apríl, 2016

Þingræða: Hvers vegna þetta fálæti um málefni fatlaðra?

Þingræða

Virðulegur forseti. Fatlað fólk er ekki í forgangi hjá ríkisstjórninni. Hún hefur núna skilað forgangslista sínum og þar er hvorki að finna fullgildingu á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks né innleiðingu á tilskipunum Evrópusambandsins um bann við mismunun. Eiga þau mál þó að vera til.

Tilskipun um bann við mismunun tók gildi í Evrópusambandinu árið 2000. Nú eru liðin 16 ár án þess að þau réttindi fatlaðs fólks hafi verið lögfest á Íslandi. 153 ríki veraldarinnar hafa fullgilt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem aftast standa í þessu efni. Við erum eitt af fjórum ríkjum í Evrópu sem ekki hafa tryggt réttindi fatlaðs fólks samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Hverju sætir þetta fálæti? Hvers vegna eru málefni fatlaðs fólks ekki á forgangslista ríkisstjórnarinnar? Þau liggja fyrir, þau eru til, það þarf ekkert að gera nema koma með þau hingað inn og samþykkja þau. En við finnum forgangsmál um timbur og timburvörur, virðulegur forseti. Já, og við finnum evrópskar tilskipanir frá árinu 2013 þegar málefni atvinnulífsins eru annars vegar af því að þau eru í forgangi.

Ég skora á þingmenn úr öllum flokkum sem vilja vinna að réttindum fatlaðs fólks að mótmæla forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og gera það að kröfu úr öllum þingflokkum að sjálfsögð mannréttindi fatlaðs fólks, sem lögfest hafa verið um alla Evrópu og sem þrír fjórðu hlutar (Forseti hringir.) af öllum ríkjum veraldarinnar hafa þegar fullgilt, verði líka látin taka gildi á Íslandi.


Ræða flutt í umræðum um störf þingsins 29. apríl 2016.

Formannskjör í Samfylkingunni

Samfylkingin
  • Hefst kl. 12 á hádegi laugardaginn 28. maí og stendur til kl. 12 á hádegi föstudaginn 3. júní
  • Allir skráðir félagsmenn geta tekið þátt 
  • Smellið hér til að taka þátt í formannskosningunni
  • Þeir sem vilja ganga til liðs við Samfylkinguna geta skráð sig hér 
  • Til þess að vera á kjörskrá í atkvæðagreiðslunni þarf að skrá sig fyrir kl. 12 á hádegi laugardaginn 7. maí
  • Nánari upplýsingar um formannskjörið má finna á heimasíðu Samfylkingarinnar xs.is
  • Þátttakendur í formannskjörinu fá sent lykilorð í heimabanka og geta þá kosið milli þeirra frambjóðenda sem í kjöri eru. Nú þegar hafa boðið sig fram auk mín Árni Páll ÁrnasonGuðmundur Ari Sigurjónsson, Magnús Orri Schram og Oddný G. Harðardóttir
  • Hér má sjá bréf mitt til Samfylkingarfólks þar sem ég fór yfir áherslur mínar um breytingar í Samfylkingunni. Sjá einnig myndband og annað nýlegt efni hér á síðunni.

Forystulaust sumarland

Blaðagreinar

Sumardagurinn fyrsti eykur okkur vongleði um bjartari daga og betri tíð. Það er ekki vanþörf á í vetrarlok þegar forystuleysið við landsstjórnina er orðið miklu meira en vandræðalegt. Nú síðast hefur forsetinn hætt við að hætta á þeirri forsendu beinlínis að óvissan sé algjör um landsstjórnina. Forsætisráðherrann hraktist nýlega frá vegna hneykslis sem rúið hefur tvo aðra ráðherra trausti. Enginn veit hver stjórnar Framsóknarflokknum. Forsætisráðuneytið í höndum flokks sem ekki hefur stuðning meðal þjóðarinnar til að leiða ríkisstjórn. Stjórnarflokkarnir vita ekki sjálfir hvaða mál þeir þurfa að afgreiða. Ofan á þetta allt bætist að ríkisstjórnin veit ekki hvenær hún ætlar að fara frá og getur ekki sagt kjósendum hvenær þeir fái að kjósa. Ríkisstjórnin virðist alveg hafa gleymt því að hlutverk hennar er að hafa forystu og eyða óvissu en ekki hanga í reiðanum og hrekjast undan veðrum. Auðvitað ætti að kjósa í vor því að óbreyttu verður landið forystulaust í allt sumar engum til gagns.

(meira…)