Merki: ‘gagnsæi’

Einkavæðing bankanna taka tvö

Blaðagreinar

Það er mikilvægt að læra af dýrkeyptri reynslu sem við höfum glímt við frá einkavinavæðingu bankanna fyrir rúmum áratug. Spillingin og skammsýnin sem hana einkenndi kostaði m.a. tæknilegt gjaldþrot helmings fyrirtækja landsins, skuldir tugþúsunda heimila stökkbreyttust og landið átti ekki gjaldeyri til að standa í skilum. Upphaf ógæfunnar má ekki síst rekja til hinnar gamalkunnu aðferðar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks að skipta bönkunum á milli sín. Þessvegna er skynsamlegt að hafa áhyggjur þegar þessir sömu flokkar eru nú aftur uppteknir af bankasölu.

Hvað hefur breyst?

Um leið er sanngjarnt að spyrja hvort eitthvað hafi breyst og hvort við höfum ástæðu til að treysta þessum flokkum betur nú en þá. Óskandi að svo væri en því miður bendir margt til annars. Þrennt skal hér nefnt af mörgum slæmum fyrirboðum. Í fyrsta lagi samþykkti Alþingi á síðasta kjörtímabili rannsókn á einkavæðingu bankanna. Núverandi stjórnarflokkar hafa neitað að framkvæma hana. Í öðru lagi hefur fjármálaráðherra reynt að leggja niður Bankasýsluna og flytja umsjón með eignarhaldi inn í ráðuneyti til sín. Og í þriðja lagi höfum við horft upp á sölu eignarhluta eins og í Borgun og Símanum sem skapa ekki vonir um jafnræði, gagnsæi og fagmennsku við einkavæðingu. Áhyggjurnar minnka ekki við það þegar lögð er ofuráhersla á að semja við erlenda kröfuhafa um að fá bankahlutbréf frekar en að taka við greiðslu í peningum með stöðugleikaskatti.

Óbreytt bankakerfi

Undraveröld íslensku krónunnar er þannig  að eignarhald viðskiptabanka er ávísun á fákeppnisaðstöðu með mikilli gróðavon. Við höfum enn sömu myntina og þar með  sama fákeppnismarkaðinn, saman eru enn fjárfestingar og viðskiptabankar og ekkert tryggir dreift eignarhald eða kemur í veg fyrir að ráðandi eigendur misnoti banka sem fyrr. Við þurfum þessvegna róttækar breytingar á bankakerfinu og tryggja að ekki sé unnt að einkavinavæða þá  áður en hreyft er við eignarhaldi ef við eigum ekki að gera sömu mistökin aftur.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 2. nóvember sl.