mars, 2007

Til hamingju Hafnarfjörður

blog

Í Garðabæ dettur engum í hug að leyfa byggingu álvers í bænum. Álver í Garðabæ hljómar jafnvel skemmtilega fjarstæðukennt. Þar hvarflar auðvitað ekki að nokkrum manni slík áhersla í atvinnuuppbyggingu og óhugsandi er að íbúarnir þar myndu samþykkja að færa þær fórnir í umhverfi, ímynd og loftgæðum sem slíkri starfsemi fylgir. Svona stóriðja er jú jafnan byggð upp á láglaunasvæðum þróunarlandanna og í iðnríkjunum á svæðum sem lengi hafa átt í erfiðleikum og glímt við atvinnuleysi eða fólksflótta. Á slíkum stöðum er fólk nefnilega tilbúið að færa fórnir fyrir verksmiðjustörf.

Hafnarfjörður er athyglisverð undantekning frá meginreglunni en þar er verksmiðja frá gamalli tíð sem vill gott betur en tvöfalda sig. Auðvitað orkar það tvímælis í nútímasamfélagi og hefur bæjarstjórnin undir forystu Samfylkingarinnar brugðið á það ráð að láta bæjarbúa sjálfa ákveða í atkvæðagreiðslu í dag hvort leyfa skuli stækkun. Það er óvenjulegt að almenningi sé með þessum hætti leyft að ráða úrslitum stórra mála og full ástæða til að óska Hafnfirðingum til hamingju með þetta tækifæri til að ráða sjálfir þróun bæjarins. Þetta er spennandi tilraun í þróun lýðræðis og gaman að sjá hinn mikla áhuga sem á kosningunni er.

Austur og öfgar

Eins og í öðrum kosningum eru engar skorður settar við auglýsingum. Óhóflegur og einhliða fjáraustur í áróður sýnir að í framtíðinni þarf að setja aðilum mörk því menn kunna sér ekki hóf. En fjáraustur getur auðvitað slegið í báðar áttir og óhóf í auglýsingum getur skerpt andstöðu.

Sama máli gegnir um öfgarnar á báða bóga, þær eru sjaldnast málstaðnum til framdráttar. Þannig var eðlilegt fyrir andstæðingana að afsaka ómálefnalega auglýsingu um hræðilega mengun því þó mengun frá álverum sé mikil er hún langt undir heilsuverndarmörkum. Með svipuðum hætti hefur verið leiðinlegt að fylgjast með hræðsluáróðri um lokun og að sjá starfsmönnum og atvinnu þeirra beitt fyrir vagninn með myndbirtingum o.fl. Og þó vita allir að álfyrirtæki slást um að fá að byggja hér verksmiðju af þeirri stærð sem er í Straumsvík núna. Hún er því ekki að fara að loka, hvernig sem atkvæðagreiðslan fer.

Hræðsluáróður á báða bóga lýsir auðvitað helst vantrausti á kjósendum. Auðvitað vita Hafnfirðingar að bæði eru kostir og gallar við stækkunina. Þeir vita að verksmiðjan skapar störf en fælir frá önnur. Að hún mengar en borgar í bæjarsjóð. Að hún eykur verðbólgu og hækkar vexti en eykur hagvöxt. Og það eru engir betur til þess fallnir en bæjarbúar sjálfir að meta þessa kosti og galla, þó kommúnistar kunni að vera annarrar skoðunar.

Davíð í Samfylkinguna

Ekki er líklegt að ráðist verði í nema eitt verkefni í stóriðju. Jafnvel Seðlabankastjóri er genginn til liðs við Samfylkinguna og segir það óráðlegt. Kyoto leyfir heldur ekki nema eitt verkefni. Ef umhverfismál og efnahagsástand leyfa að ráðist verði í þessa einu stóriðjuframkvæmd þarf að liggja fyrir hverjir vilja svona starfsemi. Þær raddir hafa heyrst að um stækkun í Straumsvík ættu fleiri en Hafnfirðingar að mega kjósa en það er misskilningur því við kjósum um umhverfis- og atvinnustefnuna í alþingiskosningum í maí.

Hvort Hafnfirðingar vilja fyrir sitt leyti leyfa stækkun í Straumsvík er alfarið bæjarmál, því það snýst um bæjarbraginn og sjálfsmynd bæjarbúa. Þó að á mörgum öðrum svæðum suðvestanlands leggi menn áherslu á þjónustu og þekkingarstörf þá er það algjörlega mál Hafnfirðinga ef þeir vilja leggja áhersluna á þungaiðnað. Það val þeirra hlýtur fyrst og fremst að ráðast af trú á eigin getu og möguleikum Hafnarfjarðar í framtíðinni og það mat leggja þeir sjálfir. Og þó lýðræðið sé flókið, seinvirkt, erfitt og dýrt er engin betri leið til að ráða úrslitum mála.

Nefndanefndanefndin

blog

 

Það er merkilegt þetta með nefndirnar. Ég sat í einni slíkri hjá menntamálaráðherra sem skilaði niðurstöðu 2004 um að langvarandi skort á stuðningi við blind og sjónskert skólabörn þyrfti að bæta. Einkum skyldi það gert með því að stofna þekkingarmiðstöð sem hjálpað geti skólum og kennurum að kenna þessum nemendum. Síðan þetta var eru liðin þrjú skólaár. Hingað hafa komið erlendir sérfræðingar og staðfest mikla þörf fyrir þjónustuna og viðtöl hafa birst við foreldra sem tekið hafa sig upp með rótum og flutt til annarra landa til að fá viðunandi þjónustu við börnin sín. Blindrafélagið var farið að spyrja hvort blindir þurfi menntun og ég ákvað því að inna hæstvirtan menntamálaráðherra eftir því hvað þekkingarmiðstöð liði.

 

Og viti menn! Ráðherra upplýsti að nærri þremur árum eftir að hennar eigin nefnd skilaði tillögunni hafi hún skipað aðra nefnd! Síðast þegar fréttist voru 246 nefndir starfandi á vegum menntamálaráðuneytisins og í þeim sátu 2052 nefndamenn, eða um 1% af vinnuafla á Íslandi.

 

Nú skortir hvorki góð orð, fundi, skýrslur, nefndir og velvilja menntamálayfirvalda í þessu máli. Það skortir bara aðgerðir. Enda um smámál að ræða fyrir menntamálaráðherra en stórmál fyrir þá sem þjónustuna þurfa. Þetta er eitt af þessum málum þar sem kerfin benda hvert á annað og þrátt fyrir hverja nefndina á fætur annarri gerist ekkert nema ráðherra taki sjálf af skarið. Það mun sú ágæta kona eflaust gera og vonandi fyrir kosningar enda þverpólitísk samstaða um þetta litla mál. Það er þó umhugsunarefni hve langan tíma það hefur tekið og var afhjúpandi í svari ráðherra að hún tók skýrt fram að nýja nefndin sem hún væri að skipa væri ekki bara enn ein nefndin, svo notuð séu hennar eigin orð, heldur ætti þessi sem sagt að gera eitthvað í málinu!

 

Vestfjarðanefndanefndin

 

Enn ein nefndin, af þeirri gerð sem ekkert gerir og eiga bara að svæfa málin var svar ríkisstjórnarinnar við ákalli almennings á Vestfjörðum. Ráðþrota stjórnvöld sem gáfu vinum sínum fiskinn á Vestfjarðamiðum skipa nefnd um vandann. Ég er löngu hættur að muna hvað þeir hafa skipað margar nefndir um vanda Vestfjarða en það voru bara enn einar nefndirnar. Enn einu nefndirnar virðast vera skipaðar til að láta líta út fyrir að menn séu að gera eitthvað en þeir gera svo ekki neitt.

 

Þannig hefur ríkisstjórninni ekki ennþá tekist árið 2007 að malbika veg til Ísafjarðar frá Reykjavík. Má það þó heita mannréttindamál að byggðakjarninn í heilum landshluta sé í vegasambandi við höfuðborgina og hefði átt að vera langt á undan ýmissi gangnagerð í forgangi. En ríkisstjórnin brást í þessu því hún taldi mikilvægast að slá á þenslu með því að fresta framkvæmdum á samdráttarsvæðum.

 

Stjórnarskrárnefndin

 

Nýr formaður Framsóknarflokksins féll svo á fyrsta vorprófinu sínu hér við þinglokin með fráleitri framgöngu í stjórnarskrármálum. Það gönuhlaup allt í stjórnarskrárnefndunum sýnir kannski betur en nokkrar aðrar nefndir uppdráttarsýkina í stjórnarsamstarfinu og hversu erindi þeirra við þjóðina er þrotið. Þegar Geir og Jón voru algjörlega hættir að geta varið eigið frumvarp og ekki síður virðingarleysi sitt við stjórnarskrána þá vísuðu þeir sínu eigin frumvarpi út úr þinginu án afgreiðslu og í enn eina nefndina. Nefnilega stjórnarskrárnefndina sem starfaði lengi og hafði undirbúið vandaða breytingu á stjórnarskrá um eignarhald á auðlindum sem aldrei verður flutt. Enda var það bara enn ein nefndin. Hún lagði að vísu samhljóða til að ákvæði um þjóðaratkvæði við breytingar á stjórnarskrá ætti að setja inn. En það verður ekki einu sinni gert. Enda er ríkisstjórn Geirs og Jóns löngu hætt að gera neitt, nema auðvitað í nefndum.

(Pistill þessi birtist einnig í Blaðinu 17. mars 2007)

Ókeypis

blog

Það er skemmtilega lýsandi um hve miklir umhverfissóðar við Íslendingar erum að við höfum sama orð um kjána og umhverfisverndarmann: græningi. Þó brá mörgum í brún að sjá loftmengun hér borna saman við það sem gerist á meginlandi Evrópu í iðnaðarhaugnum sjálfum. Tala nú ekki um þegar við erum jafn rík af tuttugu metrum á sekúndu og raun ber vitni. En það er ekki alltaf rok og æ oftar er loftmengun hér yfir heilsuverndarmörkum með alvarlegum afleiðingum, ekki síst fyrir börn og ungmenni.

Samt höfum við lítið sem ekkert hafst að. Í raun hafa flestir ekki fyrr en síðustu ár áttað sig á því hve alvarleg mengunin er og eitthvað eru göturnar vonandi bleyttar meira en áður var. En við höfum frekar horft á mengunina en að grípa til áhrifaríkustu aðgerðanna sem er að hreyfa við nagladekkjunum. Það er nefnilega, þrátt fyrir vitneskju okkar um mengunina og afleiðingar hennar, ennþá ókeypis að menga með nagladekkjum og öllum frjálst. Þó vitum við að fyrir aldamótin ákváðu þeir í Osló að setja mengunarskatt á naglana og minnkuðu mengun í borginni mælanlega með því einu. En þó margt sé dýrara á Íslandi en annars staðar er þó oftast ókeypis að menga.

Loftmengun með tollafsláttum

Það er oft áhugavert að fylgjast með umræðum okkar um loftmengun. Við erum þannig oft ákaflega áhugasöm um nýja tækni í bílaiðnaði. Einhverja nýja tækni sem ef til vill og kannski geta orðið til þess að draga úr mengun eftir þrjátíu ár en þangað til munum við menga heiminn jafn mikið eða meira og síðustu tvær aldir. Við höfum hins vegar engan áhuga á því sem hægt er að gera til að draga úr mengun bifreiða núna. Þannig hafa stjórnvöld beinlínis lækkað álögur á eyðslufreka bíla frá því sem áður var, enda á að vera ókeypis að menga. Af mjög eyðslufrekum bílum eru svo veittir sérstakir tollaafslættir í nafni landbúnaðar. Síðasta aðgerð ríkisstjórnarinnar til að minnka mengun bílaflotans voru breytingar á olíugjaldi til að hvetja fólk til að skipta úr bensínbílum yfir í dýrari en umhverfisvænni díselbíla. Það er gert með því að láta díselolíuna vera dýrari en bensínið!

En þetta eru auðvitað smámunir hjá mengandi stóriðju. Einhvern veginn höfum við haft þetta tuttugu metra á sekúndu viðhorf til hennar og látið okkur loftmengun í léttu rúmi liggja enda blási það allt burt.  En nú þegar við erum orðin einhver stærsti málmbræðir heims dugir það viðhorf ekki lengur. Við þurfum einfaldlega að hafa raunverulegar áhyggjur af mengun stóriðjunnar og taka þá afstöðu að það sé ekki æskilegt að menga og spilla meiru ókeypis í hennar þágu. Já ókeypis, því alla þá mengun og náttúrufórnir sem þessu hafa fylgt hafa verið ókeypis.

Slegist um ókeypis mengun

Nú höfum við bætt um betur með því að fá sérstök heimildarákvæði til að menga um 1,6 milljón tonna meira árlega en ella og sú mengunarheimild veldur því að helstu álfyrirtæki heims slást um að fá að stækka, byggja við og byggja nýjar mengandi bræðslur því það er ókeypis. Við setjum verðmiða á það sem máli skiptir og í því kerfi okkar skipta náttúrugæði ekki máli því þeim fórnum við fyrir ekki neitt. Það er umhugsunarvert verðmætamat sem minnir á frumbyggja.

Vont en það versnar. Því nú hefur umhverfisráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp um að þegar við verðum búin að gefa alþjóðafyrirtækjunum leyfin til að auka mengun á Íslandi þá geti þau keypt sér mengun í útlöndum, eða skógrækt og mengað í krafti þess enn meir á Íslandi. Ætli það verði ekki bæði tollfrjálst og skattfrjálst að flytja inn erlenda mengun? Hvað sem því líður hvet ég alla til að koma á morgun klukkan tvö í Háskólabíó og sjá í boði okkar í Samfylkingunni brýna heimildarmynd Al Gore um stærsta viðfangsefni samtímans loftslagsmálin. Ókeypis.

(Þessi pistill birtist í Blaðinu 03. mars 2007)