mars, 2011

Stjórnlagaráð og virðing fyrir störfum Hæstaréttar

blog

Vegna umræðna um afdrif stjórnlagaþings, birti ég hér ræðu mína úr fyrri umræðu um þingsályktunartillögu um skipun stjórnlagaráðs. Eins og fram hefur komið eru skiptar skoðanir um ágæti þessarar tillögu, bæði innan þings og utan. Að mínu mati er það lykilatriði að Alþingi setji ekki það vonda fordæmi að löggilda óbeinlínis það sem dómarar Hæstaréttar hafa ógilt. Þess vegna styð ég ekki framkomna tillögu.

Virðulegur forseti. Með tillögu um stjórnlagaráð freistar einfaldur meiri hluti Alþingis þess að löggilda óbeinlínis það sem dómarar Hæstaréttar hafa ógilt. Það er vont fordæmi vegna þess að við höfum sett dómara Hæstaréttar til að gæta að mannréttindum, lögum og reglu, og það væri ófært ef Alþingi legði það í vana sinn að löggilda jafnharðan það sem dómararnir ógilda. Þá væri með því horfið frá hinni glæsilegu hugmynd um kjörið stjórnlagaþing þjóðarinnar sem setji Alþingi og þjóðinni tillögu að nýrri stjórnarskrá til að skipa enn eina undirnefnd Alþingis, um stjórnarskrármálefni, mjög í skötulíki.

Þess vegna get ég ekki stutt þá tillögu sem hér er fram sett. Ég hef verið þeirrar skoðunar að einu réttu viðbrögðin við úrskurði hæstaréttardómaranna hefðu verið að endurtaka kosninguna og gera þetta, eins og upphaflega var ætlunin, að þjóðkjörnu stjórnlagaþingi með fullri reisn og fullu umboði til þeirra mikilvægu verka sem við höfum sett það til. Ég taldi raunar að um þá leið gæti orðið best samstaða hér í þinginu og hélt það eftir samræður mínar við marga þingmenn, en niðurstaðan úr þeim samráðshópi sem settur var til verksins er önnur. Þar höfðu menn vissulega úr vöndu að ráða og ég held því ekki fram að sú leið sem hér er lögð til sé óheimil. Auðvitað hefur Alþingi vald til að ákveða þetta. Það að þingið hafi vald til þess þýðir þó ekki að það sé rétt að gera það. Og ég hef rakið hvers vegna ég telji það vont fordæmi.

Þetta er auðvitað sárgrætilegt vegna þess að sá leiðangur sem hér var hafinn var gríðarlega merkilegur. Við getum enn þá bundið vonir við það að hann muni skila okkur nýrri og betri stjórnarskrá, nýjum og betri grundvallarreglum í samfélaginu. Það fór fram glæsileg kosning. Ég hafna því að þátttakan í þeirri kosningu hafi ekki verið þannig að sómi hafi verið að. Af aukakosningum að vera var gríðarlega mikil þátttaka og tugir þúsunda tóku þátt í því starfi að velja góðan hóp manna til að fara í þetta verk. Það var þess vegna afar hryggilegt að úrskurður hæstaréttardómaranna skyldi falla.

Ég er í hópi þeirra sem eru ákaflega ósammála niðurstöðu þeirra. Ég fæ ekki skilið að þau rök sem þar voru færð fram dugi til þess að grípa til jafnalvarlegrar aðgerðar og að ógilda kosningu. En þó að ég sé fyllilega ósammála niðurstöðunni getur maður ekki hagað sér þannig að það fari eftir því hvort manni líki niðurstaða dómara Hæstaréttar hvernig maður bregst við.

Hæstiréttur hefur verið gagnrýndur að gamalkunnum íslenskum sið með því sem kallað eru ad hominem-rök, þ.e. það hefur verið farið í manninn en ekki í boltann. Dómurum Hæstaréttar hafa verið gerðir upp ýmsir hlutir og þeir ásakaðir um ýmiss konar pólitísk viðhorf og afturhaldssemi. Ég held að öll sú umræða sé langt því frá að vera sæmandi. Hæstiréttur er æðsti dómstóll okkar og við treystum honum svo vel að við fólum honum m.a. að skipa forustuna fyrir rannsóknarnefnd Alþingis til að vinna fyrir okkur og þjóðina alla greinargóða skýrslu um það hvað hafði verið gert rétt og hvað rangt í stjórnsýslu á Íslandi. Það var vegna þess að við treystum Hæstarétti betur en nokkrum öðrum til þeirra verka.

Hæstiréttur hefur raunar sýnt sig að því að vera róttækur í dómum sínum. Margsinnis höfum við fagnað því, þegar dómarar Hæstaréttar hafa kveðið upp dóma til þess að verja lífskjör öryrkja, til að hlutast til um atvinnufrelsi manna, verja rétt fólks til náms og úrskurðað ólögmæt gengistryggð lán. Þegar við leggjum upp í þann leiðangur að setja íslensku samfélagi grundvallarreglur verðum við að gæta að grundvallarreglum og grundvallarsjónarmiðum og því að við eigum að fylgja því sem við teljum vera rétt í viðbrögðum við dómum Hæstaréttar hverju sinni en ekki bara taka næstbesta kostinn af því að það voru kannski flestir til í að vera kannski sammála um það.

Við þurfum líka að vanda til verka eins og hér hefur komið fram við umræðuna og það skötulíki sem stjórnlagaþinginu er skapað með þessari umgjörð er ekki hægt að kalla að vanda til verka. Við ætlum að reyna að ná fram breytingum á grundvallarsamþykktum samfélagsins, stjórnarskránni sjálfri, og við verðum einfaldlega að vanda betur til þess og gera það betur. Við þurfum líka að gæta að því að enn eitt af því sem við þurfum að læra af óförum okkar, fyrir utan að gæta betur að grundvallarreglum og prinsippum en við höfum gert, fyrir utan það að vanda okkur betur en við höfum gert og sannarlega í þessu máli, þurfum við líka að endurskoða hugmyndir okkar um meirihlutaræði.

Ég held að við hljótum öll að spyrja okkur hvort það sé farsælt að einfaldur meiri hluti, 30 og eitthvað þingmenn, knýi fram niðurstöðu um umgjörðina um það starf sem á að endurskoða stjórnarskrá Íslands. Væntum við þess að það séu miklar líkur á því að út úr því komi niðurstaða sem góð samstaða verði um? Munu allir þeir 30 og eitthvað þingmenn styðja þær tillögur sem úr slíkri nefnd koma? Er það reynsla okkar af því þegar Alþingi hefur skipað nefndir?

Ég held að það sé full ástæða til að hvetja allsherjarnefnd til að fara vandlega yfir þessar tillögur og ræða í þinginu hvort ekki sé hægt að finna betri og réttari leið og ná meiri samstöðu um það með hvaða hætti eigi að vinna að þessu grundvallarmálefni. Ég hvet líka allsherjarnefnd og flutningsmenn tillögunnar, ef það er eindreginn ásetningur meiri hlutans í þinginu að fara hana, til að huga þá að því að breyta a.m.k. því sem í tillögunni segir um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef menn ætla að setja það góða fólk sem hér um ræðir til þeirra verka að gera tillögu að nýrri stjórnarskrá með þessu óheppilega og takmarkaða umboði finnst mér lágmark að því sé sá sómi sýndur að það fái umboð til að leggja tillögu sína fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu áður en málið kemur aftur inn til þingsins.

Ég held að þetta sé ekki óskaniðurstaða fyrir neinn. En næstskásti kosturinn er ekki viðunandi umgjörð um það starf sem hér á að fara fram. Við á Alþingi eigum að gera og getum gert betur. Stjórnlagaþingið á það skilið og stjórnarskráin á það skilið.

14 – 1

blog

Auðlind okkar allra, fiskurinn í sjónum, skilaði sjávarútveginum 45 milljarða gróða árið eftir hrun, 2009. Fyrir þann gríðarlega hagnað greiðir hann 3 milljarða til almennings í veiðigjald, eða einn milljarð til eigandans fyrir hverja fjórtán sem hann tekur í hagnað. Það er verri meðferð á almenningi en íslenska landsliðið mátti þola gegn Dönum í versta ósigri íslenskrar knattspyrnusögu. Til glöggvunar er hreinn hagnaður sjávarútvegs nær hálf milljón á hvert heimili.

Að breyta þessum hlutaskiptum almennings og sjávarútvegsins kalla starfsmenn sægreifanna gjaldþrotaleið. Þó sér hvert barn að vel má una útveginum umtalsverðs hagnaðar, þó réttur verði hlutur almennings. Hitt er líklegra að verða gjaldþrotaleið ef leggja á meiri álögur á venjulegt fólk og fyrirtæki, í stað þess að sækja þann arð sem þjóðin á tilkall til af auðlind sinni.

Skýrsla Hagstofunnar um hag fiskveiða og fiskvinnslu 2009