Friðum miðhálendið – nýjar lausnir í umhverfismálum

blog

Svona vil ég hefjast handa við að hrinda í framkvæmd nýrri umhverfisstefnu Samfylkingarinnar – Fagra Ísland:

1. Friðun miðhálendisins. Núverandi ríkisstjórn nálgast umhverfismál þannig að hún bútar landið niður í parta. Svo er ákveðið hvort spilla eigi einu svæði í einu eða ekki. Þetta er röng nálgun  og í andstöðu við þá ábyrgð sem við berum gagnvart umheiminum og framtíðinni. Ég hef alla tíð unnið gegn Kárahnjúkavirkjun og vil að miðhálendið verði friðað í heild sinni. Þannig sláum við virkjanakosti í Skagafirði, Skjálfanda, á Landmannalaugasvæðinu, í Kerlingarfjöllum og Langasjó út af teikniborðinu á einu bretti.

2. Mengunarkvótar. Það er frumskilyrði að Íslendingar haldi sig innan marka Kyoto-samkomulagsins í mengunarmálum. Við eigum að hætta að gefa mengunarkvótana. Þess í stað á að láta þann sem mengar borga fyrir kostnað umhverfisins af starfseminni.  Mengunarskattar hvetja atvinnulífið til að leita nýrra, umhverfisvænna lausna.

3. Bestu fréttirnar í umhverfismálum landsins undanfarin ár er frumkvæði Íslendinga í vetnisvæðingu. Reykjavíkurlistinn reið á vaðið með vetnisknúnum strætisvögnum en vetnisvæðingin hefur aðeins fengið hálfvolgan stuðning frá ríkinu þrátt fyrir eldmóð manna eins og Hjálmars Árnasonar. Þessu þarf að breyta. Ég vil setja vetnisvæðinguna og aðrar aðgerðir til þess að þróa nýja orkugjafa í forgang. Íslendingar eru forystuþjóð í nýtingu jarðhita. Við eigum að setja meira fé í djúpboranir á háhitasvæðum og þróa nýjar lausnir. Mikilvægasta framlag okkar til umhverfismála heimsins er að virkja íslenskt hugvit til útrásar í orkugeiranum.