Maí, 2008

Fagra Bitra

blog

Á þriðjudaginn (20. maí) fengum við fulltrúa Skipulagsstofnunar á fund umhverfisnefndar þingsins til að segja frá álitsgerð þeirra um Bitruvirkjun. Sú álitsgerð markar tímamót í umhverfismálum og sama dag samþykkti stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að falla frá áformum um virkjunina og borgarstjórnin fagnaði ákvörðuninni í framhaldinu.

Þetta er sérstaklega athyglisvert fyrir okkur í Samfylkingunni. Fyrir tveimur árum síðan lögðum við nýjar áherslur í umhverfismálum undir fyrirsögninni: „Fagra Ísland“. Sú stefnubreyting varð til þess að við snérum vörn í sókn og í kjölfarið náðum við góðum árangri í kosningum og mynduðum ríkisstjórn. Eftir myndun hennar hafa pólitískir andstæðingar okkar reynt af veikum mætti að draga upp þá mynd að við höfum brugðist „Fagra Íslandi“.

Þetta var ekki síst áberandi eftir úrskurð umhverfisráðherra um álver í Helguvík. Þá töldu sumir að ráðherrann hefði átt að setja þá framkvæmd í nýtt umhverfismat, sem Þórunn Sveinbjarnardóttir taldi að væri ekki í samræmi við lög. Því fylgdu furðulegar upphrópanir um að hér væru að rísa á vegum Samfylkingarinnar ný álver við hvern fjörð.

Staðreyndin er hins vegar sú að á þessu kjörtímabili er ekki að rísa neitt álver nema hugsanlega í Helguvík. Stjórnarflokakarnir höfðu sem kunnugt er ólíka stefnu í umhverfismálum og því var í stjórnarsáttmálanum samið um að ráðast í „Fagra Ísland“ en að þau leyfi sem búið var að gefa út af fyrri ríkisstjórn yrðu ekki afturkölluð. Það þýðir að ríkisstjórnin mun gera áætlun fyrir landið allt um það hvaða svæði við viljum vernda í náttúrunni en hugsanlega getur risið álver í Helguvík ef það nær samningum um orku, raflínur, losunarheimildir o.s.fr.

Vaxandi mikilvægi náttúrunnar

Álit Skipulagsstofnunar á Bitruvirkjun mun hafa veruleg áhrif á áætlun okkar um vernd náttúru Íslands. Í fyrsta áfanga rammaáætlunar sem kynntur var fyrir nokkrum árum komu jarðvarmavirkjanir vel út. Tíðarandinn þá var sumpart sá að vatnsaflsvirkjanir væru ómögulegar en jarðvarmavirkjanir mjög jákvæðar. Náttúruvendarfólk gagnrýndi hins vegar niðurstöðurnar og taldi þær ekki taka nægjanlegt tillit til náttúru og landslags. Eins sættu þær gagnrýni útivistar- og ferðaþjónustufólks.

Álitið um Bitruvirkjun bendir til þess að sú gagnrýni hafi átt við rök að styðjast því þar er einmitt meiri áhersla en áður lögð á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Kannski Hellisheiðarvirkjun hafi átt þátt í þessari viðhorfsbreytingu, enda er hún í alfaraleið og afhjúpar að jarðvarmavirkjanir eru ekki litlar og krúttlegar heldur verulegt lýti á náttúrunni. Auðvitað hefur líka áhrif að eftir því sem við tæknivæðumst meira þess mikilvægara verður að standa vörð um náttúruna.

Óþolandi umhverfi

Áætlun okkar um verndun náttúru landsins snýst ekki bara um náttúruna. Um leið og við verndum hana tökum við afstöðu til þess hvað ekki á að vernda og þar með nýta til orkuvinnslu. Það er óþolandi umhverfi fyrir orkufyrirtækin að fá ekki skýr skilaboð um það hvar má virkja og hvar ekki.

Orkuiðnaður er ein mikilvægasta atvinnugrein okkar Íslendinga og nú þegar kreppir að í efnahags- og atvinnumálum er brýnt að honum séu búin skilyrði til að nýta sóknarfæri sín. Það er auðvitað enn mikilvægara nú þegar við erum að fást við hrikalegar afleiðingar hnattrænnar hlýnunar að þessi fyrirtæki okkar geti virkjað endurnýjanlegar auðlindir.

Pólitíkin hefur brugðist orkuiðnaðinum. Ef undan er skilinn iðnaðarráðherrann hafa pólitíkusarnir klúðrað útrásinni með staðfestuleysi og stefnuleysi í náttúruverndarmálum um árabil sem bitnar nú á virkjunum hér heima. Það eru nefnilega sameiginlegir hagsmunir náttúruverndar og orkuiðnaðar að við drögum skýrar línur um „Fagra Ísland“ og sú áætlun verður lögð fram á næsta ári. Umhverfismatið vegna Bitruvirkjunar mun sem betur fer stuðla að því að þar njóti náttúran vafans.

Pistillinn birtist í 24 stundum 24. maí sl.

Frelsi til sjálfsbjargar

blog

Sómi okkar jafnaðarmanna í Samfylkingunni, sverð og skjöldur, Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra mælti í vikunni fyrir enn einu framfaramálinu á Alþingi. Hér er um að ræða afgerandi hækkun á svokölluðu frítekjumarki örorkulífeyristaka, eða upp í eitthundrað þúsund krónur á mánuði. Frítekjumark er sú upphæð sem öryrki má hafa í tekjur án þess að tekjurnar fari að skerða lífeyrisgreiðslur hans frá tryggingastofnun. Með þessu frumvarpi erum við að stíga enn eitt skref til þess að uppfylla kosningaloforð okkar við öryrkja.

Það er furðulegt til þess að hugsa nú hve langt hefur verið gengið í tekjutengingum gagnvart lífeyrishöfum, bæði öryrkjum og öldruðum. Eitt af því sérkennilegasta í þeim tekjutengingafrumskógi öllum hefur verið sú hugmynd að refsa þeim grimmilega sem orðið hafa fyrir örorku fyrir að vinna. Enda hafa báðir stjórnarflokkarnir haft það á stefnuskrá sinni um árabil að létta tekjutengingarnar, þó það sé fyrst nú að komast verulega til framkvæmda 1. apríl sl. og 1. júlí nk. Og fjárhæð frítekjumarksins er sambærileg við ítrustu kröfur stjórnarandstöðunnar á síðasta kjörtímabili og mun bæta kjör fjölda fólks verulega.

Sóun á öryrkjaauðnum

Hver maður sér hve óskynsamlegt það hefur verið að letja öryrkja til vinnu. Í fyrsta lagi er greiddur skattur af tekjunum og ríkið hefur því haft beinan ávinning af tekjuöflun öryrkja án þess að nota tekjurnar sem tilefni til að skerða bætur. Í öðru lagi er sérstaklega mikilvægt að hvetja öryrkja til aukinnar atvinnuþátttöku þar sem hún getur beinlínis haft jákvæð áhrif á heilsufar fólks. Í þriðja lagi er vinnan leið til að rjúfa félagslega einangrun sem oft er fylgifiskur örorku sem eykur vandann og dregur úr lífsgæðum.

Við höfum uppskorið eins og við höfum sáð. Á hinum Norðurlöndunum er atvinnuþátttaka öryrkja helmingi meiri en hér og hefur þar þó ekki verið jafn gott atvinnuástand. Meðan hér er aðeins um þriðjungur öryrkja í einhverri vinnu er það yfir helmingur í grannlöndunum. Þannig höfum við með því að vanrækja endurhæfingu og með tekjutengingunum sóað þeim mannauði sem öryrkjar eru. Það er þess vegna líka fagnaðarefni að í nýgerðum kjarasamningum voru tekin mikilvæg skref til að efla starfsendurhæfingu og annan stuðning við fólk á vinnumarkaði sem misst hefur starfsorku. Ef við getum með markvissum aðgerðum hjálpað fleirum út á vinnumarkaðinn aukast lífsgæði mjög margra verulega.

Skipulögð fátækt

Óhóflegar tekjutengingar skemmdu mikið fyrir annars ágætu almannatryggingakerfi. Með þeim vék nefnilega hugmyndin um almannatryggingar sem styðja áttu fólk til sjálfshjálpar, fyrir þeirri hugsun að allir yrðu að vera jafn fátækir í kerfinu. Það var þannig orðið að skipulagðri fátækt engum til ávinnings. Því er fagnaðarefni að tekjutengingar vegna lífeyrisgreiðslna hafa verið minnkaðar. Líka að horfið hafi verið frá því að refsa fólki fyrir séreignasparnað en það segir nú allt sem segja þarf um vitleysuna sem viðgekkst að fólki var skipulega refsað fyrir að spara. Þá er ónefnt það mikla mannréttindamál sem afnám tenginga við tekjur maka var. Þá kemur fyrirhuguð hækkun skattleysismarka ekki síst þessum hópum til góða.

En þó margt hafi þegar áunnist  má ekki slá slöku við. Verðlag hækkar mikið og nýlega hafa hinir lægst launuðu fengið talsverðar kjarabætur. Mikilvægt er að lífeyrishafar fái sambærilegar hækkanir, enda áríðandi að aldrei dragi aftur í sundur með þeim lægst launuðu og öldruðum og öryrkjum, eins og gerðist á tryggingavakt Framsóknarflokksins. Það verður því spennandi að fá tillögur að breyttu og bættu almannatryggingakerfi síðar í sumar og mikilvægt að það takist sátt um fyrirkomulagið eftir þær jákvæðu breytingar sem gerðar hafa verið síðustu mánuði.

Pistillinn birtist í 24 stundum 10. maí

Aðgerða er þörf

blog

Í dag á baráttudegi verkalýðsins er ánægjulegt að minnast þess að nýfrjálshyggjunni hefur í vetur verið útrýmt úr íslensku samfélagi. Það þurfti ekki annað til en örlítið gæfi á bátinn í efnahagsmálum til að allt frjálshyggjukvakið viki fyrir áköllum um að ríkið komi strax öllu til bjargar. Kaffihúsaspekingar sem fyrir nokkrum misserum töldu stjórnmálamenn óþarfa eiga nú ekki orð yfir því að pólitíkusarnir beiti ekki valdi sínu af meiri hörku. Svona er nú skoðanahringekjan skemmtileg og frítt um borð fyrir alla. Afhjúpar auðvitað að þessi viðhorf byggðust á lífsreynsluskorti fyrst og fremst og hverfa því einsog dögg fyrir sólu þegar alvara lífsins blasir við.

Þegar á bjátar verður nefnilega svo augljóst, ekki síst í litlu samfélagi einsog okkar, að við erum öll á sama báti. Við köllum það meira að segja „Þjóðarskútuna“ því hvað sem öllu hjali líður erum við á hvers annars ábyrgð og þörfnumst samfélagslegra aðgerða til að halda sjó. Og nú mæna menn á forsætisráðherrann og bíða þeirra aðgerða sem boðaðar hafa verið.

Mikilvægast er auðvitað efling gjaldeyrisvarasjóðs sem legið hefur fyrir í nokkra mánuði að verður efldur. Það er skiljanlegt að ýmsa lengi eftir því en um leið einnig það sjónarmið að rétt sé að bíða betri kjara á lánum en buðust í vetur. Áhættuálag á bankana hefur farið hratt lækkandi sem skapar betri skilyrði fyrir lántökur. Efling verðlagseftirlits og virkt samráð við verkalýðshreyfingu og vinnuveitendur er líka mikilvægt þegar verðbólga geysar til að ná megi henni hratt niður. Mótvægisaðgerðir til að auka framkvæmdir hins opinbera á samdráttartímum eru líka mikilvægar, sem og aðgerðir í húsnæðismálum. Ábyrgðarlaus árás Seðlabankans á fasteignamarkaðinn vekur áhyggjur um óhóflegan samdrátt sem mæta þurfi. Vaxtalækkun Íbúðalánasjóðs nýlega var góðs viti og afnám stimpilgjalda og fleiri úrræði eru ríkinu nærtæk.

En um leið og aðgerða er þörf er yfirvegun nauðsynleg og mikilvægt að muna að þótt tímabundið hægi á eru undirstöður lífskjara í landinu traustar.

Birtist í 24 stundum 1. maí sl.