Merki: ‘Spilling’

Áskorunin

Blaðagreinar

Kerfið afneitar orsökum hrunsins og er á fullri ferð við að endurreisa sama fjármálakerfi og féll. Það er sami veiki gjaldmiðillinn, sama vonda verðtryggingin, sömu okurvextirnir og bráðum líka myntkörfulánin, sama fákeppni á bankamarkaði sem nú á aftur að einkavæða. Vaxandi spilling og þenslumerkin eru hvarvetna. Sama stýrivaxtapólitík heldur uppi óhóflegum kostnaði fyrirtækja og heimila og laðar erlenda spákaupmenn aftur til landsins. Grátbrosleg fullkomnun yrði svo ef sömu hóparnir eignuðust sömu bankana aftur.

Þessi þróun er í anda þeirra sem telja að við höfum bara orðið fórnarlömb alþjóðlegrar kreppu, hér hefði allt reddast ef ekki væru útlöndin. Eftir því sem frá líður eflast líka þau gríðarlegu sérhagsmunaöfl sem hafa tryggt sér hæsta raunvaxtastig í okkar heimshluta og vilja það kerfi áfram óbreytt.

Pólitísk forysta
Ekki voru gerðar nægilegar breytingar í kjölfar hrunsins og það dugar ekki að bíða eftir evrunni með þær.

Þangað til við fáum alvöru gjaldmiðil þurfum við pólitíska forystu um að breyta kerfinu. Vextir eru hér of háir enda fjármálakerfið of dýrt. Brjóta þarf upp fákeppni á bankamarkaði, aðgreina fjárfestingar og viðskiptabanka og kveðja séríslenskar lausnir eins og verðtryggingu neytendalána.

Ræða þarf raunvaxtakröfuna og skapa aðrar og viðráðanlegri húsnæðislausnir fyrir ungt fólk, setja skorður við þjónustugjöldum banka, tryggja dreift eignarhald o.s.frv.

Breytingar á bankakerfinu eru nefnilega stærsta verkefni stjórnmálanna hér á landi, því þó Íslandi vegni blessunarlega vel geta ytri skilyrði breyst hratt og kreppur koma aftur og aftur.

En þetta er líka stærsta áskorun heimsins því reglurnar núna auka sífellt og sjálfkrafa ójöfnuð og sóun, fyrir fáránlega auðsöfnun örfárra.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. febrúar sl.