Annasöm vika

blog

Þetta hefur verið annasöm vika, enda fer saman að nú er prófkjör að hefjast og Alþingi kemur saman um mánaðarmót með tilheyrandi undirbúningi.

Þingflokkurinn fór í upphafi vikunnar í vinnuferð upp í Glym í Hvalfirði til að leggja línurnar fyrir veturinn og í gær funduðum við saman forystufólk í Reykjavík. Um kvöldið var svo félagsfundur þar sem kynnt var hin nýja umhverfisstefna Samfylkingarinnar sem ég segi betur frá hér á síðunni síðar.

Undirbúningur þingmála og prófkjörs hafa að öðru leyti einkennt vikuna en törnin hjá okkur í fjárlaganefnd hefst á mánudagsmorgun og stendur með linnulitlum fundum fram í desember. Ég náði þó að líta aðeins inn í Héraðsdóm í vikunni og fylgjast með stórmerkilegu máli sem Kjarvalsfólkið hefur höfðað gegn Reykjavíkurborg því ágreiningur er um eignarhald á hluta þeirra muna sem borgin tók við hjá Kjarval. Ekki er ljóst hvort þeir munir sem fjarlægðir voru úr vinnustofu hans og settir upp á Korpúlfsstaði voru teknir til geymslu hjá borginni eða eignar og engin gjafabréf eða afsöl eru til sannindamerkis um eignarhald borgarinnar, enn sem komið er.