Merki: ‘Verðtryggingin’

Verðtryggingarvitleysan

blog

Það er skrýtið að sumir einlægir Evrópusinnar taki að sér málsvörn fyrir hina séríslensku verðtryggingu og verða fyrir vikið eins og talsmenn þess vaxtaokurs sem hún er hluti af og einkennir íslensku krónuna. Þó erum það einmitt við Evrópusinnarnir sem berjumst fyrir raunverulegri framtíðarlausn til að lækka hér vexti verulega. Skilaboð mín til Samfylkingarfólks í þessu efni eru skýr. Við verðum að hætta að halda því fram að allt verði áfram og óhjákvæmilega dýrt og ósanngjarnt þangað til við fáum evruna. Við verðum að breyta stefnu okkar afdráttarlaust, ráðast að vaxtaokri og hafa svör við því hvað við ætlum að gera í peningamálum þangað til evran kemur. Við eigum að skilja sundur fjárfestingar- og viðskiptabanka, brjóta upp fákeppni, draga úr kostnaði og greiða fyrir samkeppni, auka aðhald með því að minnka vægi verðtryggingar, setja skorður við þjónustugjöldum o.fl. o.fl. Því þó við höfum eygt von um hraða inngöngu í annað myntsvæði í neyðarástandinu 2008 þá er nú ljóst að það mun taka tíma að komast í evruna. Þangað til þurfum við að hafa pólitík í stað þeirrar nauðhyggju að ekkert verði að gert þangað til.

(meira…)

Dæmi hver fyrir sig

Blaðagreinar

Sigmundur Davíð neitar að hafa gefið fyrirheit um 300 milljarða leiðréttingu frá hrægömmum til skuldara fyrir síðustu kosningar. Sem betur fer búum við núorðið í þannig heimi að einfalt er fyrir flesta að fara bara á netið og hlusta t.d. á viðtal RÚV við hann fyrir kosningar.

Hitt er þó óumdeilt að Framsóknarflokkurinn lofaði að leiðrétta forsendubrestinn. Sá hluti íslenskra heimila sem fær leiðréttingu mun fá að meðaltali um 1,1 milljón. Hver og einn getur metið það hvort það sé sá forsendubrestur sem skuldsettu heimilin í landinu urðu að meðaltali fyrir. Leiðréttingin nemur 72 milljörðum eða 5,7% af verðtryggðum skuldum heimilanna og 3,75% af heildarskuldum heimilanna. Lesendur muna best sjálfir hvort þetta eru prósentutölurnar sem talað var um. Þá þræta menn varla um að þessi fyrirheit hafi verið kölluð af Sigmundi Davíð upprisa millistéttarinnar. 1,1 milljóna króna lækkun á verðtryggðu láni Íbúðalánasjóðs mun leiða til allt að 7.000 kr. lægri greiðsubyrði á mánuði fyrir þau heimili sem aðgerðirnar ná til. Hvort það jafngildir upprisu metur fólk best sjálft.

Þá var ótvírætt lofað heimsmeti en umfang aðgerðanna er skv. hagdeild ASÍ svipað og aðgerða síðustu ríkisstjórnar. Útfærslan núna hefur hins vegar meiri þensluáhrif og vegna þess að ekkert hefur verið gert í verðtryggingunni er hætt við að á móti komi ýmiss kostnaður fyrir heimilin í hækkun verðtryggðra lána, vaxta og verðlags almennt. Þar sem þetta er hvorki forsenduleiðrétting né nýting á svigrúmi hrægamma, heldur framlag af skattfé, er líka ástæða til að hafa efasemdir að sanngjarnt sé að undanskilja í aðgerðunum efnaminnstu heimilin og þau skuldsettustu en greiða hluta fjármunanna til hátekju- og stóreignafólks í staðinn.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 31. mars sl.

Verðtryggingarstjórn Sigmundar

Uncategorized

Senn fer fyrsta ári þessa kjörtímabils að ljúka. Það væri mikil synd að segja að ríkisstjórnin hafi nýtt þennan tíma vel til góðra verka. Í stað þess að einblína á það að efna hin stóru kosningaloforð sín er nú til umræðu í þinginu tillaga um slit aðildarviðræðna við Evrópusambandið sem gengur þvert gegn kosningaloforðum stjórnarflokkanna og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Betur færi á því að tími þingsins væri nýttur í að ræða frumvörp um afnám verðtryggingar. Ekkert bólar hins vegar á slíkum frumvörpum og virðist sem Framsóknarflokkurinn ætli ekki að efna þetta stærsta kosningaloforð sitt. Það eina sem gerst hefur í málinu er að nefnd skipuð þeirra eigin fólki komst að þeirri niðurstöðu að öll tormerki væru á því að afnema verðtrygginguna, það væri mjög flókið og eiginlega ómögulegt. Það lá svo sem í augum uppi að framsóknarmenn myndu aldrei leggja til afturvirkt afnám en þeir hafa ekki einu sinni lagt fram þingmál um að draga úr vægi verðtryggingar eða um afnám til framtíðar.

Döpur framtíðarsýn

Með fyrrnefndri tillögu um slit aðildarviðræðna fjarlægist eini raunhæfi möguleikinn á því að minnka fjármagnskostnað heimila í landinu. Framlagning tillögunnar lýsir miklu ábyrgðarleysi þar sem stjórnvöld hafa engan veginn getað bent á raunverulegan valkost við núverandi ástand. Framtíðarsýnin virðist því vera sú að Íslendingar búi áfram við krónuna með þeim okurvöxtum, verðbótum og verðtryggingu sem henni fylgja, enda eru framsóknarmenn hættir öllu tali um norska krónu og kanadadollar. Skýr skilaboð atvinnulífsins sem birtust nýlega á Viðskiptaþingi og Iðnþingi undirstrika ennfremur hversu einangruð ríkisstjórnin er orðin í málflutningi sínum í gjaldmiðilsmálum.

Þetta er einfalt

„Þetta er einfalt,“ sagði formaður Framsóknarflokksins fyrir kosningar og átti þar við afnám verðtryggingar og leiðréttingu húsnæðislána. Afnám verðtryggingar átti að framkvæma þannig að fólki með verðtryggð lán yrði gert kleift að skipta yfir í óverðtryggð lán á stöðugum vöxtum. Það átti að tryggja íslenskum heimilum eðlileg lánakjör og skipta áhættunni milli lánveitenda og lántakenda. Allt hljómar þetta vissulega einfalt og því vaknar upp sú spurning hvað tefji fyrir framlagningu þingmála þess efnis. Í huga formannsins var val kjósenda síðastliðið vor mjög skýrt, annað hvort yrði hér mynduð framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn. Það skyldi þó ekki vera að fólk hafi kosið síðari kostinn eftir allt saman? Í nærri hundrað ár höfum við reynt að skapa stöðugleika og lága vexti með íslensku krónunni. Það hefur aldrei tekist og er fullreynt. Öllum má vera ljóst að til að skapa stöðugleika og lága vexti fyrir fólk og fyrirtæki þurfum við gjörbreytta stefnu, ekki síst nú þegar við erum komin með gjaldeyrishöft sem kosta okkur 80 þúsund milljónir á ári. Með því að slíta aðildarviðræðum er Framsókn að koma í veg fyrir breytingar án þess að leggja fram neina aðra stefnu en þá sem felst í áframhaldandi óstöðugleika og okurvöxtum krónunnar. Í því felst ekki afnám verðtryggingar heldur en hún þvert á móti fest í sessi til framtíðar.

 

Greinin birtist í DV 14. mars sl.