Léttum af leyndinni

blog

Það vekur athygli að aðalforstjóri Alcoa hefur kosið að fjalla opinberlega um orkuverð hjá Landsvirkjun í brasilískum fjölmiðlum. Þar er eftir honum haft að á Íslandi greiði hann ekki nema helming þess raforkuverðs sem hann er krafinn um í Brasilíu. Þessar yfirlýsingar koma á óvart þegar litið er til þess að trúnaður var um verðið í samningunum. Það er hinsvegar fagnaðarefni að sá trúnaður hafi verið rofinn af Alcoa, því það á auðvitað ekki að vera leyndarmál gagnvart Íslendingum hvert orkuverðið er í stærstu framkvæmd Íslands-sögunnar, þó aðrir minni samningar hafi til þessa verið taldir til viðskiptaleyndarmála.

 

Eftir að Alcoa hefur, að því er virðist, rofið trúnað um orkuverðið hlýtur Landsvirkjun að krefjast þess að það verði gert opinbert. Stjórnendur hennar koma auðvitað mjög illa út þegar alþjóðlegur viðskiptamógúll einsog aðalforstjóri Alcoa segir þá ná helmingi lægri orkuverðum en menn gera í suður Ameríku og geta varla setið undir því. Sem kunnugt er greiddi ég einn stjórnarmanna atkvæði gegn þessum samningum, en ég held að það sé nú orðið mikið hagsmunamál þeirra sem fyrir samningunum stóðu að þeir verði gerðir opinberir og hyggst ég þess vegna leggja það til á næsta stjórnarfundi Landsvirkjunar síðar í þessum mánuði.

 

Upplausn í ríkisstjórn

 

Ef hægt væri að finna til samúðar með Framsóknarflokknum hefði maður fundið ríkulega til hennar undanfarna daga. Eftir að hafa þjónað undir Sjálfstæðisflokkinn í nær tólf ár er flokkurinn að engu orðinn, eins og augljóst var að verða myndi og hent hefur alla þjónustuflokka Sjálfstæðisflokksins til þessa. Árum saman blekktu Framsóknarmenn sig með því að þeir næðu sér alltaf upp í kosningum en mættu í þessum sveitarstjórnarkosningum þeim kalda veruleika að það er ekki hægt að plata alla alltaf, þrátt fyrir allar auglýsingarnar.

 

Afsögn Halldórs sýnir okkur líka að þó menn efist stundum um lýðræðið okkar þá virkar það þó hægt fari. Þannig hlaupa menn ekki til og segja af sér þegar þeir gera grundvallarmistök eins og að gera okkur aðila að ólögmætum stríðsaðgerðum í Írak. En þeir sem þannig fara gegn vilja þjóðarinnar neyðast nú samt til að hætta „af sjálfsdáðum“ þó síðar sé.

 

Geir Haarde verður nú þriðji forsætisráðherrann á jafnmörgum árum og útlit fyrir að jafn oft verði skipt í ýmsum lykilráðuneytum. Slíkur hringlandaháttur er birtingarmynd á óstarfhæfri ríkisstjórn enda er hún ófær um að taka á öllum helstu málum, s.s. efnahagsmálum, varnarmálum og vandanum í velferðarkerfinu. Hreinlegast væri auðvitað að kjósa bara strax og freista þess að koma á festu til fjögurra ára í landsstjórninni, en vísast eru stjórnarflokkarnir of hræddir til þess að fara í kosningar.