Vorboði að vestan

blog

Það er ánægjulegt að sjá þau straumhvörf sem virðast í bandarískum stjórnmálum. Sigur demókrata og afsögn Rumsfeld eru vonandi bara byrjunin á breytingaskeiði vestra. Það eru mikilvægar breytingar fyrir okkur öll. Öfgaöflin í Hvíta húsinu hafa einfaldlega ógnað stöðugleika í heiminum og aukið á sundrung.

Hér á Íslandi hljótum við að taka þessu sem vorboða – fyrirboða um að taglhnýtingar Bush stjórnarinnar, ríkisstjórn Íslands, verði felld og nýjir vendir fengnir til að sópa stjórnarráðið. Fyrsta verkefni þeirrar ríkisstjórnar hlýtur einmitt að verða að afturkalla stuðning Íslands við innrásina í Írak og þvo þannig hendur Íslands af því stríði. Leiðir á sjálfum sér Ríkisstjórnin verður fallinu fegin því enginn er eins leiður á henni og hún sjálf. Enda stekkur hver ráðherrann af öðrum til annarra starfa.

Þær breytingar eru lýsandi fyrir stærsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar sem er óstöðugleikinn. Undir lok síðustu aldar vöknuðu vonir okkar um að við hefðum sigrast á helsta vandamáli okkar sem voru stöðugar sveiflur. Fyrirtæki og fólk mátti búa við á víxl mikla þenslu og vöxt og snöggan samdrátt, eins og svolítill efnahagsrússíbani. Í slíku samfélagi er erfitt að gera áætlanir og halda uppi aga. Verðbólgan sem þessu fylgdi og sveiflurnar í vaxtastigi orsökuðu enda hverja kollsteypuna á fætur annarri.

 Það kostaði gríðarlegt átak að skapa stöðugleikann, mikla samstöðu og fórnir hjá mörgum. En þessi ríkisstjórn er orðinn svo þreklaus að hún hefur misst okkur aftur í óstöðugleikann. Þess vegna er stærsta verkefni okkar að fela nýrri stjórn að endurheimta stöðugleikann og leggja drög að því að kveðja krónuna, en skapa heimilum og fyrirtækjum sama stöðugleika, verðbólgu og vaxtaumhverfi og er í löndunum í kringum okkur. Að hella áli á eld Allir sjá að hluti af ógninni við stöðugleikann hefur verið sú stefna ríkisstjórnarinnar að færa okkur nær bandarískri tekjuskiptingu í anda Bush og félaga. Svo ótrúlegt er skatta- og bótakerfi okkar orðið að í stað þess að þeir sem mestar tekjur hafi greiði hæsta hlutfallið þá er það öfugt.

Millitekjufólk hefur tekið þungann af aukinni skattbyrði, en lífeyrisþegar og láglaunafólk greiðir ofurskatta vegna tekjutenginga í kerfinu. Það þarf nýtt fólk til að skera upp þetta kerfi og einfalda til muna. Nýrrar stjórnar bíður það m.a. að hætta að tengja bætur við tekjur maka, en líta á hverja manneskju sem sjálfstæðan einstakling. Það vinnur gegn launamisrétti kynja því það bitnar mest á konum og um leið og við einföldum kerfið gefst tækifæri til að aflétta launaleyndinni til að vinna á enn einu verkefninu sem ríkisstjórnin hefur sannanlega engum árangri náð í sem er launamisrétti kynjanna. En þótt framfaraverkefni sem ríkisstjórnin hefur ekki þrek í blasi við um allt er hún þó dugleg við eitt, að hella áli á eld og ofþenja hagkerfið og samfélagið í þágu þungaiðnaðar. Og að þessu leyti verður það verkefnið næsta vor að draga að sér hendurnar. Leyfa íslensku atvinnulífi að vera í friði fyrir stjórnmálamönnum með stórar verksmiðjur, en leggja áherslu á að efla menntun og aftur menntun. Þessi leiðangur hefst á morgun með prófkjöri Samfylkingarinnar.

Birtist einnig sem grein í Blaðinu í dag.