Merki: ‘Bankar’

Til stjórnenda fjármálafyrirtækja

blog

Eftirfarandi bréf sendi ég í dag til stjórnenda fjármálafyrirtækja:

Í tilefni af dómi Hæstaréttar Íslands fimmtudaginn 18. október sl. í máli Arion banka gegn Borgarbyggð og að höfðu samráði við sérfræðinga tel ég rétt að koma á framfæri nokkrum sjónarmiðum. Það geri ég vegna þess að um afstöðu mína hefur verið spurt og í ljósi þeirrar eftirlitsskyldu sem þingmönnum ber
að hafa í huga í sínum störfum:

 Ekkert er því til fyrirstöðu að hefja endurútreikning lána með ólögmætri gengistryggingu, sbr. þorra lána í F flokki gengislána skv. skilgreiningum FME, sem voru í íslenskum krónum að öllu leyti.

 Einboðið er að endurreikna skuli öll lán sem voru með ólögmætri gengistryggingu, greitt var af og festa var komin á í framkvæmd. Hvort „festa í framkvæmd“ er þrjár greiddar afborganir eða fleiri verða fjármálafyrirtæki sjálf að leggja mat á, en ljóst má vera að ekki þurfi 17 greiddar afborganir til að festa komist á framkvæmd. Við þetta mat hljóta fjármálafyrirtæki að hafa í huga hve óheppilegt það væri ef réttur viðskiptavina þeirra yrði í slíku mati enn vanmetinn.

 Þá er óhjákvæmilegt að staðið verði við yfirlýsingar um að viðskiptavinir glötuðu ekki réttindum með samningum þannig að þeir njóti sambærilegra endurútreikninga og ef greitt hefði verið.

 Ég hvet til þess að fyrri eigendum eigna sem fjármálafyrirtæki eða félög þeim tengd hafa enn umráð yfir og hafa verið teknar af eigendum sínum á uppboðum eða í skiptameðferð sem orsakast hefur að hluta eða í heild af ólögmætri gengistryggingu verði boðið að slíkir gjörningar gangi til baka að uppfylltum skilyrðum.

 Ekki eru gerðar athugasemdir við að reyna þurfi á fyrir dómstólum stöðu fyrirtækja með sérþekkingu á fjármálasviði, eða einstaka skammtíma fyrirgreiðslu sem varðað getur mikla hagsmuni. Þá er og ljóst að enn á eftir að fá dómsniðurstöðu um þá sem hvorki greiddu né sömdu. Þá eru ekki öll gengislán með ólögmætri gengistryggingu og enn á eftir að reyna á ýmis ákvæði neytendaréttar. En þetta á ekki að varna endurútreikningum hjá þorra almennings og venjulegum fyrirtækjum. Mikil undirbúningsvinna var unnin við síðustu endurútreikninga með flokkun lána og tölvuskráningu. Er eindregið hvatt til þess að endurútreikningum verði lokið um áramót svo gera megi upp skattárið og ársreikninga fyrirtækja á réttum grunni, sé þess nokkur kostur.

Ólögmæt gengistrygging lána er ein samfelld hörmungasaga sem skaðað hefur fólk, fyrirtæki og fjármálakerfið varanlega. Ítrekað hefur verið gengið of langt gagnvart fólki og fyrirtækjum í kröfugerð og aðförum. Í því ljósi verður nú að krefjast þess af fjármálafyrirtækjum að þau fari fram af hófsemi gagnvart viðskiptavinum sínum, hraði endurútreikningum og gæti ítrustu varúðar við innheimtu lána sem réttaróvissa ríkir um og leggi sig fram við að flýta úrlausn þeirra álitaefna sem út af standa.

Framtíðarskipan fjármálakerfisins

Uncategorized

Efnahags- og viðskiptaráðherra kynnti í mars skýrsluna Framtíðarskipan fjármálakerfisins. Umræður um hana fóru fram á Alþingi í gær og talaði ég þar fyrir hönd Samfylkingarinnar. Skýrslan er mjög þarft og gott innlegg í umræðuna um hvernig fjármálakerfi við viljum byggja á Íslandi til framtíðar. Hér fylgir ræða mín úr umræðunum:

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir skýrsluna og þá greinargerð sem hann flutti fyrir henni hér. Ég fagna því að hún er komin fram og hlakka til sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar að fá að taka hana á dagskrá nefndarinnar og til umfjöllunar í framhaldi af þeirri umræðu sem verður hér í dag.

Það er mikilvægasta verkefni Alþingis eftir hrun að girða sem best fyrir að hér verði viðlíka efnahagshamfarir og urðu haustið 2008. Það verður ekki gert nema taka með heildstæðum og vönduðum hætti á fjármálastöðugleika og stöðugleika í efnahagsmálum okkar á fjölmörgum sviðum. Sú skýrsla sem við höfum hér til umfjöllunar er góður grunnur fyrir þá umræðu og fyrir frekari vinnu í þessum efnum.

Þar þurfum við Íslendingar auðvitað að taka kannski fyrst ákvörðun um hvort ætlun okkar er að hafa hér íslenskt bankakerfi eða hvort við ætlum að vera hluti af hinum evrópska fjármálamarkaði. Það er eindregin skoðun mín að ef við Íslendingar ætlum að taka virkan þátt í hinum evrópska fjármálamarkaði sýni reynsla okkar og lærdómur okkar af því sem gerst hefur, að við verðum þá jafnframt að vera virkir þátttakendur í því eftirlitskerfi, stjórnkerfi og stjórnmálakerfi sem er yfir þeim markaði.

Það að ætla að tefla á tvær hættur á 500 milljóna manna markaði fyrir 300 þús. manna samfélag með banka sem geta hæglega vaxið því langt yfir höfuð og ala í brjósti sér þá draumsýn að hér geti einhvern tímann verið eftirlitsstofnanir sem geti haft nægilegt aðhald og eftirlit með risastórum fjármálastofnunum á hundraða milljóna manna markaði, er uppskrift að sömu ógæfunni og við áður rötuðum í. Þess vegna er mikilvægt að við ákveðum að hafa annaðhvort lítið íslenskt bankakerfi og eftirlit í samræmi við það eða að við verðum hluti af hinum evrópska markaði og aðilar að þeim eftirlitsstofnunum sem þar er verið að setja upp og þróa. Eins og svo glögglega kemur fram af þessari góðu skýrslu er það sannarlega ekki séríslenskt verkefni. Þó að okkar verkefni sé kannski stærst vegna þess hversu hrikalega illa við fórum að ráði okkar er það engu að síður alþjóðlegt verkefni að efla og treysta fjármálastöðugleika. Þess vegna hafa menn þróað Basel III reglurnar og vinna að innleiðingu þeirra um heim allan, meðal annars hér.

Aðrar þjóðir urðu líka fyrir því að vátryggingarsjóðir tryggingafélaganna voru tæmdir. Þess vegna er það sem menn hafa þróað Solvency II reglurnar um tryggingamarkaði til að reyna að fyrirbyggja að slíkt endurtaki sig. Auðvitað er þetta alþjóðleg viðleitni. Markaðirnir sem menn starfa á eru sífellt að verða alþjóðlegri og ef við ætlum að vera hluti af þeim verðum við að vera hluti af þeim eftirlitsstofnunum sem þar eru.

Við hljótum líka, við endurskipulagningu fjármálamarkaðar okkar, að leita leiða til að tryggja einhverja fjölbreytni og sem mesta samkeppni. Það er algerlega óviðunandi hversu dýrt fjármálakerfi okkar er, það hefur ekki bara verið ógæfusamt heldur líka dýrt fyrir neytendur. Það hefur verið dýrt í rekstri og haldið uppi miklum vaxtamun og það er mikilvægt fyrir okkur, fyrir neytendur í landinu, að ná niður þessum vaxtamun. Það gerum við best með því að reyna að glæða samkeppni. Þegar aðeins eru þrír bankar í landinu sem halda um 97% innstæðnanna er ekki auðvelt um vik.

Þess vegna er líka mikilvægt að efla aðhald Samkeppniseftirlits að þessari starfsemi og skapa skilyrði fyrir ný fjármálafyrirtæki og minni fjármálafyrirtæki til að starfa til hliðar við hin stóru.

Við þurfum sannarlega að endurskipuleggja eftirlit okkar og það er býsna góð umfjöllun í skýrslunni um hlutverk seðlabanka, fjármálaeftirlits og þá vinnu sem hefur farið fram alþjóðlega í því. Þar höfum við Íslendingar líka unnið talsvert mikla vinnu við að fara í gegnum það að hvaða leyti við í okkar fjármálaeftirliti uppfyllum hin alþjóðlegu viðmið. Gerð hefur verið áætlun um hvernig eigi að ljúka við að uppfylla þau viðmið sem ekki eru uppfyllt. Ég er almennt þeirrar skoðunar að affarasælast sé að við höfum eftirlit með kerfisáhættunni í Seðlabankanum en leggjum þeim mun ríkari áherslu á neytendavernd á fjármálamarkaði í starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Því miður hefur verið pottur brotinn í neytendavernd á fjármálamarkaði og það dreifst víða og ábyrgðarskipting allt of óljós og það er sannarlega eitt af því sem við þurfum að taka á því að hér hefur því miður margvíslegt verið gert á fjármálamarkaðnum, m.a. í erlendu lánunum, sem hefur reynst ólöglegt og gengið gróflega gegn hagsmunum neytenda án þess að nokkurt eftirlit hafi sinnt skyldu sinni í þeim efnum.

Það er ekki aðeins eftirlitið sem við þurfum að huga að, við þurfum kannski fyrst og síðast í þessari umræðu að huga að því hvernig við getum reglað markaðinn og reynt að koma í veg fyrir að á eftirlitið reyni. Það verður auðvitað aldrei að fullu gert því að fjármálakreppur koma og fara og þær koma aftur. Það má ganga að því nokkuð vísu, en vonandi koma þær aldrei í neinni viðlíka stærðargráðu og bankahrunið mikla á Íslandi 2008 því að það verður ekki aðeins stórt í sögulegu samhengi okkar heldur verður það alla tíð gríðarlegt í alþjóðlegu samhengi líka.

Hvernig getum við gert það? Jú, við getum gert það með því að koma sem mest í veg fyrir að það reyni á eftirlitið, að það reyni á stjórnmálin og inngrip á fjármálamarkaðinn. Það gerum við best með því að setja leikreglur fyrir fram, einmitt núna áður en fjárfestingarbankastarfsemin byrjar að vaxa, áður en ofvöxtur hleypur í einstakar greinar. Við verðum að setja reglur, lausafjárreglur, lánsfjárreglur og fjármögnunarreglur sem bæði tryggja eðlilegt eigið fé í verkefnum og tryggja hámark á hinum ýmsu sviðum sem varna því að hagkerfið ofhitni og komi í veg fyrir bólur og þau hrun sem þeim fylgja.

Það er trúlega eitt af mikilvægustu verkefnunum okkar ásamt með því að skilja á milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi og tryggja dreift eignarhald í bönkum og fjármálastofnunum þannig að það gerist aldrei aftur að örfáir menn geti leikið sér að viðskiptabönkum þjóðarinnar eins og þeir væru þeirra einkamál með þeim skelfilegu afleiðingum fyrir fjármálastöðugleika og almannahagsmuni sem það hafði.