Merki: ‘Skuldamál’

Dæmi hver fyrir sig

Blaðagreinar

Sigmundur Davíð neitar að hafa gefið fyrirheit um 300 milljarða leiðréttingu frá hrægömmum til skuldara fyrir síðustu kosningar. Sem betur fer búum við núorðið í þannig heimi að einfalt er fyrir flesta að fara bara á netið og hlusta t.d. á viðtal RÚV við hann fyrir kosningar.

Hitt er þó óumdeilt að Framsóknarflokkurinn lofaði að leiðrétta forsendubrestinn. Sá hluti íslenskra heimila sem fær leiðréttingu mun fá að meðaltali um 1,1 milljón. Hver og einn getur metið það hvort það sé sá forsendubrestur sem skuldsettu heimilin í landinu urðu að meðaltali fyrir. Leiðréttingin nemur 72 milljörðum eða 5,7% af verðtryggðum skuldum heimilanna og 3,75% af heildarskuldum heimilanna. Lesendur muna best sjálfir hvort þetta eru prósentutölurnar sem talað var um. Þá þræta menn varla um að þessi fyrirheit hafi verið kölluð af Sigmundi Davíð upprisa millistéttarinnar. 1,1 milljóna króna lækkun á verðtryggðu láni Íbúðalánasjóðs mun leiða til allt að 7.000 kr. lægri greiðsubyrði á mánuði fyrir þau heimili sem aðgerðirnar ná til. Hvort það jafngildir upprisu metur fólk best sjálft.

Þá var ótvírætt lofað heimsmeti en umfang aðgerðanna er skv. hagdeild ASÍ svipað og aðgerða síðustu ríkisstjórnar. Útfærslan núna hefur hins vegar meiri þensluáhrif og vegna þess að ekkert hefur verið gert í verðtryggingunni er hætt við að á móti komi ýmiss kostnaður fyrir heimilin í hækkun verðtryggðra lána, vaxta og verðlags almennt. Þar sem þetta er hvorki forsenduleiðrétting né nýting á svigrúmi hrægamma, heldur framlag af skattfé, er líka ástæða til að hafa efasemdir að sanngjarnt sé að undanskilja í aðgerðunum efnaminnstu heimilin og þau skuldsettustu en greiða hluta fjármunanna til hátekju- og stóreignafólks í staðinn.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 31. mars sl.

Það verður að fara í almennar aðgerðir

blog

Helgi Hjörvar kvartar yfir umræðu um skuldamál. Ýmist telji menn að hægt sé að gera allt fyrir alla án kostnaðar eða að ekkert sé hægt að gera. Hann vill innleysa skatttekjur á frjálsan viðbótarlífeyrissparnað, nýta 20 milljarða króna afslátt sem lífeyrissjóðir fengu á húsnæðislánum og að bankarnir komi til móts við lántakendur. Þannig sé hægt að koma til móts við stóran hóp lántakenda.

Helgi Hjörvar er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Hann segir að eftir dóm Hæstaréttar í gengismálum, sem féll fyrr í þessum mánuði, sé óhjákvæmilegt að grípa til almennra aðgerða, að minnsta kosti gagnvart þeim lántakendum sem tóku íslensk íbúðarlán á tímabilinu frá 2004 til 2008. Tímabilið miðast við það þegar 90% lán komu á markað. „Grundvallaratriði í skuldamálum heimilanna er að komast upp úr þeim hjólförum sem umræðan hefur verið föst í. Annars vegar hefur ranglega verið gefið í skyn að hægt sé að gera allt fyrir alla og það kosti ekki neitt og á hinn bóginn er því haldið fram að ekkert sé hægt að gera í almennum aðgerðum.“

Helgi segir að áróður um að hægt sé með einhverjum hætti að lækka skuldir heimilanna þannig að aðeins erlendir kröfuhafar bæru kostnaðinn hafi spillt fyrir. „Það er ekki rétt, vegna þess að stór kúfur í skuldum heimilanna er náttúrlega hjá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðunum. Lækkun á þeim skuldum mun enginn borga nema við sjálf.“

Virðum meginreglur

Sumir hafa talað fyrir því að breyta vísitölunni afturvirkt og lækka skuldirnar með því móti. Helgi segir það að ýmsu leyti vafasama leið og hætt sé við að hún haldi ekki fyrir dómstólum og ríkið yrði þá bótaskylt fyrir breytingunum í heild sinni. Þá þurfi einnig að gæta þess að halda meginreglur.

„Ég held að við höfum lært það af dómi Hæstaréttar. Hann áréttaði að ef maður fer út í banka og borgar greiðsluseðil þá hefur maður afgreitt málið. Með sama hætti þurfa lánveitendur að geta treyst því að forsendum fyrir þeirra lánum verði ekki breytt með afturvirkum hætti. Það hefði kannski mátt gera í neyðarlögunum. Það var ekki gert og ég held að það séu fleiri gallar en kostir við að reyna að gera það eftir á.“

Peningaprentun ótrúverðug

Helgi segir sér að peningaprentunarleiðin hafi verið notuð í verðhjöðnunarástandi einhvers staðar. Hún gangi hins vegar illa upp í 6,5% verðbólgu, líkt og er hér á landi.

„Aðalhagfræðingur Seðlabankans hefur einnig sagt að þetta bitni á eigin fé bankans og við þurfum að gæta vel að því. Sá sem setur Seðlabankann sinn tvisvar í röð á hausinn þarf að hafa áhyggjur af því að það verði ekki mikill áhugi á að lána honum peninga eftir það. Svo finnst manni skrítin tilhugsun, að stjórnmálamenn eigi bara að geta látið prenta peninga til að leysa vanda íbúanna. Það hljómar mjög ótrúverðugt í eyrum óhagfræðimenntaðs manns.“

Lífeyrisskuldbindingar

Helgi segir vel mega ræða þá hugmynd að láta lífeyrissjóðina bera kostnaðinn. Þjóðin hafi sýnt þá fyrirhyggju að leggja inn 2.000 milljarða þar og hægt sé að láta þá bera einhvern hluta af áfallinu og vinna ári lengur, svo dæmi tekið.

„Það er málefnaleg hugmynd sem vert er að ræða. Mér finnst hún þó varhugaverð af þremur ástæðum: við skuldum vel á annað hundrað milljarða króna inn í almenna lífeyrissjóðskerfið og yfir 400 milljarða inn í opinbera kerfið og ekki er ráðlagt að auka þá skuld. Í þriðja lagi lítur sem betur fer út fyrir að við munum lifa lengur og verða heilsubetri eftir því sem tímarnir líða. Skuldbindingar lífeyrissjóðanna verða þá meiri og við þurfum að vinna lengur, alveg óháð þessu skuldavandamáli. Það væri þá vont að vera búinn að ganga á forðann.“

Helgi segir heldur ekki góðan kost að gera skuldbindingarnar að sameiginlegri skuld í sjóði, eða einhverju öðru formi, og greiða upp yfir einhvern tíma. „Gallinn við það er að hætt er við að litið verði á það sem 260 milljarða nýja skuldsetningu ríkissjóðs. Það mundi þá hafa alvarleg áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs og þar með okkar allra.“

Leysa inn skatttekjur

Helgi segir nýlega skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sýna ótvírætt að ekki sé hægt að gera allt fyrir alla. Ríkissjóður geti ekki tekið á sig 260 milljarða í einu vetfangi. Það þýði hins vegar ekki að ekki sé hægt með almennum aðgerðum að gera talsvert fyrir marga. Það sé óhjákvæmilegt eftir dóm Hæstaréttar.

„Hvað er það sem stendur ríkissjóði næst? Það eru viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs. Kostnaður við að mæta ítrustu kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna hjá Íbúðalánasjóði getur numið 122 milljörðum króna, sem er trúlega meira en boðlegt er að leggja á ríkissjóð. Sá hópur sem ég tel að eigi mest tilkall til leiðréttinga er sá sem tók lán hjá sjóðnum á tímabilinu 2004 til 2008, sem er innan við helmingur af lánasafninu. Þegar hefur eitthvað verið afskrifað með öðru móti og eitthvað af þessu er þegar tapað þannig að kostnaður við að mæta ítrustu kröfum gagnvart þessum hópi gæti verið innan við 50 milljarðar.“

Helgi vill að ríkissjóður sæki óinnleystar skatttekjur hins opinbera í hinum frjálsa hluta séreignasparnaðar. Þar eigi ríki og sveitarfélög á annað hundrað milljarða króna. Sá hluti sem nær til frjálsa lífeyrissparnaðarins er ekki aðgreindur, en gæti verið allt að 80 milljarðar króna. „Með því að leggja það inn sem eigið fé Íbúðalánasjóðs hefði hann svigrúm til verulegra aðgerða gagnvart þessum hópi og jafnvel að fara eitthvað lengra aftur.“

Þrjú áföll einnar kynslóðar

Ríkissjóður kemur með þessu, segir Helgi, til móts við stóran hóp lántakenda með almennum hætti, en taki þó ekki á sig nýja skuldbindingu. Þetta séu þó ekki ókeypis aðgerðir, þær sé borgaðar með skattpeningum. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því hvort samfélagið eigi að endurdreifa þessum byrðum.

Þar segir hann hópinn sem tók lán á fyrrgreindu tímabili sitja fyrir. „Það er vegna þess að þó að hver kynslóð verði að kljást við ákveðin áföll, þá verður þessi fyrir þremur áföllum í senn. Hún kaupir í fasteignabólu þar sem hið opinbera hefur dælt lánsfjármagni inn á markaðinn og sprengt verðið upp úr öllu valdi. Hún fær nær fulla lánsfjármögnun og loks kemur verðbólguskot beint í kjölfar lántökunnar um leið og kaupmáttur fellur. Slíkt áfall einnar kynslóðar eru full rök fyrir því að endurdreifa byrðunum.“

Helgi segir það vera samfélagslega ákvörðun. Horfa verði til þess að stór hópur í samfélaginu hafi, með dómi Hæstaréttar, betri stöðu en aðrir hópar. Því sé rétt að endurdreifa byrðunum. Þá við samfélagið til að gera slíkt með greiðslu vaxta- og barnabóta þegar við komum okkur upp fjölskyldu, en hærri sköttum þegar komið er yfir þann hjalla. Fordæmi séu því fyrir endurdreifingu byrða.

20 milljarðar hjá lífeyrissjóðum

Hátt í 200 milljarðar króna liggja í fasteignalánum lífeyrissjóða til sjóðsfélaga. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar kostar það sjóðina 32 milljarða að fara að ítrustu kröfum varðandi niðurfærslu. Ef aðgerðirnar eru takmarkaðar við þá sem keyptu eigið íbúðarhúsnæði lækkar sú upphæð umtalsverð og enn frekar ef takmarkað er við árabil.

„Sjóðirnir fengu 20 milljarða aukaafslátt af verðtryggðum íbúðabréfum sem keypt voru af Seðlabanka Lúxemborgar eftir hrun. Að þeir fái fulla verðtryggingu og vexti af eignasafni sínu þrátt fyrir hrunið, það er eðlileg varnarstaða um réttindi lífeyrishafa. En að þeir njóti líka 20 milljarða aukasnúnings á verðtryggðum íbúðalánum finnst mér ekki sanngjarnt.“

Helgi segir að vissulega séu hagsmunir lífeyrissjóðanna miklir, en þetta geti snúist um það hvort eignasafn þeirra skili 1 prósenti minna í ávöxtun í eitt ár. Til þess þurfi mögulega sérstaka lagaheimild, en rík sanngirnissjónarmið séu fyrir því. Hvað viðskiptabankana varðar segir Helgi að þeir verði að bregðast við á viðskiptalegum forsendum. Ætli þeir að vera samkeppnisfærir á íbúðalánamarkaði þurfi þeir að grípa til ráðstafana gagnvart eigin lántakendum.

„Það er auðvitað ekki útilokað að ríkið þyrfti með einhverjum hætti, í tengslum við aðgerðir bankanna, að ræða við þá almennt um starfsskilyrði eða koma á einhvern hátt til móts við þá.“

Ekki gallalaust

Helgi telur að samstaða ætti að nást um þessa leið. „Sjálfstæðismenn hafa áður viljað nota inneignina í séreignasjóðum. Það er Jóhönnu og Steingrími að þakka að það er ekki búið að eyða henni og ef Hagsmunasamtök heimilanna eru tilbúin til að slá af ítrustu kröfum sínum hljóta helstu aðilar að geta komist að samkomulagi um lokalausn sem dugi, hver sem endanleg útfærsla yrði.“

Útfærslan sem hann leggur til sé þó ekki gallalaus. „Á henni er sá galli að maður notar ekki sömu peningana tvisvar. Við munum þá ekki nota þessa skattalegu innstæðu til að gera eitthvað annað; fjárfesta í atvinnumálum, lækka skuldir ríkissjóðs eða aðra skynsamlega hluti sem hægt er að gera við peningana. Þetta þarf að ræða. Í öðru lagi erum við þá búin að nota þennan varasjóð ef við verðum fyrir einhverjum áföllum. Í þriðja lagi gæti þetta aukið verðbólguþrýsting, ef þetta leiðir til verulega aukinnar neyslu í kjölfarið. Órjúfanlegur hluti þess að grípa til almennra aðgerða er að gæta verðstöðugleika. Um það verður að vera víðtækt samkomulag og samstaða.“

(Viðtal sem birtist í Fréttablaðinu 27. febrúar 2012)

Leitum sátta

blog

Ég kallaði hér í Fréttablaðinu á mánudag eftir málefnalegri umræðu um raunhæfar aðgerðir í skuldamálum heimila. Ekki væri hægt að gera allt fyrir alla en töluvert fyrir marga og það þyrfti að ræða. Leiðarahöfundur Fbl. gerði því skóna hér í gær að um kosningabrellu væri að ræða og að bakfærsla á hluta verðbóta sem nemur 5-10% af skuldum heimila muni leiða til bólu og nýs efnahagshruns. Veruleikinn er sem betur fer allt annar og gefur ekki tilefni til heimsendaspádóma um vítisvélar.

Matsfyrirtækið Fitch hefur nýlega bent okkur á að mikill árangur hafi náðst í ríkisfjármálum, en skuldir heimila og fyrirtækja séu enn of miklar. Það hlýtur því að teljast ábyrgt efnahagspólitískt viðfangsefni hvort draga megi úr skuldum heimila án þess að skuldsetja ríkissjóð. Færir hagfræðingar hafa bent á að verðtryggingarkerfið á Íslandi komi í veg fyrir sjálfvirkar sveifluleiðréttingar í hagkerfinu. Það gefur tilefni til að skoða hvort við getum leiðrétt handvirkt hluta af sveiflunum. Slíkt fæli ekki í sér stórkostlega eignatilfærslu heldur væri bakfærsla á hluta af heimasmíðuðum vanda.

Skoðanaskipti
Eftir hrun hafa hróp tveggja hópa yfirgnæft skoðanaskipti um skuldir heimila. Í öðrum hópnum eru talsmenn þess að bæta öllum allt sem gerst hefur með gríðarlegum tilkostnaði. Hins vegar eru talsmenn, á borð við leiðarahöfund Fbl., sem telja að ekkert megi gefa eftir nema hjá þeim sem sýnt geta fram á örbirgð. Talsmenn beggja tala fyrir mikilvægum sjónarmiðum, en við komumst ekkert áfram með því að kalla á víxl „allt“ eða „ekkert“. Upplýst umræða byggist á því að við greinum vandann, rannsökum hvernig hægt er að bregðast við, og skiptumst síðan á skoðunum um hvaða niðurstaða mæti best ólíkum sjónarmiðum og skapi víðtækasta samstöðu.

Leiðarahöfundurinn áréttar að ég hafi ekki gerst sekur um það lýðskrum að hægt sé að gera allt fyrir alla – án tilkostnaðar. Ég hef bent á fjármuni sem nýta má í umtalsverðar aðgerðir vegna víðtæks vanda í samfélaginu og hvernig útfæra megi það. Bendi aðrir á betri fjármögnunarleiðir og sanngjarnari útfærslu væri það fagnaðarefni, því betur sjá augu en auga. En á meðan við færumst ekki áfram í umræðunni þá fjölgar á vanskilaskrá, æ fleiri gefast upp, margt samkeppnishæfasta unga fólkið okkar flytur til útlanda og sundrung einkennir samfélag okkar. Við þær aðstæður skulum við ekki hafna því að víðtækari aðgerða er þörf.

Skilyrði til sjálfsbjargar
Hvað dylgjur leiðarahöfundar um kosningabrellu varðar er gaman að benda honum á að lesa sitt eigið blað frá 15. júní 2010, en þar slær Fbl. því upp á forsíðu að ég hafi lagt til víðtækar aðgerðir í skuldamálum sem fjármagna megi m.a. með aukaafslætti lífeyrissjóðanna af verðtryggðum íbúðalánum og skattinneign af séreign. Þetta hefur verið afstaða mín lengi, en er engin stundarbrella. Ég er einfaldlega sannfærður um að vandinn sé slíkur að grípa þurfi til umtalsverðra aðgerða strax. Almennri aðgerð má beina að afmörkuðum hópum svo fjármunir nýtist sem best þeim er þurfa. En þó einhverjir fái eitthvað sem þeir mögulega kæmust af án, þá er kostnaður við það mun minni en hagkvæmni þess að búa fólki almenn skilyrði til sjálfsbjargar.

(birtist Fréttablaðinu 29. febrúar 2012)