febrúar, 2009

Prófkjör í Reykjavík

blog

Reglur fulltrúaráðs um prófkjör vegna Alþingiskosninga 2009

1. gr. Prófkjörið fer fram 14. mars 2009.

2. gr. Rétt til að bjóða sig fram í prófkjörinu hafa þeir félagar í Samfylkingunni sem eru kjörgengir til Alþingis og fá meðmæli minnst 30 og mest 50 flokksfélaga með lögheimili í Reykjavík.

3. gr. Kosningarétt hafa allir félagar í Samfylkingarfélögunum í Reykjavík sem eiga lögheimili eða hafa kosningarétt í Reykjavík og eru skráðir félagar þann 28. febrúar 2009.

4. gr. Framboðsfrestur skal vera til og með 28. febrúar 2009. Frambjóðendur sem uppfylla skilyrði skv. 2. grein skili framboði til kjörstjórnar og greiði 50.000 króna þátttökugjald.

5. gr. Kjörstjórn sér um sameiginlega kynningu á frambjóðendum. Í því felst:

a. Sameiginlegir kynningarfundir.

b. Milliganga um opinbera kynningu á frambjóðendum og samsending kynningarefnis frá frambjóðendum.

c. Tengingu af heimasíðu Samfylkingarinnar á heimasíður/bloggsíður frambjóðenda.

d. Ein útsending tölvupósts á póstlista Samfylkingarinnar fyrir hvern frambjóðenda.

6. gr. Kosningin fer fram með eftirfarandi hætti:

a. Netkosning, ásamt skriflegri eða rafrænni kosningu á kjörstað, sem kjörstjórn tekur ákvörðun um og auglýsir.

b. Gert er ráð fyrir að netkosning hefjist 9. mars og standi í 5 daga.

c. Utankjörfundarkosning hefst 7. mars.

7. gr. Viðhaft er samval fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmin. Kjósendur fá í hendur einn kjörseðil og raða frambjóðendum á einn lista.

8. gr. Kjósandi kýs að lágmarki 4, að hámarki 8 frambjóðendur og merkir við þá með tölustöfunum 1, 2… o.s.frv.

9. gr. Sæti 1 – 8 í samvalinu skipa þeir sem fá flest atkvæði í þau sæti, en þurfa þó að fá að lágmarki 50% gildra atkvæða í viðkomandi sæti, til að kosning sé bindandi. Með fjölda atkvæða í sæti er átt við samanlagðan fjölda atkvæða frá 1. sæti að viðkomandi sæti.

Uppstillingarnefnd er frjálst að færa þá frambjóðendur til eftir þörfum sem ekki fá bindandi kosningu. Uppstillingarnefnd líti til kvenfrelsissjónarmiða og nauðsynjar þess að fjölga konum á þingi við frágang framboðslista.

10. gr. Þegar úrslit liggja fyrir skulu frambjóðendur, sem hljóta bindandi kosningu ákveða sjálfir í hvoru kjördæminu þeir bjóða sig fram og skal sá frambjóðandi er flest atkvæði hlýtur eiga fyrsta val um kjördæmi og sæti, sá frambjóðandi er næst flest atkvæði hlýtur á svo næsta val og þannig koll af kolli þar til fyllt eru þau sæti sem kosið er til.

11. gr. Birtar eru atkvæðatölur frambjóðenda og þá tekið fram hvort og í hvaða sæti þeir hafa hlotið bindandi kosningu.

12. gr. Ætlast er til að frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra sýni háttvísi í kosningabaráttunni og stilli kostnaði við framboð sitt í hóf.

Frambjóðendum er ekki heimilt að auglýsa framboð sitt í fjölmiðlum. Þó er frambjóðendum heimilt að auglýsa fundi eða aðra viðburði enda fari kostnaður við þær auglýsingar ekki yfir 300 þúsund krónur. Heildarkostnaður við framboðið má ekki fara yfir 1 milljón króna.

Frambjóðendur skulu að prófkjöri loknu skila yfirliti um tekjur og gjöld. Kjörstjórn fylgist með að reglum þessum sé framfylgt og vekur athygli frambjóðenda á því ef hún telur að útaf þeim sé brugðið.

13. gr. Fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík kýs kjörstjórn. Kjörstjórn sér um alla framkvæmd prófkjörsins og setur nánari reglur í samráði við stjórn fulltrúaráðsins.

14. gr. Reglur þessar eru lagðar fram með fyrirvara um að ekki verði breytingar á lögum um kosningar til Alþingis. Verði lögum breytt kann að vera nauðsynlegt að endurskoða tilhögun um val á framboðslista.

Samþykkt á fundi fulltrúaráðsins þann 16. febrúar 2009

Frumvarpsdrög um stjórnlagaþing

blog

Lifandi og skemmtileg umræða hefur verið í kjölfar bankahrunsins um lýðræði og stjórnskipan. Þar hafa fjölmargir tekið þátt, má m.a. nefna Njörð P. Njarðvík o.fl. Hugmyndir um grundvallarbreytingar í stjórnskipaninni, einkum aðskilnað valdþátta og eflingu löggjafarvalds gagnvart framkvæmdavaldi eru ekki nýjar af nálinni en Vilmundur Gylfason heitinn fjallaði m.a. um nauðsyn þeirra svo eftir var tekið. Ég lét vinna frumvarpsdrög um stjórnlagaþing sem byggði á þeim þingmálum jafnaðarmanna sem áður hafa verið flutt undir forystu fyrst Stefáns Benediktssonar og síðar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Framsóknarflokkurinn hefur með eftirtektarverðum hætti gert stjórnlagaþing að stefnumáli sínu. Heiðursmaðurinn Jón Kristjánsson, fyrrverandi ráðherra, mun hafa leitt starfshóp um málið sem lagði tillögu fyrir flokksþing þeirra á dögunum og í framhaldi af því kynnti flokkurinn frumvarp um efnið nýlega. Þó margir séu sammála um stjórnlagaþing hefur umræða um útfærslu þess verið takmörkuð og ég birti því hér til gamans frumvarpsdrögin sem ég lét vinna. Þau verða ekki lögð fram úr þessu enda höfðu framsóknarmenn þau áhrif að slíkt frumvarp verður eitt af helstu áherslumálum þingsins fram að kosningum. Gaman væri að fá pósta með hugleiðingum um efnið því það er ekkert eitt rétt um útfærsluna. Þingið getur verið fámennt eða fjölmennt, staðið lengi eða stutt o.s.frv. Ég tel m.a. sterklega koma til greina að það sé skipað að jöfnu konum og körlum því þó kynjakvótar eigi ekki að vera í alþingiskosningum held ég að öðru gegni á stjórnlagaþingi sem setja á grundvallarreglurnar í samfélaginu.

Þröstur Freyr Gylfason var mér til halds og trausts við gerð frumvarpsdraganna en Þorkell Helgason, starfsmaður Alþingis, á heiðurinn að útfærslu kosningarinnar sem er vægiskosning í anda hugmynda sem átt hafa vaxandi fylgi að fagna í lýðræðisfræðum, en sumum kann að þykja óþarflega flókin.

Við þurfum klárlega nýja stjórnarskrá, eflingu þingsins og þó ekki síst beins lýðræðis. Ég er þó ekki viss um að við eigum að kalla það nýtt lýðveldi, því lengst af lýðveldistímanum áttum við þeirrar gæfu að fagna að búa á fjölmörgum sviðum í sterku og góðu samfélagi.

Þegar drögin voru samin hafði enn ekki verið tekin ákvörðun um að ganga til kosninga og því er í drögunum gert ráð fyrir að Alþingi þurfi að fjalla um niðurstöðu stjórnlagaþingsins. Nú þegar ljóst er að kosningar verða er miklu eðlilegara að breyta stjórnarskrá þannig að stjórnlagaþingið geti lagt niðurstöðu sína beint í þjóðaratkvæðagreiðslu.