október, 2006

Kosningaskrifstofan opnuð

blog

það var eitthvað ólag á hljóðblogginu um helgina svo færslurnar fóru ekki inn, en í gær tókum við á móti á þriðja hundrað manns í kaffi og vöfflur í kosningamiðstöðinni í Landsímahúsinu. Fréttastofa Stöðvar tvö sýndi frá því um kvöldið þegar Þórhildur var á sunnudagsmorgninum að taka niður myndina af Sigríði Andersen en setja upp mynd af mér. Það var góður andi við opnunina, Við Jón Baldvin fluttum ræður, Margrét Pálma kom með frábærar stelpur úr stúlknakór Reykjavíkur og Helga Arnalds var með leikhús fyrir börnin. Þarna hafa baráttur Hönnu Birnu, Guðfinnu og Sigríðar verið háðar í ár og við fengum lánað ýmislegt frá Sigríð og hennar fólki svo af opnuninni gæti orðið.

Um kvöldið var ég svo að fylgjast með hvernig vinkonu minni Helgu Völu gengi í prófkjörinu í NV kjördæmi. Hún var að flakka milli þriðja og fimmta sætis og endaði í því síðarnefnda sem verður að teljast frábær árangur fyrir nýliða í pólitík nýfluttan í kjördæmið enda er mikið í Helgu spunnið. Auðvitað eru margir þarna vinir manns og kunningjar og alltaf svolítið flókið í þessum prófkjörum að um leið og maður gleðst yfir velgengni sumra þeirra er hún um leið á kostnað annarra. Sigurvegarar prófkjörsins voru Guðbjartur og ekki síður séra Karl sem rís á ný eftir ósigur í síðasta prófkjöri mörgum vinum hans til óblandinnar ánægju. Eftir situr samþingkona mín Anna Kristín Gunnarsdóttir sæti neðar en síðast og hugsanlega ekki í þingsæti, því við höfum bara átt tvo menn þarna.
Óneitanlega finnst manni það skrýtið að eina konan í tíu þingmanna hópi skuli ekki hljóta betri kosningu. En kynjasjónarmið virðast ekki vera mjög sterk í þessu kjördæmi. Þannig finnst Sjálfstæðisflokknum það svo lítið mál að þarna sé engin kona hjá þeim og aðeins ein fyrir allt kjördæmið að þeir ákváðu bara að stilla upp! Og það væntanlega fjórum körlum í fjögur efstu sætin. Við eigum margar sjómílur í land í jafnréttismálum, en í þingflokki Samfylkingarinnar höfum við borið gæfu til jafnræðis milli kynja sem ég vona að við höldum.

Þú tryggir ekki eftir á

blog

Þessi grein mín birtist í Fréttablaðinu í dag, 26. október.

Þú tryggir ekki eftir á

Friðrik J. Arngrímsson skrifar afhjúpandi grein um aðför lífeyrissjóðanna að öryrkjum undir fyrirsögninni Öryrkjana burt úr lífeyrissjóðunum. Þar færir hann rök fyrir því að öryrkjar eigi bara að vera á bótum Tryggingastofnunar, en hinir öflugu lífeyrissjóðir bara að vera fyrir ellilífeyrisþega. Þetta málefnalega sjónarmið má ræða en félagshyggjufólk sér að það væri aðeins fyrsta skrefið í einkavæðingu sjóðanna.

Um aðförina að 2.300 öryrkjum gildir hins vegar að taka átti af þeim virk lífeyrisréttindi á meðan réttindi annarra sjóðfélaga voru jafnvel aukin á sama tíma. Maður tryggir ekki eftir á og því síður breytir maður reglum og framkvæmd eftir á til að skerða virk réttindi þeirra sem treysta á samtryggingarþátt lífeyrissjóðanna. Réttur lífeyrishafanna sem byrjaðir eru að taka lífeyrinn er einfaldlega varinn af eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Friðrik er forystumaður LÍÚ, sem telur að úthlutun kvóta sem skapaði nokkrum mönnum tugmilljarðar gróða sé varin af eignarréttarákvæðinu. Þegar í hlut á fólk sem flest hefur1 til 2 milljónir í árstekjur og treystir á 20 þúsund króna lífeyrisgreiðslu í lífsbaráttunni þá telur Friðrik það ekki varið af eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég vona að það góða fólk sem fer fyrir lífeyrissjóðunum noti 3. mánaða frestun aðgerða til þess að leita leiða sem tryggja líka velferð þeirra félaga sem verða fyrir örorku, eins og hinna, í stað þess að reyna að losna bara við okkur einsog Friðrik vill.

Fullkomin falleinkunn

blog

Þessi grein birtist í Blaðinu í vikunni:

Fullkomin falleinkunn

 

Þegar félagi minn, Rannveig Guðmundsdóttir, var félagsmálaráðherra fyrir tólf árum síðan kynnti hún ítarlega úttekt á launamisrétti kynjanna. Svo tók við ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Nú í vikunni kynnti félagsmálaráðherra árangur síðustu tólf ára með niðurstöðum sams konar könnunar og gerð var fyrir tólf árum. Og árangurinn er nákvæmlega enginn. Launamisrétti kynjanna er nákvæmlega jafn slæmt og þegar þessir flokkar tóku við. Og það er einfaldlega fullkomin falleinkunn í stærsta mannréttindamáli samtímans að ná engum árangri á tólf árum.

 

Það er kannski til marks um almenna uppgjöf að það var víðast ekki nema fjórða eða fimmta frétt að enn séu daglega mannréttindi brotin á öðrum hverjum Íslendingi og það í jafn miklum mæli og fyrir áratug síðan. Það er líka merkilegt að okkur blöskrar þetta svo að við reynum að tala allar stærðir niður. Þannig er sagt að óútskýrður launamunur þýði að konur hafi 16% lægri laun, en ekki að við karlar höfum 20% hærri. Það er líka sagt að í heildina hafi konur þriðjungi lægri laun, í stað þess að segja eins og er að við strákarnir erum með helmingi hærra kaup.

 

Aukaverkefni

 

Nú ber ríkisstjórnin ekki ein ábyrgð á þessum víðtæku mannréttindabrotum á konum. Það gerum við öll. Og ríkisvaldið mun ekki eitt og sér leysa launamisréttið. Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum til þess. En ríkisstjórnin hefur forystu fyrir landinu og á að leiða baráttuna gegn launamisréttinu. Það á að gera kröfu um að forysta í baráttunni gegn launamisrétti sé forgangsmál ríkisstjórnarinnar og það er hægt að gera kröfu til þess að á tólf árum miði eitthvað áleiðis. Hvorugu er til að dreifa.

           

Það var þó lofsvert þegar ríkisstjórnin innleiddi í þverpólitískri samstöðu ný lög um fæðingarorlof. Að örðu leyti hefur launamisréttið verið einhvers konar aukaverkefni, falið einu fagráðuneytanna og enginn árangur næst. Þau verkefni sem tekin eru alvarlega, þeim er sinnt af ríkisstjórninni sjálfri og gjarnan stýrt úr forsætisráðuneytinu. Þetta sjáum við t.d. þegar kemur að varnarviðræðum við Bandaríkin. Við sjáum þetta líka í ráðherranefnd um einkavæðingu, því einkavæðingin skiptir svo miklu máli að hópur ráðherra stýrði henni. Upplýsingatækninni var líka sinnt þvert á ráðuneyti og „Einfaldara Ísland“ er enn eitt af verkefnum forsætisráðherra. Af þessu sést að það eru einfaldlega önnur verkefni sem hafa forgang hjá ríkisstjórninni en glíman við launamisrétti kynja.

           

Þegar ríkisstjórnin ætlar sér eitthvað raunverulega, eins og að virkja, þá er ómælt fé sett í rannsóknir, sérfræðiaðstoð, áætlanagerð og loks framkvæmd. Enda rísa virkjanirnar. Engin slík alvara er í áætlunum og framkvæmd í jafnréttismálum.

 

Nýir vendir sópa best

 

Við í Samfylkingunni höfum með félögum okkar í stjórnarandstöðunni lagt fram tillögur um aðgerðir í þessum efnum. Þær snúa bæði að launaleyndinni og heimildum Jafnréttisráðs. Áður hefur Samfylkingin lagt til að jafnréttismálin verði gerð að ábyrgð forsætisráðherra, svo aðeins séu nefnd nokkur dæmi um það sem hægt er að gera. Og mergurinn málsins er sá að ríkisstjórnin er einfaldlega ekki að gera allt sem hægt er í málinu. Hennar tólf ár hafa engu skilað okkur og tími er til kominn að fela þeim forystuna sem vilja grípa til róttækra aðgerða. Og við kunnum til verka. Undir forystu Ingibjargar Sólrúnar gerði Reykjavíkurlistinn jafnréttismál að forgangsmáli og ábyrgð borgarstjóra. Og með áætlunum og stefnu í kjarasamningum náðist umtalsverður árangur í að minnka launamun hjá borginni. Slíka forystu þurfum við nú fyrir landinu.

Við þurfum sterkan forsætisráðherra

blog
Atburðir síðustu vikna afhjúpa hve veik forysta er fyrir ríkisstjórninni. Fyrst er til að taka viðræðurnar við Bandaríkjastjórn um brottför hersins. Þær voru samfelldur ósigur sem enduðu með því að það eina sem herinn skildi eftir var mengunin og við þurfum að kosta þrifin.

Stjórn efnahagsmála er þó stærra áhyggjuefni því verðbólgan er á fullri ferð og vextir þeir hæstu í okkar heimshluta. Forsætisráðherra virðist ekkert þrek hafa til að ráðast gegn vandanum og hefur gefist upp við að halda aftur af ríkisútgjöldum þrátt fyrir ástandið. Tilraun til að halda aftur af framkvæmdum rann út í sandinn því Geir gat ekki staðið gegn útgjaldakröfum á kosningaári.

Fyrirrennarar Geirs hafa varnað því í tuttugu ár að hvalveiðar verði hafnar. Þrátt fyrir ríkan vilja til þess í landinu að veiða hval hafa þeir staðið á bremsunni vegna orðspors okkar erlendis og annarra hagsmuna. En sú fyrirstaða er nú rokin út í veður og vind.

Átakanlegast var þó að sjá forsætisráðherra á laugardag þar sem hann neyddist til að taka sjálfur að sér prófkjörsbaráttuna fyrir Björn Bjarnason. Fylgismenn Geirs, með Guðlaug Þór Þórðarson í broddi fylkingar hafa sótt hart að Birni, en Geir brast úthaldið. Þjóðin horfir uppá ráðalausan forsætisráðherra sem ekki er fær um að taka á hlerunarmálunum og þeim deilum sem af þeim hafa sprottið, en bugtar sig og beygir fyrir Birni Bjarnasyni.

Við þurfum ekki á þessu að halda. Við þurfum sterkan forsætisráðherra sem ræðst gegn verðbólgunni og ofurvöxtunum og hefur þrek til að halda aftur af ríkisútgjöldum. Við þurfum forsætisráðherra sem leiðir nýja stefnu í öryggismálum fyrir Ísland, en þiggur ekki bara og hlýðir haukunum í Bandaríkjunum. Við þurfum forsætisráðherra sem getur leitt uppgjörið við kalda stríðið og hefur forystu um friðhelgi einkalífsins. Þess vegna þurfum við nýja ríkisstjórn undir forystu Samfylkingarinnar og formanns hennar.

Útrýmum launamun kynjanna

blog


#

Þetta er hljóðbókarfærsla, með því að smella hér að ofan heyrirðu skoðun Helga á máli dagsins.
Powered by Hexia

Menntun, atvinnuilíf, Evrópa og skattar

blog

Sumir halda að hægri menn vilji efla atvinnulífið en vinstri menn vilji efla velferðarkerfið. Þetta átti kannski við í stjórnmálum tuttugustu aldarinnar en í nútímanum hafa línurnar breyst. Það er nefnilega þannig að menntakerfið sem að við jafnarðarmenn höfum byggt upp, hvað öflugast og best í heiminum, hefur reynst vera það mikilvægasta sem atvinnulíf í nútímanum getur byggt á.

Vel menntaðar þjóðir, þar sem jafnrétti til náms og öflugt almennt skólakerfi eru ráðandi, það eru þær þjóðir þar sem atvinnulífið er öflugast og þróttmest. Með öflugu menntakerfi getur atvinnulífið einfaldlega nýtt sér þá þekkingu sem er í samfélaginu til staðar og með eigin frumkvæði drifið áfram aflvél hagkerfisins. Þeir stjórnmálamenn sem nú ráða á Íslandi halda að hér sé ennþá tuttugasta öldin, að við þurfum pólitíkusa sem að ákveða að byggja verksmiðjur í einhverjum firði fyrir fólkið. Við þurfum ekki svoleiðis stjórnmálamenn.

Við þurfum stjórnmálamenn sem að efla íslenskt menntakerfi í þágu atvinnulífsins og skapa því almenn skilyrði til velsældar. Það gerum m.a. með því að efla og styrkja tengslin við Evrópu. Með því að leggja af íslensku krónuna, sem að líka tilheyrir liðinni öld, og skapa hér efnahagsumhverfi eins og gerist með öðrum þjóðum, þannig að erlendir fjárfestar í ríkari mæli leggi peninga í að byggja upp ný störf á íslandi. Og við þurfum líka að fara í skattkerfið og opinbera kerfið utan um atvinnulífið, einfalda það og stokka upp.

Við eigum að vera algjörlega óhrædd við að keppa við aðrar þjóðir í skattamálum því að það er einfaldlega þannig að við þurfum að skapa fyrirtækjum á Íslandi skilyrði í skattamálum sem eru ívið betri heldur en gerist t.d. á meginlandi Evrópu. Vegna þess að það er einfaldlega þannig að við erum eyja langt norður í hafi og það verður að vera ávinngur að setja sig niður hér með sína starfsemi.