Kosningaskrifstofan opnuð

blog

það var eitthvað ólag á hljóðblogginu um helgina svo færslurnar fóru ekki inn, en í gær tókum við á móti á þriðja hundrað manns í kaffi og vöfflur í kosningamiðstöðinni í Landsímahúsinu. Fréttastofa Stöðvar tvö sýndi frá því um kvöldið þegar Þórhildur var á sunnudagsmorgninum að taka niður myndina af Sigríði Andersen en setja upp mynd af mér. Það var góður andi við opnunina, Við Jón Baldvin fluttum ræður, Margrét Pálma kom með frábærar stelpur úr stúlknakór Reykjavíkur og Helga Arnalds var með leikhús fyrir börnin. Þarna hafa baráttur Hönnu Birnu, Guðfinnu og Sigríðar verið háðar í ár og við fengum lánað ýmislegt frá Sigríð og hennar fólki svo af opnuninni gæti orðið.

Um kvöldið var ég svo að fylgjast með hvernig vinkonu minni Helgu Völu gengi í prófkjörinu í NV kjördæmi. Hún var að flakka milli þriðja og fimmta sætis og endaði í því síðarnefnda sem verður að teljast frábær árangur fyrir nýliða í pólitík nýfluttan í kjördæmið enda er mikið í Helgu spunnið. Auðvitað eru margir þarna vinir manns og kunningjar og alltaf svolítið flókið í þessum prófkjörum að um leið og maður gleðst yfir velgengni sumra þeirra er hún um leið á kostnað annarra. Sigurvegarar prófkjörsins voru Guðbjartur og ekki síður séra Karl sem rís á ný eftir ósigur í síðasta prófkjöri mörgum vinum hans til óblandinnar ánægju. Eftir situr samþingkona mín Anna Kristín Gunnarsdóttir sæti neðar en síðast og hugsanlega ekki í þingsæti, því við höfum bara átt tvo menn þarna.
Óneitanlega finnst manni það skrýtið að eina konan í tíu þingmanna hópi skuli ekki hljóta betri kosningu. En kynjasjónarmið virðast ekki vera mjög sterk í þessu kjördæmi. Þannig finnst Sjálfstæðisflokknum það svo lítið mál að þarna sé engin kona hjá þeim og aðeins ein fyrir allt kjördæmið að þeir ákváðu bara að stilla upp! Og það væntanlega fjórum körlum í fjögur efstu sætin. Við eigum margar sjómílur í land í jafnréttismálum, en í þingflokki Samfylkingarinnar höfum við borið gæfu til jafnræðis milli kynja sem ég vona að við höldum.