september, 2013

Leigjendur og kaupendur fái sömu bætur

Uncategorized

Fréttir segja okkur að nú sé enn verra að leigja sér íbúð en áður. Hefur það samt oftast verið dýrt, erfitt og óöruggt. Þetta ástand varð til þess að við í Samfylkingunni lögðum fram á Alþingi í síðustu viku  tillögur um aðgerðir fyrir leigjendur. Það vekur bjartsýni að margir flokkar vilja gera eitthvað í málum leigjenda.

Sanngirnismál

Eitt það skrýtnasta í okkar íbúðamálum er að oft fá þeir meiri bætur frá kerfinu sem kaupa sér íbúð, en hinir sem leigja fá minna. Samt eru þeir sem kaupa oft með meiri peninga milli handa en hinir sem leigja. Réttlátara væri auðvitað að fólk fái jafn miklar bætur hvort sem það kaupir eða leigir og bætur miðist við laun og eignir hvers og eins. Við viljum að fólk fái sömu bætur, hvort sem það velur að kaupa eða leigja. Við lögðum það til á síðasta kjörtímabili og nú á þessu.

Það væri líka skrýtið í íbúðamálunum ef þeim sem borga af íbúðalánum verður hjálpað vegna verðbólgunnar í hruninu, en ekki þeim sem borga leigu. Mikið af hækkun húsaleigu er vegna verðbólgu í hruninu. Ef það á að lækka afborganir þeirra sem urðu fyrir verðbólguskotinu væri jafn rétt og sanngjarnt að leiðrétta líka húsaleigu þeirra sem urðu fyrir sama verðbólguskoti.

Öryggi fjölskyldunnar

Óöryggi þeirra sem leigja hefur oft á tíðum verið jafn mikill galli og há leiga.  Allt of algengt er að fólk hafi þurft að flytja aftur og aftur úr einni leiguíbúð í aðra. Ekki hefur það síst verið vont fyrir börnin sem hafa jafnvel þurft að skipta oft um skóla. Sterk leigufélög eins og hjá borginni, Öryrkjabandalaginu og nú síðast í gegnum Íbúðalánasjóð auka framboð af öruggum leiguíbúðum til lengri tíma. Þess vegna er rétt að fjölga slíkum félögum og efla þau sem fyrir eru.

Framboð og fjölbreytni

Með því að fjölga leiguíbúðum gerum við bæði að lækka leigu og fjölga öruggum langtíma leiguíbúðum. Við leggjum til átak þar sem bæði sveitarfélög og ríki veita styrki til þeirra sem vilja koma upp langtíma leiguíbúðum. Þá er gert ráð fyrir að ráðstafa lóðum í eigu ríkisins til leiguíbúða. Með því síðan að leigjendur fái sömu bætur og kaupendur íbúða verður staða leigjenda mun betri og jafnari en hún er nú.

Fleiri en áður vilja nú leigja íbúð en kaupa og eðlilegt að kerfið komi til móts við fólk með svipuðum hætti hvort sem það velur. Hér á landi hefur því miður verið minna af leiguíbúðum en í nágrannalöndunum og sérstaklega íbúðum sem ætlaðar eru til öruggrar langtímaleigu. Hrunið sýndi mörgum að það getur komið sér illa að eiga íbúð ef maður skuldar mikið í henni og sveiflur eru miklar eins og á Íslandi. Langtímaleiga getur verið fyrir marga jafn góður eða betri valkostur og íbúðakaup.

Þegar aukin réttindi leigjenda hafa verið tryggð eigum við í framhaldinu að huga að fleiri möguleikum eins og búseturéttaríbúðum, kaupleigu og öðrum leiðum sem aukið geta fjölbreytni og valkosti okkar í íbúðamálum.

 

Pistillinn birtist í DV 16. september sl.