Að ala á ótta

blog

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur gert að umtalsefni tilraun tánings til að drepa mann sem hann gagngert kynntist á netinu í því augnamiði. Telur ráðherrann þetta dæmi um þær nýju hættur sem mæta þurfi með áherslum hans um nýjar lögreglusveitir, -deildir og rannsóknarheimildir. Er þó vandséð hvernig þeir tilburðir allir ættu að koma í veg fyrir slík tilvik. Þessa sömu daga fann sérsveit ráðherrans sér það verðuga viðfangsefni að kljást við unglinga í Skeifunni eftir eltingarleiki sumarsins við hóp mótmælenda. Og þrátt fyrir þetta gleðilega verkefnaleysi boðar ráðherrann að enn þurfi að auka við sérsveitir, stofna greiningardeild, leyniþjónustu og auka rannsóknar-heimildir lögreglu allt í nafni öryggis.

 

Öll viljum við búa við öryggi, en lögregluríkið er ekki leiðin að því. Öryggi okkar höfum við best tryggt með því að stuðla að jöfnuði í landinu og með öflugu velferðarkerfi sem ásamt góðri almennri löggæslu hefur gert Ísland öruggt samfélag. Þær þjóðir sem nálgast hafa viðfangsefnið úr sömu átt og Björn Bjarnason hafa hinsvegar flestar ratað í ógöngur og eru Bandaríkin skýrasta dæmið um það. Hvergi eru sérsveitirnar öflugri, leyniþjónusturnar og greiningar-deildirnar fleiri og engin önnur þjóð hefur t.d. nálgast eiturlyfjavandann sem hreina styrjöld (war on drugs) jafnvel með vopnuðum aðgerðum í öðrum ríkjum. Og óvíða er glæpatíðnin meiri og öryggisleysið, og fangelsin þó yfirfull.

 

Í stað þess að feta þær ógöngur ættu verkefni okkar að vera að styrkja almenna löggæslu, taka á ofbeldi gegn konum og þróa úrræði til að rjúfa vítahring síbrota, einkum með markvissum úrræðum fyrir unga afbrotamenn. En á þessum hversdagslegu verkefnum sumum er óverulegur áhugi. Fangelsismálin í svo fullkomnum ólestri að sumir kalla það glæpamannaframleiðslu ríkisins sem 19. aldar dýflisan við Skólavörðustíg er táknrænt dæmi um. Og vegna þess dæmis sem ráðherrann vísar til var athyglisvert þegar fréttaskýringarþátturinn Kompás benti á að í verslunum væri átölulítið verið að selja börnum undir aldri raðlimlestinga- og fjöldamorðingjaleiki, enda yfirvöldin upptekin við háleitari viðfangsefni en hversdagslegan veruleika okkar Íslendinga.

 

Gleðileg brottför hersins hefur svo enn aukið á lögregluríkishugmynd-irnar í því öryggisleysi sem nú hefur heltekið dómsmálaráðherrann. Þó er brottförin staðfesting þess að aldrei í sögu lýðveldisins hefur verið eins friðvænlegt í þessum heimshluta og til hvers segullinn sé hér þarf ekki lengur að spyrja. Það kann auðvitað að leiða til þess að hin almenna lögregla þurfi greiningardeild til samskipta við öryggis-stofnanir í öðrum löndum og gott væri að fá lög um þá leyniþjónustustarfsemi sem fram fer hjá Ríkislögreglustjóra en að hér þurfi að auka njósnir um borgarana af þessu tilefni er algjörlega fráleitt. Það er einfaldlega ekkert tilefni til að hætta þannig rétti okkar til einkalífs.

 

Hryðjuverkaógnin hefur auðvitað kallað á endurmat í öryggismálum. En nú þegar fimm ár eru liðin frá árásinni á Bandaríkin er tímabært að gera upp við ranghugmyndirnar sem af þeim spruttu. Viðbrögð okkar við breyttum heimi eiga ekki að vera að reisa lögreglumúra utan um líf okkar með öryggislögreglum, sérsveitum, leyniþjónustum og rannsóknarheimildum. Þá er alið á óttanum og þannig sigra hryðjuverkamennirnir því þeir vilja skapa okkur öryggisleysið og gera lögregluríkið að hlutskipti okkar. Hugmyndafræði hernaðarhyggjunnar liggur til grundvallar þessum tillögum um öryggisstofnanir og eftirlit, það er sama hugmyndafræði sömu manna og varð til þess að við sendum vopnaða sveit til Afganistan og áttum aðild að innrásinni í Írak. Það hernám hugarfarsins dregur ekki úr hættu á hryðjuverkum heldur eykur hana. Stríð Bandaríkjamanna gegn hryðjuverkum hefur nefnilega ratað í svipaðar ógöngur og stríð þeirra gegn eiturlyfjum, það hellir olíu á eld og skerpir vítahring átaka í stað þess að stuðla að friði. Það er tímabært að hafna þeim tindátaleik en auka öryggi okkar þvert á móti með því að treysta aftur gömlu gildin um friðsama þjóð, frelsi einstaklingsins og réttinn til einkalífs.