Stefnuleysisræðan

blog

Þessi grein birtist í Blaðinu 10. október 2006.

Stefnuleysisræðan

Jæja. Jólin að nálgast og við alþingismenn komnir til byggða. Fyrsta vika þings liðin og harður kosningavetur framundan.  Kosningahitann var þó ekki að finna í stefnuræðu forsætisráðherra né umræðum um hana sem voru venju fremur bæði lélegar og leiðinlegar og hefur maður þó ýmsu kynnst. Við hljótum að þurfa að endurskoða þá innrás í kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins sem stefnuræðan er ef hún á að vera svona slöpp. Nú er líka bein útsending frá öllum þingfundum bæði í sjónvarpi og á netinu og þannig hafa allir sem vilja ógrynni af tækifærum til að fylgjast með umræðum og allt aðrar aðstæður en var þegar ákveðið var að leggja tvö sjónvarpskvöld undir Alþingi.

Vandi þingmanna við umræðurnar á þriðjudagskvöld var að stefnuræða forsætisráðherra var, eins og ríkisstjórnin, tíðinda- og innihaldslítil. Nýr forsætisráðherra í sinni fyrstu stefnuræðu hafði engan afdráttarlausan pólitískan boðskap að flytja, enga framtíðarsýn að færa og engar fréttir að segja. Enda lítið að frétta af því sem ekkert er. Stefnuræðan hefur raunar verið trúnaðarmál og dreift þannig til þingmanna eins og frægt er. En í þessari fyrstu stefnuræðu Geirs Haarde var trúnaður óþarfur því þar var ekkert sem vert var að segja frá.

Umræður í vikunni um tekjuskiptingu, efnahagsmál og varnarmál afhjúpuðu líka að stjórnarflokkarnir koma til þings með allt á hælunum. Nýtt fjárlagafrumvarp var kynnt í byrjun vikunnar í prófkjörsbaráttu Árna Mathiesen á Selfossi. Það sýnir að björtustu vonir stjórnarflokkanna um ástandið á næsta ári eru að hér verði áfram bullandi verðbólga og gríðarháir vextir. Þess vegna hafa þeir ákveðið að hætta við framkvæmdastopp sem þeir ákváðu fyrir nokkrum vikum!?!  Það sýnir auðvitað betur en flest annað að þeim er einfaldlega sama um verðbólguna og ofurvextina sem fólk er nú að borga, eða skortir a.m.k. þann vilja og stefnufestu sem til þarf til að koma á stöðugleika. Það þarf þess vegna nýja ríkisstjórn til að gera það.

Ný ríkisstjórn mun ekki síður þurfa að taka á skatta- og bótakerfinu sem notað hefur verið til að auka skipulega á misskiptingu í samfélaginu, þannig að við nú stefnum hraðbyri í átt frá norræna velferðarsamféalginu. Skattbyrðin hefur verið flutt af efnaliðinu á millitekjufólk og verr setta, ekki síst með alls kyns aukasköttum eins og stimpilgjaldi, gjöldum í velferðarkerfinu og menntakerfi og svo tekjutengingunum. Þær hafa ólað fólk svo hraustlega niður í fátæktina að þegar nú ríkisstjórnin hefur misst tökin á verðbólgunni þá hækka innistæður á sparireikningum aldraðra svo eignir þeirra rýrni ekki, en þær vaxtatekjur skerða svo lífeyrisgreiðslurnar til þeirra! Þannig blæða aldraðir fyrir verðbólguóstjórnina. Og það er auðvitað ótrúlegt að smá aukatekjur lífeyrisþega séu skattlagðar um meira en helming meðan braskararnir borga tíu prósent af ofsagróða. Þannig er það venjulegt fólk með meðaltekjur og minni sem standa undir lunganum af skattheimtunni, sem náði nýju Íslandsmeti í fyrra. Og það var lýsandi að ungu sjálfstæðismennirnir sem kjörnir voru á þing út á skattamálin voru hvergi sjáanlegir við umræðuna, enda hefur Heimdallur aldrei haldið skattadaginn seinna á árinu en nú en það er sá dagur sem við erum búin að vinna fyrir sköttunum okkar fyrir árið.  Vonandi tekst okkur þó að píska þá til að lækka loksins matarskattinn, en aftur og aftur hafa þeir fellt það mál frá okkur.

Það var svo viðeigandi að undirstrika enn frekar stefnuleysi og doðann sem einkennir stjórnina með því að forsætisráðherra gerði grein fyrir varnarleysi landsins. Þar hafa þeir hrakist undan og meira að segja atað hendur okkar blóði til að reyna að fá að halda einhverjum her, en fá svo ekki að halda öðru en menguninni. Ætli Íraksmálið, innistæðulausar hótanir um uppsögn varnarsamningsins og þessi lélegasti viðskilnaðarsamningur sem hugsast gat séu ekki skýrustu dæmin um nauðsyn þess að skipta um forystu fyrir landinu.