhugsunarefni að hingað til hafi ekki verið fylgst með fátækt barna. Forsætisráðherra varð því að láta frumvinna upplýsingar til að geta svarað spurningum okkar og tók það nærri tvö ár því engar tölur um kjör barna þjóðarinnar voru til í samanburði OECD. Niðurstaðan hlýtur að vera okkur öllum áhyggjuefni því hún er sú að nær fimmþúsund börn á Íslandi hafi búið við fátækt árið 2004. Skilgreining Efnahags- og framfarastofnunarinnar miðar við þær barnafjölskyldur sem hafa eftir skatta innan við helming miðtekna. Þessi alþjóðlega viðurkennda skilgreining er auðvitað ekki algild, heldur fyrst og fremst vísbending og gefur okkur færi á samanburði við aðrar þjóðir því þó gallar geti verið á skilgreiningunni eru þeir í öllum löndunum og tölurnar því sambærilegar.

           

Á mánudag kom loks svar við spurningu okkar um hve mörg börn alist upp á heimilum sem hafa innan við 40% miðtekna, en það mætti kalla að vera undir neyðarmörkum. Það eru 2.300 börn eða um 3,3% samkvæmt svari Geirs Haarde. Afsökun forsætisráðherra var sú að fátækt væri yfirleitt tímabundið ástand, en sú kenning mun eflaust færa Geir Nóbelsverðlaun í hagfræði ef sannast. Það er auðvitað rétt að talsverður hluti hópsins getur verið á víxl yfir og undir mörkunum milli ára og sem betur fer vænkast hagur margra. En því miður er verulegur hluti þessara fimmþúsund barna sem býr við varanlega fátækt.

                       

Athyglisverðastur er þó samanburðurinn milli landa en þar ber Geir okkur saman við Mexíkó og Tyrkland og segir fátækt hér hvað minnsta í heiminum.En þegar við berum okkur saman við hin Norðurlöndin kemur í ljós að við stöndum verst því hér eru yfir tvöþúsund fleiri börn undir fátæktarmörkum en ef hér væri norrænt velferðarkerfi. Tekjudreifingin er hér ekki ójafnari en á Norðurlöndum en skatta- og bótakerfið er hér miklu lélegra. Með skatta- og bótakerfinu ná Norðurlöndin þremur af hverjum fjórum börnum yfir fátæktarmörk, en við aðeins öðru hverju barni. Það eru þannig hvorki atvinnulífið né verkalýðshreyfingin sem eru að bregðast heldur ríkisvaldið.

Ójöfnuður vex

Þetta kemur heim og saman við rannsóknir Ragnars Árnasonar sem benda til þess að þó bilið í tekjuskiptingu á vinnumarkaði hafi breikkað þá sé það ekki verulegt ef litið er framhjá fjármagnstekjum. Og eins og rannsóknir Stefáns Ólafssonar sýna þá er það einkum vegna aðgerða ríkisstjórnar sem misskiptingin hefur verið að aukast. Þar þyngist sífellt skattbyrði hinna lægstu vegna lágra skattleysismarka á meðan skattbyrði hinna hæstu lækkar. Þá er hæpið hjá Hannesi Hólmsteini og Ragnari að líta með öllu framhjá fjármagnstekjum, enda skattkerfið þannig uppbyggt að fjöldi manna tekur atvinnutekjur sínar út sem arðgreiðslur.

Afsakanir eins og þær að kjör hinna verst settu hafi samt batnað bíta í skottið á sér því þær vekja athygli á verðmætaaukningunni og þeirri staðreynd að okkur hefur mistekist að nota tekjuaukningu til að draga úr fátækt. Þessu  verðum við að breyta með nýrri ríkisstjórn sem leggur áherslu á að sem flestar barnafjölskyldur séu yfir fátæktarmörkum. Því þó mikilvægt sé að auka viðskiptafrelsi og ofskatta ekki aflaklærnar má auðlegðin ekki auka á misskiptinguna. Þá endum við með samfélagsgerð sem við viljum ekki sjá.

(Þessi grein birtist einnig í Blaðinu)