desember, 2007

Landsvirkjun Power

blog

Síðastliðinn þriðjudag var ég gestur í Kastljósinu, þar sem ég ræddi málefni Landsvirkjunar Power ásamt Álfheiði Ingadóttur. Þessar umræður er hægt að sjá hér.

Til upprifjunar og fróðleiks varðandi orkumálin, fylgir hér grein sem ég birti í Fréttablaðinu þann 10. október sl. Næsta dag var nýr meirihluti myndaður í borgarstjórn Reykjavíkur.

Hraðsala á almannaeign

Samfylkingin ræðir í kvöld á opnum fundi orkumálin, enda sýna atburðir síðustu mánaða að boðskapur okkar jafnaðarmanna um opinbera eign veitukerfa og almannaeign auðlinda var framsýnn og er réttur. Hættuástand hefur nú skapast þegar borgarstjórnarmeirihlutinn reynir í örvæntingu að klóra yfir klúður sitt í Reykjavík Energy Invest með því að efna til hraðsölu á hlut almennings í fyrirtækinu.

Þó rétt sé að selja hlutinn og hætta að koma óorði á útrásina er ekki sama hvernig og hvenær. Í fyrsta lagi er fráleitt að selja einkaaðilum meira en orðið er fyrr en Alþingi hefur afgreitt lög sem tryggja almannahagsmuni varðandi veitustarfsemi og eignarhald orkuauðlinda en þess er að vænta í vetur. Í öðru lagi er rangt að veita litlum hópi fjárfesta forkaupsrétt að þekkingu OR og viðskiptatækifærum erlendis. Í þriðja lagi er hætt við að í hraðsölu fái almenningur ekki sannvirði fyrir eignir sínar eins og varð við sölu bankanna, enda ekkert óháð verðmat farið fram.

Ef sátt á að takast um málið er nauðsynlegt að bíða lagasetningar og þess að forkaupsréttur falli úr gildi. Þegar því er náð þarf svo að tryggja aðkomu eigendanna, almennings, að sölunni. Það mætti gera með því að tryggja forkaupsrétt almennings. Eða einfaldlega með því að senda íbúum Reykjavíkur, Akraness og Borgarbyggðar sín hlutabréf sem fólk getur þá sjálft selt eða haldið. Eða efna mætti til atkvæðagreiðslu meðfram kosningum um ráðstöfun sölutekna til góðra verkefna. Með svipuðum hætti mætti einnig fara með gagnaveituna, ef vilji er til að selja hana.

Það hefur verið eftirtektarvert að í umróti síðustu daga hefur það verið minnihlutinn í borgarstjórn sem haldið hefur ró sinni, meðan meirihlutinn hefur hoppað um af hræðslu við eigin mistök. Vonandi tekst minnihlutanum með festu sinni að varna því að meirihlutinn fórni frekar en orðið er almannahagsmunum í angist sinni og innbyrðis átökum.

(Birtist í Fréttablaðinu 10. október sl.)

Sjálfstæðir einstaklingar

blog

Í þessari lokaviku þingsins var afgreitt margt þjóðþrifamálið. Auk löngu tímabærra breytinga á starfsháttum þingsins bar sjálft fjárlagafrumvarpið auðvitað hæst. Í því er ekki síst ástæða til að fagna mikilvægum áföngum í kjarabaráttu aldraðra og öryrkja.

Einna mikilvægast í því er að með fjárlögunum er tryggt fé til að uppfylla afnám tengingar lífeyris við tekjur maka en kostnaður við það er tæpir tveir milljarðar á ári. Þessi stefna var mörkuð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og með samþykkt fjárlaganna er tíu ára einbeittri baráttu Öryrkjabandalagsins og samtaka aldraðra loksins lokið.

Fyrir tíu árum bjuggu öryrkjar við það að væru þeir giftir eða í sambúð með manneskju með meðaltekjur voru þeim skammtaðar um tuttugu þúsund krónur á mánuði af ríkinu. Þeir voru þannig dæmdir til að biðja ástvin sinn um vasapeninga og grunnframfærslu. Eftir að hafa árum saman rætt við stjórnvöld um sjálfsagaðar lagfæringar á þessu, stefndi Öryrkjabandalagið ríkinu.

Sá sögulegi dómur Hæstaréttar að ríkisstjórnin hafi, með því að svipta þetta fólk nær öllum bótarétti, brotið á grundvallarmannréttindum þeirra verður lengi í minnum hafður.  Málatilbúnaður ÖBÍ og Ragnars Aðalsteinssonar var vandaður en það sýndi sjálfstæði hæstaréttar og kjark að kveða upp dóm í svo pólitísku máli.

Dabbía

Viðbrögð Davíðs Oddssonar og Framsóknarflokksins létu ekki á sér standa. Jón Steinar Gunnlaugsson var látinn semja nýtt fyrirkomulag svo áfram væri hægt að skerða tekjur fólks vegna tekna maka þeirra, þó ekki með jafn ósanngjörnum hætti og áður. Á næsta ári verða þær tengingar semsagt úr sögunni

Þegar maður lítur nú til baka er óskiljanlegt hvers vegna Davíð Oddssyni var svona mikið kappsmál að geta skert greiðslur lífeyrirsþega með tekjum maka þeirra. Málið er  augljóst mannréttindamál og snýst um það grundvallaratriði að vera sjálfstæður einstaklingur. Tekjutenging við maka leiddi einnig til þess að fólk í erfiðum félagslegum aðstæðum skráði ekki sambúð sína og giftist ekki. Þannig var óréttlætið jafnvel andstætt hjónabandinu og sjálf Þjóðkirkjan lét það til sín taka þess vegna. Þetta er líka brýnt jafnréttismál, því auðvitað voru það oftar konur sem þurftu að gjalda tekna maka sinna. Þetta er nú öllum augljóst en hitt furðulegt, hve langt stjórnvöld sukku í þá dabbíu sem málaferlin við öryrkja voru.

Sjálfsbjargarviðleitni

Annar mjög mikilvægur þáttur í þeim breytingum sem við gerum á næsta ári er að draga verulega úr öðrum tekjutengingum, þ.e. við atvinnutekjur. Það er skrýtið hvað löggjafinn gekk langt í að refsa fólki fyrir sjálfsbjargarviðleitni. Svo langt var gengið að tekjutengingar eru næstum orðnar skammaryrði. Eru þær þó hugsaðar til þess að eyða ekki dýrmætu skattfé í aðstoð við þá sem ekki þurfa. Þar að auki hefur reglufrumskógur og hans óréttlæti hvatt til undanskota og rangrar upplýsingagjafar.

Í tilfelli öryrkja hefur þetta verið jafnvel enn fráleitara, því fyrir mörg okkar sem fötluð eru, er það mikilvæg endurhæfing og félagslegur stuðningur að vinna. Það ætti þess vegna að vera sérstakt keppikefli samfélagsins að hvetja öryrkja á vinnumarkað en ekki refsa þeim. Sömu sjónarmið geta líka átt við um suma aldraða en síðar á kjörtímabilinu verður líka hætt að refsa þeim fyrir ráðdeildarsemi, með því að hætta að skerða lífeyri ef þeir taka út séreignasparnað. Enda eru það í hæsta máta einkennileg skilaboð til fólks að refsa því fyrir að leggja til hliðar fyrir elliárin. Þó það kosti mikið á pappírunum að hætta að refsa fólki fyrir allt að 100 þúsund krónu atvinnutekjur á mánuði og fyrir sparnaðinn, er ég sannfærður um að þegar dæmið er gert upp mun samfélagið hagnast á þessum breytingum. Því þegar við hvetjum fólk til sjálfshjálpar og ráðdeildarsemi skilar það sér í sköttum, betra heilsufari og sterkara samfélagi.

(Pistillinn birtist í 24 stundum 15.12)

Raflínur í jörð

blog

Á Alþingi hefur verið lögð fram tillaga til þingsályktunar um lagningu raflína í jörð og er ég fyrsti flutningsmaður hennar. Gagnrýni á sjónmengun af völdum háspennulína hefur vaxið samhliða aukinni raforkuframleiðslu. Það er því mikilvægt að fyrir liggi pólitísk stefnumörkun og að um hana náist góð sátt.

Þingmenn úr öllum flokkum eru meðflutningsmenn og stendur t.a.m. öll umhverfisnefnd þingsins að tillögunni. Verkefni eins og lagning raflína í jörð ætti að vera þverpólitískt og vænti ég þess að málið njóti víðtæks stuðnings í þinginu. Tillagan gerir ráð fyrir að nefnd hagsmunaaðila móti stefnu um hvernig leggja megi raflínur, sem nú eru ofan jarðar, í jörð á komandi árum og áratugum.

Tillöguna og greinargerð með henni má sjá hér.

FÁTÆKT BARNA Á ÍSLANDI

blog

Í apríl 2005 lagði ég ásamt fleiri þingmönnum Samfylkingar fram beiðni um skýrslu frá forsætisráðherra er fjallaði um fátækt barna á Íslandi. Samkvæmt skýrslunni, sem lögð var fram á Alþingi í desember á síðasta ári, kom fram að 6,6% íslenskra barna töldust búa við fátækt árið 2004, miðað við skilgreiningu OECD. Í ljós kom að staða Íslands hvað þetta varðar var góð miðað við önnur OECD ríki. Þegar kom að samanburði við hin Norðurlöndin, reyndist fátækt barna hins vegar vera mest á Íslandi.  Til að fylgja þessu máli eftir sendi ég fyrirspurn til Geirs H. Haarde forsætisráðherra, um fátækt barna og hvernig þróunin hafi verið hér á landi síðan 2004. Hér fylgir fyrirspurnin og svar forsætisráðherra.

LANGAR OG LEIÐINLEGAR RÆÐUR

blog

Forseti Alþingis og formenn fjögurra af fimm þingflokkum hafa lagt fram löngu tímabærar tillögur að breytingum á starfsháttum Alþingis. Einbjörn, Tvíbjörn og Þríbjörn, sem lengstar ræður halda á þingi, telja að með þessu sé vegið að málfrelsi í landinu og undirstöðum lýðræðis. Þetta er augljóslega misskilningur, því langar og leiðinlegar ræður eru hvorki forsenda málfrelsis né lýðræðis í landinu.

Þær takmarkanir á ræðutíma sem VG hrópar nú um eru þær að framsögumaður tali bara í hálftíma, en aðrir í 15 mínútur og svo eins oft og þeir vilja í 5 mínútur í senn! Sá sem ekki getur sagt skoðun sína á máli á 15 mínútum á að vera á endurmenntunarnámskeiði en ekki á Alþingi Íslendinga. Óheppilegt er þó að fimmti flokkurinn, VG, standi ekki að flutningi málsins, því löng hefð er fyrir samstöðu um breytingar á þingsköpum. En það er ekki bara meirihlutinn sem flytur það, heldur líka meirihluti stjórnarandstöðunnar. Óskandi er að við vandaða og málefnalega umfjöllun um málið á Alþingi takist á endanum full samstaða um það, enda brýnt framfaramál á ferðinni, sem eflaust má enn bæta í meðförum þingsins.

Neftóbakið kvatt

Það kemur nýju fólki alltaf jafn mikið á óvart hve úreltir starfshættir þingsins eru. Jafnvel neftóbakið er þar enn í hávegum haft. En með hinu nýja frumvarpi á loksins að leggja af ýmsa verstu lestina í starfsháttum.

Kvöldfundi á bara að vera hægt að halda á þriðjudögum, en næturfundir leggjast alveg af. Undrum hefur sætt það furðulega verkskipulag að verið sé að fjalla um mikilvæg löggjafarmálefni um miðjar nætur og ótvírætt að ýmis mistök má rekja til  óvandaðrar málsmeðferðar sem því fylgir. Með þessu verður vinnustaðurinn líka fjölskylduvænni en sá vinnutími sem hentaði miðaldra karlmönnum um miðja síðustu öld hentar illa fjölskyldufólki í dag, ekki síst einstæðum foreldrum.

Kvöld- og næturfundir hafa líka verið notaðir í óþolandi meirihlutaofbeldi þegar keyra á í gegn mál. Þá er fundum fram haldið út yfir öll skynsamleg mörk og stjórnarandstaðan grípur til þess að beita til varnar löngum og leiðinlegum ræðuhöldum. Þetta skipulag hefur hvorki gagnast meirihluta né minnihluta, heldur verið fremur tilgangslaust gagnkvæmt ofbeldi sem dregið hefur mjög úr virðingu þingsins. Um leið og horfið er frá því að beita kvöld- og næturfundum er þess vegna sjálfsagt að takmarka ræðutíma. Þó er gert ráð fyrir að flokkar geti farið fram á lengri tíma í stærri málum     

Breytt sumarleyfi

Í frumvarpinu eru líka ánægjulegar nýjungar, eins og aukin áhersla á snarpar óundirbúnar umræður þingmanna við ráðherra og stjórnarandstöðu gefið tækifæri til að kalla ráðherra fyrir þingnefndir.

Þá er gert ráð fyrir að breyta þinghaldinu þannig að fundað sé dreifðar yfir árið og sumarleyfi sé frá 1. júlí til 10. ágúst. Hið úrelta skipulag á starfsárinu hef ég oft gagnrýnt, bæði í þessum pistlum og umræðum á þingi og fagnaðarefni að nú sé að verða breyting á því. Alþingi fundar álíka lengi og afgreiðir svipaðan málafjölda og þekkist í löndunum í kringum okkur en þetta höfum við gert á maraþonfundum fyrir jól og á vorin en haft fáránlega langt sumarleyfi. Eftir þessar breytingar er starfstími þingsins orðin líkur því sem við þekkjum í nágrannalöndunum og á að leiða til bættrar lagasetningar.

Áhyggjuefni hefur verið hve alþingi hefur veikst frá því Davíð Oddsson varð forsætisráðherra 1991. Mikilvægt er að efla löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdavaldinu og að auka virðingu þingsins. Við þurfum að þróa lýðræði okkar frá hinu hráa meirihlutaofbeldi til gagnkvæmrar virðingar stjórnar og stjórnarandstöðu, m.a. með því að styrkja sérstaklega hina veiku stjórnarandstöðu. Sturla Böðvarsson á hrós skilið fyrir frumkvæði sitt í þá átt.

(Þessi pistill birtist í 24 stundum 1.12.07)