júlí, 2008

Áfangi í mannréttindabaráttu fatlaðra

blog

Nýlega náðist mikilvægur áfangi í mannréttindabaráttu fatlaðra, þegar tenging við tekjur maka var afnumin. Síðar á kjörtímabilinu gæti annar áfangi náðst því nú vinna íslensk stjórnvöld að fullgildingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. Tuttugasta ríkið hefur þegar fullgilt samninginn sem hefur þar með tekið gildi. Um er að ræða lagalega bindandi samning sem tryggir mannréttindi og mannfrelsi fatlaðra einstaklinga til jafns við aðra. Einhverjir kynnu að spyrja sem svo, hvort virkilega sé þörf á slíku á Íslandi. Svarið við slíkri spurningu er já, því þótt margt sé vel gert í málefnum fatlaðra getum við alltaf gert betur. Við Íslendingar erum rík þjóð og eigum að setja markið hátt.

Í stjórnarskrá lýðveldisins eru mannréttindi vissulega tryggð en fötlun er ekki tilgreind sérstaklega í upptalningu yfir þætti sem ekki megi mismuna vegna. Það er því full ástæða til þess að festa réttindi fatlaðra frekar í sessi. Einstaklingar sem búa við fötlun eiga að geta tekið fullan þátt í samfélaginu án hindrana og aðgreiningar. Slíkar hindranir eru því miður til staðar. Það er enn verið að reisa mannvirki þar sem aðgengi fatlaðra er ábótavant. Aðgengismál eru eitt stærsta baráttumál fatlaðra, því þau snúast líka um aðgengi að upplýsingum. Þar má t.d. nefna skort á táknmálstúlkun, slæmt aðgengi blindra og sjónskertra að heimasíðum o.s.fr.

Í orði og á borði

Fullgilding samningsins ein og sér og hugsanlegar lagabreytingar sem hún hefði í för með sér duga þó ekki til að tryggja framkvæmdina í reynd. Þótt ólíklegt sé að einhver ákvæði íslenskra laga gangi beinlínis gegn markmiðum samningsins, þarf líklega að fara fram ítarleg skoðun á því. Einnig væri hægt að nýta tækifærið og setja fram áætlun um úrbætur í málefnum fatlaðra í tengslum við fullgildinguna. Sérstakri eftirlitsstofnun með samningnum verður komið á laggirnar og þannig opnast kæruleið fyrir einstaklinga sem telja á rétti sínum brotið. Það ætti að tryggja virkt eftirlit með framkvæmd samningsins og að orðum fylgi athafnir.

Samningurinn tekur einnig á þáttum eins og viðhorfi til fólks með fötlun. Brýnt er að auka fræðslu og vekja almenning til umhugsunar um stöðu fatlaðra einstaklinga. Hafa verður í huga að fatlaðir eru eins ólíkir og þeir eru margir og þarfir þeirra mismunandi. Hér er því um að ræða einstakt tækifæri til þess að tryggja með heildstæðum hætti réttindi allra þeirra sem búa við fötlun.

Ekkert um okkur án okkar

Samráð við hagsmunaaðila er nauðsynlegt við hvers konar stefnumótun. Það á sérstaklega við um vinnu eins og fullgildingu þessa samnings. Það eru engir betur til þess fallnir en fatlaðir og hagsmunasamtök þeirra, að benda á hvað betur mætti fara í þjónustu og hvar aðgerða sé þörf. Fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðra eiga sæti í nefnd Jóhönnu Sigurðardóttur félags- og tryggingamálaráðherra, sem vinnur að undirbúningi vegna samningsins. Þar að auki er nú unnið að frekari kynningu á samningnum meðal einstakra félaga og almennings.

Það er löngu orðið tímabært að fólk með fötlun fái viðurkenningu sem fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Þessi samningur er vissulega skref í rétta átt en um leið þurfum við að passa okkur á að sofna ekki á verðinum. Tækniframfarir eru sífellt að auðvelda daglegt lífi okkar og það þarf að tryggja að fatlaðir sitji ekki eftir í þeirri þróun. Það má ekki einblína um of á kostnaðinn þegar kemur að bættri þjónustu við fatlaða. Umræða undanfarinna missera hefur m.a. snúist um að auka þátttöku okkar á vinnumarkaði. Þar eru mikil sóknarfæri, bæði fyrir fatlaða og ófatlaða. Með því að tryggja fötluðum nauðsynleg hjálpartæki og endurhæfingu gerum við þeim kleift að leggja jafnvel enn meira af mörkum til samfélagsins.

Pistillinn birtist í 24 stundum 5. júlí sl.

Að troða í spínatinu

blog

Hjarðhegðun er söm við sig, ekki síst á markaði. Þannig eru sérfræðingarnir sem töldu góða hugmynd að fjárfesta í eignum á síðasta ári, þegar eignaverð var í hámarki, sammála um að það sé óráðlegt nú þegar verðhrun hefur orðið eins og t.d. á hlutabréfamarkaði. Þó sýnir sagan að almennt sé skynsamlegt að ráðast í langtímafjárfestingar þegar verð er lágt en selja þegar verð er hátt.

Þegar samdrátturinn blasir við eru ráð til stjórnvalda jafn einróma og annað en þó er varla einboðið að þau séu rétt fremur en mörg fjárfestingaráðgjöfin. Núna hljómar kórinn nokkurn veginn svona: Fleiri álver, meiri fasteignalán og síðast en ekki síst stórt ríkislán í útlöndum til að redda okkur öllum. Þetta heitir að troða í spínatinu, því lausnin á vanda okkar á samkvæmt sömu sérfræðingum að vera sú að gera meira af því sem skapaði vandann. Þá er rétt að muna að þau ráð koma úr sama ranni og hin um að fjárfesta fyrir alla muni í DeCode, Eimskip og FL Group.

Aðrir tímar

En nú eru aðrir tímar og verkefni okkar er að læra af mistökunum en ana ekki sífellt lengra út á foraðið. Um álver er það að segja að þau eru ágæt til síns brúks en óskynsamlegt er að leggja fleiri egg í þá körfu. Uppbygging þeirra sýnir líka að þau skapa stundarumsvif en langtímaávinningur er erlendra fyrirtækja.

Nú í vikunni kynnti ríkisstjórnin mikilvægar aðgerðir í íbúðamálum, til þess að varna frosti á fasteignamarkaði og hjálpa sumum fjármálastofnunum frá fyrirhyggjuleysi sínu í fasteignalánum. Fátt er mikilvægara samfélaginu en húsnæðismarkaðurinn og skylda okkar að standa vörð um hann. En það væri engum greiði gerður með því að dæla þangað óhóflegu fjármagni til þess að halda áfram að byggja íbúðir fyrir fólk sem ekki er til.

Þar er einmitt vandinn. Við höfum eytt um efni fram í óarðbærar fjárfestingar. Það eru bara þrír mánuðir síðan við hættum því, enda var almenningur lengi vel hvattur áfram götuna með óábyrgu góðæristali, skattalækkunum og óhóflegu framboði af lánum. Og nú er hrópað á ríkið að redda öllu með stórfelldum erlendum lántökum. Jafn nauðsynleg og sú fyrirgreiðsla er vegna vanrækslu á gjaldeyrisvaraforðanum í góðærinu, þá eru það falsvonir að ný erlend lán ríkisins séu einhver allsherjarlausn.

Almenn skilyrði

Það þarf sterk bein til að þola góða daga og bjartsýnin og bruðlið keyrði úr hófi fram. Þó víða sé glímt við krefjandi verkefni eru lífskjör almennt með því besta sem gerist. Mikilvægast í efnahagskerfi heimsins í dag er matur, orka og fjármálaþjónusta. Af mat og orku erum við rík og þó fjárfestingarráðgjöfin sé ekki óskeikul höfum við á örfáum árum eignast öflug og háþróuð fjármálafyrirtæki. Við eigum þessvegna ekki að mæna á erlend fyrirtæki og fjármálastofnanir um að bjarga okkur, heldur halda óhikað áfram að styðja og styrkja okkar eigið atvinnulíf. Enda er  það ólíkt vænlegra en halda uppi fölskum lífskjörum með endalausum neyslulánum, eða halda stýrivöxtum áfram háum til að erlendir aðilar geti byggt mengandi verksmiðju í Vogavík.

Einsog aðgerðir ríkisstjórnarinnar í vikunni sýndu kalla aðstæður á margvíslegar sértækar aðgerðir. Slík afskipti stjórnvalda af atvinnulífi eru ávallt mjög vandasöm og mikilvægt að skapa fyrst og fremst almenn skilyrði fyrir atvinnulífið, en vextir, verðbólga og gengissveiflur hérlendis hafa iðulega verið óviðunandi fyrir fólk og fyrirtæki. Og ef við ætlum að hætta að troða í spínatinu en læra af mistökum okkar verður líka hver að svara því fyrir sig hvort líklegra sé að hér verði stöðugleiki með aðild að ESB og evrunni eða með áframhaldandi hagfræðitilraun með minnsta flotmyntarhagkerfi heims.

Pistillinn birtist í 24 stundum 21. júní sl.