Maí, 2016

Sýnum í verki

Blaðagreinar

Þegar þrír af fjórum kjósendum flokks hætta að styðja hann snýst það ekki um umbúðir heldur innihald, um stefnu og trúverðugleika. Til að snúa vörn í sókn dugar ekki að tala. Samfylkingin þarf að gera.

Við þurfum að skapa traust með því að segja afdráttarlaust að við munum ekki mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum bak kosningum. Hann er ósamstarfshæfur vegna spillingarmála og hefur heitið því að standa gegn öllum kerfisbreytingum. Það er þess vegna sjálfsagt að eyða efasemdunum sem urðu til 2007 með því að ákveða strax að kjósi fólk okkur fær það ekki Sjálfstæðisflokkinn.

Stjórnarskrármálið er líka stórt trúverðugleikamál. Við eigum strax að semja við aðra stjórnarandstöðuflokka um hvernig það verði klárað að kosningum loknum. Svo við getum með sanni sagt að við höfum fylgt þessu lykilmáli í baráttunni gegn spillingu og fyrir lýðræði alla leið. Það sé þegar umsamið og lýst því með hvaða hætti því verði lokið.

Þá eigum við að ná stjórnarandstöðunni saman um fá en skýr sameiginleg loforð sem verði að veruleika fáum við til þess meirihluta. Fá en skýr – til að skapa traust á því að þeim megi ná.

Við þurfum líka að henda ýmsum áherslum sem urðu til í bólunni. Sækja nýjan kraft í grunngildi jafnaðarstefnunnar. Almennt opinbert heilsugæslukerfi og opinber spítali sem ekki sligar fólk með gjöldum. Félagslegar lausnir í húsnæðismálum eins og við byggðum upp á síðustu öld, svo sem verkamannabústaðir, kaupleiga og húsnæðissamvinnufélög. Evran er besta langtímalausnin en við verðum að horfast í augu við að hún er ekki jafn nærtæk og áður var. Þess vegna þurfum við að kynna miklu eindregnari stefnu gegn óhóflegum bankakostnaði og okurvöxtum þangað til evran fæst.

(meira…)

Framtíðarstjórnin

Blaðagreinar

Samfylkingin var stofnuð til þess að hugsjónin um jöfnuð, frelsi og samábyrgð yrði sterkt afl í íslensku samfélagi. Hvort sem flokkurinn hefur mælst stór eða lítill hef ég talað fyrir samstarfi við önnur félagshyggjuöfl. Því að það þarf meirihluta til að stjórna.

Til að kjósendur hafi skýran valkost er samstaða stjórnarandstöðuflokkanna mikilvæg fyrir komandi kosningar. Það á ekki að bjóða kjósendum upp á baktjaldamakk eftir kjördag. Samfylkingin á að segja skýrt að atkvæði greitt flokknum sé atkvæði með samstarfi við félagshyggjuflokka en ekki við Sjálfstæðisflokkinn sem er ósamstarfshæfur vegna spillingarmála. Þá þurfum við að ná saman við aðra fyrir kosningar um hvernig stjórnarskrármálinu verði komið í heila höfn, svo að því megi treysta að ný ríkisstjórn ljúki því lykilverkefni.

(meira…)

Athugasemd á þingi: Upp komast svik um síðir

Þingræða

Virðulegur forseti. Upp komast svik um síðir. Umboðsmaður Alþingis var á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun og upplýsti um að fram kynnu að vera komin gögn sem færðu okkur heim sanninn um það með hvaða hætti staðið var að aðkomu þýsks banka að einkavæðingu íslensku bankanna. Þegar fjárlaganefnd þingsins rannsakaði þetta fyrir um tíu árum síðan voru það þær upplýsingar sem helst skorti til að hægt væri að afhjúpa það svindl og svínarí sem þar var á ferðinni.

Það er þess vegna grundvallaratriði og mikilvægasta mál fyrir þingið til að afgreiða nú, ný löggjöf um rannsóknarnefndir og að skipa í kjölfarið rannsóknarnefnd til að fara yfir hvaða hlutverk Hauck & Aufhäuser bankinn þýski gegndi við einkavæðinguna. Það er auðvitað of snemmt að fullyrða um hvaða upplýsingar það eru eða til hvers þær munu leiða okkur. En við höfum mörg haldið því fram að ástæða sé til að ætla að þessi þýski einkabanki hafi ekki verið raunverulegur kaupandi að hlut í Búnaðarbankanum heldur hafi hann verið leppur fyrir íslenska aðila og að þessi erlenda fjárfesting sem svo var kölluRð og notuð til að réttlæta að menn gengu að tilboði þessa hóps í bankann hafi ekkert verið erlend fjárfesting heldur íslenskir peningar og jafnvel bara fengnir að láni úr sömu ríkisbönkum og verið var að afhenda þeim aðilum. Það er grundvallaratriði að kostað verði kapps um að upplýsa eins fljótt og verða má allan almenning í landinu um hvernig þessu var háttað og að sá sem fer í þá rannsókn fái alla fjármuni og starfsmenn sem hann þarf til að þær (Forseti hringir.) upplýsingar megi liggja hér á borðum landsmanna sem allra fyrst því að þarna er kjarnann í samsærinu um einkavæðingu bankanna að finna.


Ræða í umræðum um störf þingsins 24. maí 2016

Umræður á þingi: Verða kosningar í haust?

Þingræða

Í tíma fyrir óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi 23. maí 2016 tók ég umræðu við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, um hvort ætlunin væri að efna fyrirheit um þingkosningar í haust. Tilefni fyrirspurnarinnar voru óvæntar yfirlýsingar formanns Framsóknarflokksins. Öll umræðan er hér en texti með mínu framlagi til hennar er hér að neðan:

Fyrri ræðan:

Virðulegur forseti. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa ítrekað gefið út um það yfirlýsingar að gengið verði til kosninga í haust. Síðari hluti októbermánaðar hefur þar verið nefndur, en nú spyr ég: Má treysta því að þær yfirlýsingar standi? Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að formaður Framsóknarflokksins, sem nýkominn er úr leyfi, gaf út opinberar yfirlýsingar um það í gær að ekki væri nauðsynlegt að ganga til kosninga í haust. Nú hafa þær yfirlýsingar bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra verið nokkuð afdráttarlausar. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir að þetta kjörtímabil verði stytt um eitt þing og meðan formaður Framsóknarflokksins var í leyfi hefur hér verið afgreitt stærsta húsnæðismálið, sem var mál sem brann mjög á Framsóknarflokknum að þyrfti að ljúka. Í gær lukum við aflandskrónumálinu sem fjármálaráðherra hafði lagt ríka áherslu á.

Ég spyr þess vegna hvort við megum ekki treysta því að sú starfsáætlun sem lögð hefur verið og þau áform að efna til kosninga í haust standist. Það er mikilvægt fyrir starfið í þinginu en það er líka mikilvægt fyrir lýðræðislegt starf utan þingsins og undirbúning flokka, bæði sem eru á þingi og eru utan þings, um framboð og aðra slíka hluti og nauðsynlegt er að hæstv. fjármálaráðherra taki af öll tvímæli um hvaða fyrirætlanir eru uppi.

(meira…)