september, 2006

Örvæntingarfullur fjármálaráðherra

blog

Eftirfarandi grein birti ég í Fréttablaðinu á dögunum:

 

Örvæntingarfullur fjármálaráðherra

 

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag gefur að líta yfirlýsingu fjármálaráðherra um að „verðbólguskotið“ sé á niðurleið. Tilefnið virðist vera að í einn mánuð hefur verðbólga lækkað frá fyrri mánuði. Þó er hún þrefalt hærri en verðbólgumarkmiðið og gefur ráðherranum fremur tilefni til að vera í felum en á forsíðum blaðanna. Skuldir meðalheimilis aukast um hátt í eina milljón króna á ári í þessu ástandi.

 

Í þokkabót lækkaði verðbólga ekki í síðasta mánuði heldur féllu útúr 12 mánaða viðmiðun miklar hækkanir haustið 2005. Í hálft þriðja ár hefur verðbólgan verið yfir markmiði. Aðeins fimm ár eru liðin síðan ríkisstjórnin missti síðast verðbólgu í tæp tíu prósent og kallar það „mjúka lendingu“. Verðbólgan hér er ekki skot heldur viðvarandi því ríkisstjórnin lætur reka á reiðanum og virðist ekki telja hana vandamál.

 

Vonandi mun verðbólgan hníga en því ræður fremur samdráttur á fasteignamarkaði en aðgerðir stjórnvalda. Alla fjármálaráðherratíð Árna Mathiesen hefur hún verið yfir markmiði  og engin ástæða til að fagna fyrr en markmiðinu er náð. Í miðjum ævintýralegum viðskiptahalla, mikilli verðbólgu og hæstu vöxtum í heimi er það hlutverk fjármálráðherra að vara við, en hella ekki olíu á eld óraunsærra væntinga. Við þær aðstæður er svo ekki síður áhyggjuefni forsíðu-uppsláttur sem minnir meira á auglýsingabækling Sjálfstæðisflokksins um efnahagsmál en á ábyrgan fjölmiðil.

Annasöm vika

blog

Þetta hefur verið annasöm vika, enda fer saman að nú er prófkjör að hefjast og Alþingi kemur saman um mánaðarmót með tilheyrandi undirbúningi.

Þingflokkurinn fór í upphafi vikunnar í vinnuferð upp í Glym í Hvalfirði til að leggja línurnar fyrir veturinn og í gær funduðum við saman forystufólk í Reykjavík. Um kvöldið var svo félagsfundur þar sem kynnt var hin nýja umhverfisstefna Samfylkingarinnar sem ég segi betur frá hér á síðunni síðar.

Undirbúningur þingmála og prófkjörs hafa að öðru leyti einkennt vikuna en törnin hjá okkur í fjárlaganefnd hefst á mánudagsmorgun og stendur með linnulitlum fundum fram í desember. Ég náði þó að líta aðeins inn í Héraðsdóm í vikunni og fylgjast með stórmerkilegu máli sem Kjarvalsfólkið hefur höfðað gegn Reykjavíkurborg því ágreiningur er um eignarhald á hluta þeirra muna sem borgin tók við hjá Kjarval. Ekki er ljóst hvort þeir munir sem fjarlægðir voru úr vinnustofu hans og settir upp á Korpúlfsstaði voru teknir til geymslu hjá borginni eða eignar og engin gjafabréf eða afsöl eru til sannindamerkis um eignarhald borgarinnar, enn sem komið er.

Örvæntingarfullur fjármálaráðherra

blog

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag gefur að líta yfirlýsingu fjármálaráðherra um að „verðbólguskotið“ sé á niðurleið. Tilefnið virðist vera að í einn mánuð hefur verðbólga lækkað frá fyrri mánuði. Þó er hún þrefalt hærri en verðbólgumarkmiðið og gefur ráðherranum fremur tilefni til að vera í felum en á forsíðum blaðanna. Skuldir meðalheimilis aukast um hátt í eina milljón króna á ári í þessu ástandi.

 

Í þokkabót lækkaði verðbólga ekki í síðasta mánuði heldur féllu útúr 12 mánaða viðmiðun miklar hækkanir haustið 2005. Í hálft þriðja ár hefur verðbólgan verið yfir markmiði. Aðeins fimm ár eru liðin síðan ríkisstjórnin missti síðast verðbólgu í tæp tíu prósent og kallar það „mjúka lendingu“. Verðbólgan hér er ekki skot heldur viðvarandi því ríkisstjórnin lætur reka á reiðanum og virðist ekki telja hana vandamál.

 

Vonandi mun verðbólgan hníga en því ræður fremur samdráttur á fasteignamarkaði en aðgerðir stjórnvalda. Alla fjármálaráðherratíð Árna Mathiesen hefur hún verið yfir markmiði  og engin ástæða til að fagna fyrr en markmiðinu er náð. Í miðjum ævintýralegum viðskiptahalla, mikilli verðbólgu og hæstu vöxtum í heimi er það hlutverk fjármálráðherra að vara við, en hella ekki olíu á eld óraunsærra væntinga. Við þær aðstæður er svo ekki síður áhyggjuefni forsíðu-uppsláttur sem minnir meira á auglýsingabækling Sjálfstæðisflokksins um efnahagsmál en á ábyrgan fjölmiðil.

Að ala á ótta

blog

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur gert að umtalsefni tilraun tánings til að drepa mann sem hann gagngert kynntist á netinu í því augnamiði. Telur ráðherrann þetta dæmi um þær nýju hættur sem mæta þurfi með áherslum hans um nýjar lögreglusveitir, -deildir og rannsóknarheimildir. Er þó vandséð hvernig þeir tilburðir allir ættu að koma í veg fyrir slík tilvik. Þessa sömu daga fann sérsveit ráðherrans sér það verðuga viðfangsefni að kljást við unglinga í Skeifunni eftir eltingarleiki sumarsins við hóp mótmælenda. Og þrátt fyrir þetta gleðilega verkefnaleysi boðar ráðherrann að enn þurfi að auka við sérsveitir, stofna greiningardeild, leyniþjónustu og auka rannsóknar-heimildir lögreglu allt í nafni öryggis.

 

Öll viljum við búa við öryggi, en lögregluríkið er ekki leiðin að því. Öryggi okkar höfum við best tryggt með því að stuðla að jöfnuði í landinu og með öflugu velferðarkerfi sem ásamt góðri almennri löggæslu hefur gert Ísland öruggt samfélag. Þær þjóðir sem nálgast hafa viðfangsefnið úr sömu átt og Björn Bjarnason hafa hinsvegar flestar ratað í ógöngur og eru Bandaríkin skýrasta dæmið um það. Hvergi eru sérsveitirnar öflugri, leyniþjónusturnar og greiningar-deildirnar fleiri og engin önnur þjóð hefur t.d. nálgast eiturlyfjavandann sem hreina styrjöld (war on drugs) jafnvel með vopnuðum aðgerðum í öðrum ríkjum. Og óvíða er glæpatíðnin meiri og öryggisleysið, og fangelsin þó yfirfull.

 

Í stað þess að feta þær ógöngur ættu verkefni okkar að vera að styrkja almenna löggæslu, taka á ofbeldi gegn konum og þróa úrræði til að rjúfa vítahring síbrota, einkum með markvissum úrræðum fyrir unga afbrotamenn. En á þessum hversdagslegu verkefnum sumum er óverulegur áhugi. Fangelsismálin í svo fullkomnum ólestri að sumir kalla það glæpamannaframleiðslu ríkisins sem 19. aldar dýflisan við Skólavörðustíg er táknrænt dæmi um. Og vegna þess dæmis sem ráðherrann vísar til var athyglisvert þegar fréttaskýringarþátturinn Kompás benti á að í verslunum væri átölulítið verið að selja börnum undir aldri raðlimlestinga- og fjöldamorðingjaleiki, enda yfirvöldin upptekin við háleitari viðfangsefni en hversdagslegan veruleika okkar Íslendinga.

 

Gleðileg brottför hersins hefur svo enn aukið á lögregluríkishugmynd-irnar í því öryggisleysi sem nú hefur heltekið dómsmálaráðherrann. Þó er brottförin staðfesting þess að aldrei í sögu lýðveldisins hefur verið eins friðvænlegt í þessum heimshluta og til hvers segullinn sé hér þarf ekki lengur að spyrja. Það kann auðvitað að leiða til þess að hin almenna lögregla þurfi greiningardeild til samskipta við öryggis-stofnanir í öðrum löndum og gott væri að fá lög um þá leyniþjónustustarfsemi sem fram fer hjá Ríkislögreglustjóra en að hér þurfi að auka njósnir um borgarana af þessu tilefni er algjörlega fráleitt. Það er einfaldlega ekkert tilefni til að hætta þannig rétti okkar til einkalífs.

 

Hryðjuverkaógnin hefur auðvitað kallað á endurmat í öryggismálum. En nú þegar fimm ár eru liðin frá árásinni á Bandaríkin er tímabært að gera upp við ranghugmyndirnar sem af þeim spruttu. Viðbrögð okkar við breyttum heimi eiga ekki að vera að reisa lögreglumúra utan um líf okkar með öryggislögreglum, sérsveitum, leyniþjónustum og rannsóknarheimildum. Þá er alið á óttanum og þannig sigra hryðjuverkamennirnir því þeir vilja skapa okkur öryggisleysið og gera lögregluríkið að hlutskipti okkar. Hugmyndafræði hernaðarhyggjunnar liggur til grundvallar þessum tillögum um öryggisstofnanir og eftirlit, það er sama hugmyndafræði sömu manna og varð til þess að við sendum vopnaða sveit til Afganistan og áttum aðild að innrásinni í Írak. Það hernám hugarfarsins dregur ekki úr hættu á hryðjuverkum heldur eykur hana. Stríð Bandaríkjamanna gegn hryðjuverkum hefur nefnilega ratað í svipaðar ógöngur og stríð þeirra gegn eiturlyfjum, það hellir olíu á eld og skerpir vítahring átaka í stað þess að stuðla að friði. Það er tímabært að hafna þeim tindátaleik en auka öryggi okkar þvert á móti með því að treysta aftur gömlu gildin um friðsama þjóð, frelsi einstaklingsins og réttinn til einkalífs.

Hneykslanleg framganga lífeyrissjóðanna

blog

Vegna aðgerða lífeyrissjóðanna gegn öryrkjum leitaði Blaðið eftir viðbörgðum frá mér og birti í dag grein undir fyrirsögninni:

Skerðing örorkulífeyris:

Hneysklanlegt framferð og kolröng viðmiðun.

Þingmenn gagnrýna lífeyrissjóðina

Vilja að sjóðirnir endurskoði ákvörðun sína

Framganga lífeyrissjóðanna gagnvart öryrkjum er hneykslanleg og skólabókardæmi um það sem menn eiga ekki að gera að mati Helga Hjörvars, alþingismanns. Hann segir það ömurlegt að fátækasta fókið í landinu þurfi að standa í sífelldum málaferlum við ríki og eigin stéttarfélög. Lífeyrissjóðunum ber að endurskoða þær reiknireglur sem þeir nota til skerðingar á lífeyrisgreiðslum segir Ögmundur Jónasson, þingmaður.

Kolröng viðmiðun

„Lífeyrissjóðirnir hljóta að sjá að sér í þessu enda má þeim vera ljóst að þeir eru að vega að eigin undirstöðum,“ segir Helgi Hjörvar, alþingismaður. „Ef við erum ekki tryggð fyrir örorku í sameignarlífeyrissjóðum og þá hljótum við að spyrja hvort einhver ástæða sé til að starfrækja þá og hvort hver og einn eigi ekki að sinna sínum séreignasparnaði.“

Öryrkjabandalag Íslands undirbýr nú málsókn á hendur 14 lífeyrissjóðum í kjölfar ákvörðunar þeirra um að skerða og í sumum tilfellum fella niður lífeyrisgreiðslur til 2.500 öryrkja. Hefur bandalagið gagnrýnt lífeyrissjóðina fyrir að styðjast við neysluvísitölu í framreikningum á bótum en ekki lauanvísitölu. Þá krefst bandalagið þess að þeir falli frá ákvörðun sinni.

Sjóðirnir hafa hins vegar bent á að heildartekjur margra öryrkja hafi í raun hækkað eftir orkutap og því eigi þeir ekki legnur rétt á lífeyrisgreiðslum.

Helgi segir að með þessu séu sjóðirnir að svipta öryrkja einu voninni um að lyfta sér upp úr fátækt. Þá gagnrýnir hann ennfremur þær forsendur sem sjóðirnir styðjast við í sínum útreikningum. „Það er verið að taka kannski 20 þúsund króna greiðslu á mánuði af fólki sem hefur hverfandi tekjur með vægast sagt vafasömum reiknikúnstum þar sem greiðslur eru skertar á grundvelli kolrangrar vísitöluviðmiðunar.“

Þá bendir Helgi á að falli lífeyrissjóðirnir ekki frá ákvörðun sinni þurfi málið að koma til kasta Alþingis. „Það er ömurlegt að fátækasta fólkið í landinu þurfi að standa í sífelldum málaferlum. Ef ekki við ríkið þá við sín eigin stéttarfélög til að halda þeim litlu bótum sem það hefur. Falli sjóðirnir ekki frá ákvörðun sinni hlýtur Alþingi að þurfa fjalla um þessar skerðingar og skýra réttindi örorkulífeyrisþega í lífeyrissjóðskerfinu.“

Ber að endurskoða

Ögmundur Jónasson, alþingismaður, tekur undir orð Helga og segir óeðlilegt að framreikningur örorkubóta byggi á neysluvísitölu en ekki launavísitölu. „Lífeyrissjóðunum ber að endurskoða þær reiknireglur sem þeir styðjast við. Á undanförnum árum hafa almenn laun hækkað talsvert umfram neysuluvísitölu og það er því hætt við að öryrkjar dragist aftur úr launafólki.“

Þá segir Ögmundur mikilvægt að ríkið og lífeyrisjóðirnir hafi nánara samstarf sín á milli. „Allar breytingar á greiðslum Tryggingastofnunar eru iðulega ávísun á lífeyrissjóðina og öfug. Mér finnst því fráleitt annað en að ríkið og lífeyrissjóðirnir komi sér saman um að hafa miklu nánara samstarf sín á milli þannig að einn sé ekki að vísa á annan.“