apríl, 2008

Evrópa og eggjakast

blog

Mörgum brá í brún í vikunni að heyra sjónvarpsfréttamann ræða hvort hægt væri að sviðsetja eggjakast fyrir myndavélarnar vegna útsendingar frá mótmælaaðgerðum vörubílstjóra við Rauðavatn. En þetta hald manna var auðvitað úr lausu lofti gripið. Eftir að samtal fréttamannsins við starfsfélaga sína varð almælt sendi hann út leiðréttingu þess efnis að þetta hafi aldrei staðið til, heldur verið í kaldhæðni sagt milli kollega, en ekki ætlast til að það væri tekið alvarlega.

Fréttamaðurinn var ekki eini fulltrúi trúverðugleikans í heiminum sem þurfti að leiðrétta sig í fyrradag. Þess þurfti líka breska forsætisráðuneytið sem til þessa hefur verið orðlagt fyrir varfærni og nákvæmni í sínu starfi. Sem kunnugt er hittust þeir Geir Haarde og Gordon Brown á sumardaginn fyrsta og ræddu alvarleg mál meðan við hin vorum í skrúðgöngum og hoppuköstulum. Og eftir fundinn tilkynnti Downingstræti 10 að þeir hefðu m.a. rætt strategískar viðræður æðstu embættismanna vegna þess að sívaxandi líkur væru á inngöngu Íslands í ESB.

Sitthvað ESB og Evrópumál

Þó sumum hafi þótt þetta hljóma líklega var það strax borið til baka af okkar ráðuneyti. Þannig segir aðstoðarkona ráðherra í Morgunblaðinu í gær „að Evrópusambandið hafi ekkert verið rætt“.  Þó sagði í tilkynningu forsætisráðuneytis okkar að þeir Geir og Gordon hefðu rætt Evrópumálin, en það er auðvitað sitthvað ESB og Evrópumál.

Þó hefði ekkert verið eðlilegra en að ræða Evrópusambandið og sívaxandi líkur á inngöngu Íslands á fundi þeirra Gordons og Geirs. Þeir voru sannanlega að ræða hinar gerbreyttu forsendur í bæði öryggis- og efnahagsmálum okkar sem nú eru og auðvitað liggur fyrir að mikill meirihluti þjóðarinnar vill hefja undirbúning að aðild að ESB. Ekki kannski af því að við séum svo hrifin af skrifræðinu í Brussel eða langi svo mikið að senda þingmenn á Evrópuþingið, heldur fyrst og fremst vegna þess öryggis og stöðugleika sem er að sækja í ESB og ekki síst myntbandalag þess.

Einnig liggur fyrir að landsmálaforysta Íslands, jafnt fagleg sem flokkspólitísk, hefur ekki verið með eða á móti aðild að ESB af trúarástæðum. Þar ræður víðast kalt hagsmunamat. Forsendur þess hagsmunamats hafa breyst hratt og því miður ekki örugglega á síðustu misserum. Vaxandi krafa er úr atvinnulífinu um að látið verði reyna á hvaða kjör bjóðist við aðild, en þegar hefur verkalýðshreyfingin tekið þá afstöðu. Þá hafa æ fleiri stjórnmálamenn sett málið á dagskrá með hugmyndum um vegvísa, breytingar á stjórnarskrá, tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu o.s.frv. Einnig hafa kynslóðabreytingar áhrif en í pólitík, á hinum félagslega vettvangi og í fjölmiðlum er yngra fólk, hlynnt ESB-aðild, að taka sæti kynslóðar sem hafði meiri efasemdir.

Göngum upprétt inn

Við sem lengi höfum talað fyrir aðild höfum lagt áherslu á m.a. mikilvægi þess að ráða sjálf för okkar inn í ESB, fremur en hrekjast þangað undan veðri og vindum. Erfiðleikar á fjármálamarkaði gætu leitt til þess að við teljum ekki aðrar leiðir færar og leitum eftir aðildarviðræðum á þeim forsendum. Það er mikilvægt að með andvaraleysi komum við okkur ekki í þá stöðu, heldur hefjumst strax handa og setjum fram eigin forsendur og skilyrði fyrir inngöngu. Við eigum að ganga styrk til samninga og þó nú séu blikur á lofti byggir sterkur efnahagur okkar ekki síst á mat og orku, en verðhækkanir á þessu tvennu eru ekki síst sá vandi sem þjóðirnar glíma við.  Kröfum okkar um forræði auðlindanna eigum við að halda á lofti því aðild að ESB á ekki að vera af neyð, heldur vegna þeirra stóru tækifæra sem í því felast til að bæta lífskjör almennings á Íslandi.

Pistillinn birtist í 24 stundum 26. apríl sl.

Best að menga á Íslandi?

blog

Það var gefandi að hlýða á fyrirlestur Al Gore um loftslagsmál í háskólabíói á þriðjudaginn. Þrátt fyrir að hafa farið á myndina um óhentugan sannleika er fyrirlesturinn enn áhrifameiri í lifandi flutningi. Ekki spillti að hann var sniðinn að stað og stund og kryddaður þekkingu fyrirlesarans á Íslandi. það yljar alltaf landanum að frægir menn frá útlöndum viti að við séum til.

Með einurð sinni og þolgæði hefur Al Gore valdið viðhorfsbreytingum um heim allan. Það sem var óljóst og umdeilt fyrir aðeins fáum árum viðurkenna nú allir sem staðreynd;  stærsta og mikilvægasta verkefni samtímans. Það er ótrúlegt fordæmi og mikil hvatning öllum þeim sem tala fyrir mikilvægum úrbótum í samfélaginu að unnt sé að ná jafn miklum árangri og  Al Gore.

Tvískinnungur

Nú skildi maður ætla að talsmenn loftslagsmengunar létu lítið fyrir sér fara þegar staðreyndir málsins liggja fyrir í niðurstöðum færustu vísindamanna sem rannsakað hafa áhrif loftslagsbreytinga fyrir Sameinuðu þjóðirnar. En fjandinn deyr ekki ráðalaus og nú eru stjórnmálamenn, sem fyrir skemmstu boðuðu að það væru engar loftslagsbreytingar, farnir að nota þær til að réttlæta aukna loftslagsmengun á Íslandi! Þeir segja nú sem svo að betra sé að álver mengi á Íslandi knúið grænni orku, en að það  mengi í Kína knúið kolaorku því þá mengi það meira „hnattrænt“ eins og það heitir svo fínt.

Sumum þykir hér örlátt viðhorf á ferðinni sem sé reiðubúið að fórna að mestu  náttúrugæðum Íslands til að draga pínulítið úr aukningu loftmengunar í Kína.  En trúlega helgast viðhorfið oftar af skeytingarleysi um náttúruna en örlæti. Hverjum manni ætti að vera ljóst að það er fáránlegt að fórna náttúrugæðum Íslands til þess eins að draga ofurlítið úr aukningu mengunar hjá annarri þjóð. En jafnvel þó það væri réttlætanlegt á það ekki við því dæmi mengunarsinnanna er ímyndun ein.

Valkostirnir eru einfaldlega ekki að knýja álver grænni orku hér eða kolum annarsstaðar. Meirihluti álvera heimsins er knúinn endurnýjanlegri orku, en ekki bara á Íslandi. Ábyrg alþjóðafyrirtæki einsog Alcoa eru ekki að fara að reisa ný álver árið 2008 sem knúin eru kolaorku. Valkostir okkar hafa því lítið með kolaorkuver í Kína að gera. Annaðhvort byggir Alcoa álver á Bakka sem knúið er endurnýjanlegri orku, eða það byggir álver annarsstaðar í heiminum sem líka yrði knúið endurnýjanlegri orku. Loftfimleikarnir um að betra sé að álver mengi hér eru þessvegna einkum ímyndunarleikur.

Verkefnið

Þessir rökfimleikar hafa verið nýttir til að krefjast áfram sérstakra aukaheimilda fyrir okkur Íslendinga til að menga loftslag jarðar meira en loftslagssamningar almennt heimila. Það er ógæfuleg nálgun að stærsta verkefni samtímans, minnkun loftslagsmengunar, að hugsa fyrst og fremst um hvernig við sjálf getum fengið undanþágu frá takmörkunum. Stundum erum við svo sjálfsupptekin að við höldum að aðeins Ísland hafi sérstöðu í heiminum. Staðreyndin er auðvitað sú að allar þjóðir hafa sérstöðu og ef 200 þjóðir ætla að leggja áherslu á undanþágur sínar er hætt við að þær nái aldrei saman um aðalatriðið, að draga úr loftslagsmengun.

Við drögum heldur ekki úr loftslagsmengun með því að leita eftir mengandi starfsemi. Við eigum þvert á móti að nýta okkar grænu orku í starfsemi sem ekki mengar s.s. netþjónabú, kísilflögur o.s.frv. Auðvitað eigum við ekki síst að hjálpa öðrum þjóðum að framleiða græna orku. Þannig vinnum við trúlega mest gagn í loftslagsmálum fyrir nú utan að skapa með því miklu áhugaverðari störf og viðskiptatækifæri en mengandi stóriðja býður.

Pistillinn birtist í 24 stundum 12. apríl sl.

Þörf nýrrar þjóðarsáttar

blog

Þrátt fyrir aðvaranir, alþjóðlega fjármálakreppu og himinháa vexti var eyðsla okkar enn að aukast í síðasta mánuði. Umhugsunarefni er að ekkert nema neyðarhemillinn virðist hemja neyslugleði Íslendinga. Það sýnir líka vel hve bitlaus og mótsagnakennd hagstjórnartæki okkar eru meðan við búum við krónuna. Háir vextir áttu að slá á eyðslu en styrktu gengi krónunnar svo að hagstætt varð að halda áfram að eyða í utanlandsferðir, bíla, o.s.frv.  Vextirnir höfðu svo lítil áhrif því ýmist fjármögnuðum við okkur í erlendri mynt, eða verðtryggðum lánum sem voru áfram á sömu gömlu vöxtunum. Þess vegna eru nú flestir sammála um að skipta um gjaldmiðil.

En við skiptum ekki um mynt á morgun og því kalla aðstæður okkar á aðrar aðgerðir. Ef krónan hefur einhvern kost þá er hann sá að eiga gott með hraða aðlögun. Það þýðir eilífar sveiflur sem ekki eru farsælar til langframa en getur komið sér vel nú þegar kreppir að. Sagan sýnir að ítrekað höfum við náð að rétta fljótt úr kútnum en það er fjarri því að vera sjálfgefið, ekki síst í miðri alþjóðlegri fjármálakreppu.

Að mjólka neytendur

Atvinnulíf okkar hefur safnað gríðarlegum skuldum síðustu ár. Það hefur verið rökstutt með aukinni framleiðni og hagræðingu. Furðu lítið virðist hins vegar mega útaf bregða til þess að fyrirtæki sjái sig knúin til að hækka verð á vöru og þjónustu. Og það er alveg ótrúlegt hvað verðið er fljótt að hækka þegar gengið lækkar, eins og verður lítið vart við að verðið hafi lækkað þegar aðstæður bötnuðu. Þó allir geti unnt bændum góðrar afkomu er 15% verðhækkun að nokkru réttlætt með vaxtahækkunum sem vekur áhyggjur um að verið sé að senda neytendum reikninginn fyrir skuldsetningu kúabúa sl. ár. Vaxandi áhyggjuefni er það viðhorf sem gætir hér og hvar í viðskiptalífi að auðveldlega megi senda íslenskum neytendum reikninginn fyrir skuldsettum yfirtökum með verðhækkunum á vöru og þjónustu.

Mjólkurhækkunin er ágætt dæmi um það sem ekki er hægt að gera við núverandi aðstæður. Ráðist allir sem réttlætt geta hækkanir í þær með afgerandi hætti erum við einfaldlega komin á bólakaf í verðbólgu og víxlverkanir síðustu aldar. Þá hugsar hver um sig og hækkar sitt með tilvísun til hinna þar til verðlag og skuldir hafa hækkað svo að launafólk þarf að rétta hlut sinn með kauphækkunum sem aftur auka kostnað og leiða til hækkana o.s.frv.

Strax

Á þeirri hringavitleysu tapa allir. Fyrir 20 árum komumst við útúr slíku ástandi en það var í lokaðra hagkerfi en nú er. Þá tóku allir höndum saman í Þjóðarsáttinni og launafólk lagði verulega á sig til að ná fram stöðugleika og í nýgerðum kjarasamningum stóð ekki á verkalýðshreyfingunni. Þeir kjarasamningar voru virðingarverð tilraun til að ná stöðugleika og tryggja kjarabætur til hinna lægst launuðu. Það sem síðan hefur gerst og virðist yfirvofandi í verðhækkunum kallar á nýja þjóðarsátt. Og nú er það ekki launafólkið heldur atvinnulífið sem halda verður aftur af hækkunarkröfum sínum. Þar verður ríkisstjórnin auðvitað líka að koma að með þeim aðgerðum sem á hennar færi eru, s.s. auka fjármálastöðugleika, lækka tolla, halda uppi framkvæmdastigi, o.s.frv. Mikilvægt er að slík samstaða náist áður en víxlhækkanir hefjast fyrir alvöru því þá eru þær illviðráðanlegar.  En til þess að það megi takast verða allir að vera með og axla ábyrgð á viðsjárverðum tímum í stað þess að senda neytendum bara reikninginn.