Þó ég hafi verið mjög ánægður með árangurinn í prófkjöri Samfylkingarinnar um helgina þá er hástökkvari í prófkjörum helgarinnar þó Árni Johnsen. Innkoma hans hefur líka verið mjög umtöluð og sýnist sitt hverjum.
Augljóst er að Árni hefur notið talsverðs persónufylgis en jafn ljóst að úrslitum hefur ráðið um kjör hans stuðningur formanns Sjálfstæðisflokksins, Geirs H. Haarde. Þeir Geir og Árni eru sem kunnugt er nánir vinir og samstarfsmenn til margra ára, ef ekki áratuga, og Geir söng m.a. á hljómplötu Árna eins og heyra má hér á síðunni (með góðfúslegu leyfi Árna Johnsen). Þá annaðist Geir um uppreisn æru Árna sem handhafi forsetavalds í fjarveru forseta Íslands. Til þess að ná eins afgerandi kosningu og Árni Johnsen hlaut í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi vita allir sem eldri eru en tvævetur í stjórnmálum að nauðsynlegt er að njóta stuðnings forystu flokksins. Enda var hann eindreginn og afdráttarlaus í yfirlýsingum Geirs og félaga í gær. Bráðum getur Geir sett sinn mann aftur í fjárlaganefndina og þá fá allir hangikjöt og konfekt.