Merki: ‘heilbrigðismál’

Sýnum í verki

Blaðagreinar

Þegar þrír af fjórum kjósendum flokks hætta að styðja hann snýst það ekki um umbúðir heldur innihald, um stefnu og trúverðugleika. Til að snúa vörn í sókn dugar ekki að tala. Samfylkingin þarf að gera.

Við þurfum að skapa traust með því að segja afdráttarlaust að við munum ekki mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum bak kosningum. Hann er ósamstarfshæfur vegna spillingarmála og hefur heitið því að standa gegn öllum kerfisbreytingum. Það er þess vegna sjálfsagt að eyða efasemdunum sem urðu til 2007 með því að ákveða strax að kjósi fólk okkur fær það ekki Sjálfstæðisflokkinn.

Stjórnarskrármálið er líka stórt trúverðugleikamál. Við eigum strax að semja við aðra stjórnarandstöðuflokka um hvernig það verði klárað að kosningum loknum. Svo við getum með sanni sagt að við höfum fylgt þessu lykilmáli í baráttunni gegn spillingu og fyrir lýðræði alla leið. Það sé þegar umsamið og lýst því með hvaða hætti því verði lokið.

Þá eigum við að ná stjórnarandstöðunni saman um fá en skýr sameiginleg loforð sem verði að veruleika fáum við til þess meirihluta. Fá en skýr – til að skapa traust á því að þeim megi ná.

Við þurfum líka að henda ýmsum áherslum sem urðu til í bólunni. Sækja nýjan kraft í grunngildi jafnaðarstefnunnar. Almennt opinbert heilsugæslukerfi og opinber spítali sem ekki sligar fólk með gjöldum. Félagslegar lausnir í húsnæðismálum eins og við byggðum upp á síðustu öld, svo sem verkamannabústaðir, kaupleiga og húsnæðissamvinnufélög. Evran er besta langtímalausnin en við verðum að horfast í augu við að hún er ekki jafn nærtæk og áður var. Þess vegna þurfum við að kynna miklu eindregnari stefnu gegn óhóflegum bankakostnaði og okurvöxtum þangað til evran fæst.

(meira…)

Þegar skorið var undan Alþingi

Blaðagreinar

Forsætisráðherra reynir nú að láta landsmenn ræða hvar Landspítalahúsið eigi að vera, svo þeir hætti að ræða lélegan aðbúnað á spítalanum, biðlista eftir heilbrigðisþjónustu, fjárskort og óhóflegan kostnað sjúklinga. Því elsta smjörklíputrix í heimi er að láta Íslendinga rífast um staðsetningu á húsi, svo það sem máli skiptir gleymist sem er innihaldið.

Þegar byggja átti þinghús 1879 vildu menn reisa það á Arnarhóli. Landshöfðingi hafði sérhagsmuni af beit kúa á Arnarhólstúninu og hafnaði. Þá tóku þeir grunn í Bankastrætisbrekkunni, en var svo sagt sem var að það væri ómöguleg staðsetning. Þrátt fyrir aðvaranir var þá tekinn grunnur þar sem bílastæði er nú við Vonarstræti. Sá fylltist af vatni eins og spáð hafði verið. Byggðu menn því það Alþingi sem nú stendur beint fyrir framan hitt húsið í bænum, Dómkirkjuna. Þá höfðu glatast svo miklir fjármunir í rifrildinu öllu að neðsta hæðin var skorin af Alþingishúsinu í sparnaðarskyni.

Látum það ekki líka henda Landspítalann.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars

Tilkynning um formannsframboð

Samfylkingin

Með eftirfarandi bréfi kynnti ég Samfylkingarfólki í síðustu viku formannsframboð mitt:

Kæri félagi,

Samfylkingin þarfnast breytinga. Samfylkingarfólk hefur krafist landsfundar og formannskjörs sem framkvæmdastjórn hefur ákveðið að flýta til vors. Formaðurinn sendi flokksmönnum bréf þar sem hann segir að þessi alvarlega staða hafi skapast á löngum tíma og sé á sameiginlega ábyrgð okkar. Þar er tæpt á mistökum sem við getum verið sammála eða ósammála um í einstökum atriðum en ég fagna því tækifæri sem skapast hefur til opinnar umræðu í flokknum um þessi mál og mörg fleiri.

Mistök eru til þess að læra af. Kreppa stjórnmála og ekki síst okkar jafnaðarmanna er ekki séríslensk þótt hún djúp sé hér. Hún er sprottin af þeirri tilfinningu fólks að peningaöflin ráði, stjórnmálamenn séu í stjórnmálum bara sjálfs sín vegna og flokkarnir svíki gefin loforð.

(meira…)

Sjúklingaskattalækkun

Uncategorized

Flestir ættu að geta tekið undir það markmið ríkisstjórnarinnar að ná fram hallalausum fjárlögum á næsta ári, enda verið stefnt að því frá hruni. Hins vegar eru ekki allir sammála um hvernig því markmiði skuli náð. Í kjölfar niðurskurðar og skattahækkana síðustu ára hefur nú loksins skapast svigrúm til sóknar og uppbyggingar á þeim sviðum samfélagsins sem látið hafa undan. Staðan er vissulega enn erfið, en þess vegna skiptir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar líka miklu máli.

Umræðan í þjóðfélaginu og fréttaflutningur undanfarið benda eindregið til þess að heilbrigðiskerfið verði að njóta sérstaks forgangs þegar kemur að því nota svigrúmið sem skapast hefur. Það varð einnig niðurstaða síðustu ríkisstjórnar, sem ákvað að hætta niðurskurði í heilbrigðiskerfinu fyrir einu og hálfu ári síðan og hefja uppbyggingarferlið. Slíku er því miður ekki fyrir að fara í fjárlagafrumvarpinu, heldur þvert á móti. Áfram er gerð hagræðingarkrafa á Landspítalann og hvergi sjást áætlanir um uppbyggingu nýs spítala.

Lækkun sjúklingaskatta

Ekki er látið staðar numið við niðurskurð. Að auki er kynntur til sögunnar nýr sjúklingaskattur og vonast til að veikustu einstaklingar þessa samfélags skili ríkissjóði um 200 milljónum króna á næsta ári. Fátt lýsir betur undarlegri forgangsröðun ríkisstjórnar, sem gaf kosningaloforð um stóraukin fjárframlög til heilbrigðismála.

Í kjölfar hrunsins var staðan þannig að ekki voru aðstæður til að minnka gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Nú þegar svigrúm skapast væri eðlilegra að horfa til þess að lækka sjúklingaskatta en að hækka þá.

Samræmd gjaldtaka

Mikil sóknarfæri eru jafnframt í því að samræma alla gjaldtöku á heilbrigðiskerfinu. Skref voru stigin í þau átt með nýjum lyfjalögum. Það verður að segjast eins og er að augljósir ágallar voru í framkvæmd þeirra laga, en markmið þeirra stenst um aukinn jöfnuð meðal sjúklinga. Ekki er nóg að líta eingöngu til lyfjakostnaðar, heldur verður að líta heildrænt til kostnaðar á lyfjum og annarri heilbrigðisþjónustu. Setja á markmið um að kostnaður sjúklinga fari aldrei yfir tiltekin mörk þannig að fólk í sambærilegri stöðu hafi sömu réttindi.

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur boðist til að setjast niður í fjárlagavinnunni, þvert á flokka, og leita allra leiða til að byggja upp á Landspítalanum og létta álögum á sjúklingum. Þegar nú virðist hægt að lækka skatta á útgerðina, efnafólk, og tekjuskatt er eðlilegt að spyrja hvort sjúklingaskattalækkun sé ekki tímabær.

Pistillinn birtist í DV 9. október sl.