Þessi grein birtist í Blaðinu í vikunni:
Fullkomin falleinkunn
Þegar félagi minn, Rannveig Guðmundsdóttir, var félagsmálaráðherra fyrir tólf árum síðan kynnti hún ítarlega úttekt á launamisrétti kynjanna. Svo tók við ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Nú í vikunni kynnti félagsmálaráðherra árangur síðustu tólf ára með niðurstöðum sams konar könnunar og gerð var fyrir tólf árum. Og árangurinn er nákvæmlega enginn. Launamisrétti kynjanna er nákvæmlega jafn slæmt og þegar þessir flokkar tóku við. Og það er einfaldlega fullkomin falleinkunn í stærsta mannréttindamáli samtímans að ná engum árangri á tólf árum.
Það er kannski til marks um almenna uppgjöf að það var víðast ekki nema fjórða eða fimmta frétt að enn séu daglega mannréttindi brotin á öðrum hverjum Íslendingi og það í jafn miklum mæli og fyrir áratug síðan. Það er líka merkilegt að okkur blöskrar þetta svo að við reynum að tala allar stærðir niður. Þannig er sagt að óútskýrður launamunur þýði að konur hafi 16% lægri laun, en ekki að við karlar höfum 20% hærri. Það er líka sagt að í heildina hafi konur þriðjungi lægri laun, í stað þess að segja eins og er að við strákarnir erum með helmingi hærra kaup.
Aukaverkefni
Nú ber ríkisstjórnin ekki ein ábyrgð á þessum víðtæku mannréttindabrotum á konum. Það gerum við öll. Og ríkisvaldið mun ekki eitt og sér leysa launamisréttið. Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum til þess. En ríkisstjórnin hefur forystu fyrir landinu og á að leiða baráttuna gegn launamisréttinu. Það á að gera kröfu um að forysta í baráttunni gegn launamisrétti sé forgangsmál ríkisstjórnarinnar og það er hægt að gera kröfu til þess að á tólf árum miði eitthvað áleiðis. Hvorugu er til að dreifa.
Það var þó lofsvert þegar ríkisstjórnin innleiddi í þverpólitískri samstöðu ný lög um fæðingarorlof. Að örðu leyti hefur launamisréttið verið einhvers konar aukaverkefni, falið einu fagráðuneytanna og enginn árangur næst. Þau verkefni sem tekin eru alvarlega, þeim er sinnt af ríkisstjórninni sjálfri og gjarnan stýrt úr forsætisráðuneytinu. Þetta sjáum við t.d. þegar kemur að varnarviðræðum við Bandaríkin. Við sjáum þetta líka í ráðherranefnd um einkavæðingu, því einkavæðingin skiptir svo miklu máli að hópur ráðherra stýrði henni. Upplýsingatækninni var líka sinnt þvert á ráðuneyti og „Einfaldara Ísland“ er enn eitt af verkefnum forsætisráðherra. Af þessu sést að það eru einfaldlega önnur verkefni sem hafa forgang hjá ríkisstjórninni en glíman við launamisrétti kynja.
Þegar ríkisstjórnin ætlar sér eitthvað raunverulega, eins og að virkja, þá er ómælt fé sett í rannsóknir, sérfræðiaðstoð, áætlanagerð og loks framkvæmd. Enda rísa virkjanirnar. Engin slík alvara er í áætlunum og framkvæmd í jafnréttismálum.
Nýir vendir sópa best
Við í Samfylkingunni höfum með félögum okkar í stjórnarandstöðunni lagt fram tillögur um aðgerðir í þessum efnum. Þær snúa bæði að launaleyndinni og heimildum Jafnréttisráðs. Áður hefur Samfylkingin lagt til að jafnréttismálin verði gerð að ábyrgð forsætisráðherra, svo aðeins séu nefnd nokkur dæmi um það sem hægt er að gera. Og mergurinn málsins er sá að ríkisstjórnin er einfaldlega ekki að gera allt sem hægt er í málinu. Hennar tólf ár hafa engu skilað okkur og tími er til kominn að fela þeim forystuna sem vilja grípa til róttækra aðgerða. Og við kunnum til verka. Undir forystu Ingibjargar Sólrúnar gerði Reykjavíkurlistinn jafnréttismál að forgangsmáli og ábyrgð borgarstjóra. Og með áætlunum og stefnu í kjarasamningum náðist umtalsverður árangur í að minnka launamun hjá borginni. Slíka forystu þurfum við nú fyrir landinu.