Örvæntingarfullur fjármálaráðherra

blog

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag gefur að líta yfirlýsingu fjármálaráðherra um að „verðbólguskotið“ sé á niðurleið. Tilefnið virðist vera að í einn mánuð hefur verðbólga lækkað frá fyrri mánuði. Þó er hún þrefalt hærri en verðbólgumarkmiðið og gefur ráðherranum fremur tilefni til að vera í felum en á forsíðum blaðanna. Skuldir meðalheimilis aukast um hátt í eina milljón króna á ári í þessu ástandi.

 

Í þokkabót lækkaði verðbólga ekki í síðasta mánuði heldur féllu útúr 12 mánaða viðmiðun miklar hækkanir haustið 2005. Í hálft þriðja ár hefur verðbólgan verið yfir markmiði. Aðeins fimm ár eru liðin síðan ríkisstjórnin missti síðast verðbólgu í tæp tíu prósent og kallar það „mjúka lendingu“. Verðbólgan hér er ekki skot heldur viðvarandi því ríkisstjórnin lætur reka á reiðanum og virðist ekki telja hana vandamál.

 

Vonandi mun verðbólgan hníga en því ræður fremur samdráttur á fasteignamarkaði en aðgerðir stjórnvalda. Alla fjármálaráðherratíð Árna Mathiesen hefur hún verið yfir markmiði  og engin ástæða til að fagna fyrr en markmiðinu er náð. Í miðjum ævintýralegum viðskiptahalla, mikilli verðbólgu og hæstu vöxtum í heimi er það hlutverk fjármálráðherra að vara við, en hella ekki olíu á eld óraunsærra væntinga. Við þær aðstæður er svo ekki síður áhyggjuefni forsíðu-uppsláttur sem minnir meira á auglýsingabækling Sjálfstæðisflokksins um efnahagsmál en á ábyrgan fjölmiðil.