Fátækt barna

blog

Um helgina fékk ég loks skýrslu forsætisráðherra sem við óskuðum eftir, nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, fyrir nær tveimur árum síðan eða 4. apríl 2005. Það kom mér á óvart þegar ég grennslaðist fyrst fyrir um málið að þessar upplýsingar lægju ekki á lausu því OECD hefur mælikvarða um fátækt barna og Evrópusambandið líka. Við mælum þau viðfangsefni sem við höfum áhuga á en einu tölurnar sem ég fann um efnið voru úr skýrslu Stefáns Ólafssonar frá því á síðasta áratug. Vonandi verður skýrslubeiðni okkar til þess að hér eftir verði fátækt barna mæld reglulega og með henni fylgst.

Skýrslan var tilbúin sl. vor en þá var ákveðið í forsætisráðuneytinu að stinga henni undir stól. Við lögðum svo beiðnina fram í þriðja sinn á þessu þingi og fengum skýrsluna ekki í hendur fyrr en síðasta dag þingsins en þá týnast nú mörg athyglisverð mál í flóðinu.

Skýrsluhöfundar leitast við að draga úr vandanum og af lestri hennar mætti ráða að hér væri allt með ágætum. En þegar rýnt er í samanburð við hin Norðurlöndin kemur í ljós hve miklu algengari fátækt er hér en þar. Athylgisverðast er þó að bera skýrslubeiðni okkar saman við skýrsluna því í henni eru fjölmargar spurningar sniðgengnar. Sumar kannski vegna skorts á göngum eða rannsóknum, einsog um hlutfall barna innflytjenda í þessum hópi eða menntun foreldra. Sama kann að eiga við um dreifingu um landið og eru þetta þó allt upplýsingar sem afla hefði mátt á tveimur árum tæpum. En beinni spurningu um samanburð við Norðurlönd er ekki svarað vegna þess að forsætisráðherra veit að það er mjög óhagstæður samanburður. Spurningum um fjárhagsstuðning við barnafólk er ekki svarað af sömu ástæðu, þeirri að forsætisráðherra veit að hann er hér mun minni en í nágrannalöndunum og það skýrir að stórum hluta fátækt barna á íslandi, hún er einfaldlega afleiðing af rangri pólitískri forgangsröð. Þó má lesa með talsverðri fyrirhöfn óbein svör við þessu úr töflu yfir alþjóðlegan samanburð. Auk þess er spurningum um áhrif fátæktar á heilsu, tómstundaiðkun og íþróttastarf ósvarað, einsog mörgu öðru.

Óskandi er að skýrslan verði til þess að fleiri leiti svara og reyni að greina hag barna á Íslandi frekar. En svör Geirs Haarde við spurningum sem fyrir hann eru lagðar getur hver dæmt fyrir sig með því að lesa skýrslubeiðnina sem hér fylgir og svo skýrsluna sjálfa. Þannig væri t.d. athyglisvert að sjá hver staða okkar er í þessum efnum miðað við skilgreiningu ESB. Það er þó ekki aðalatriðið, heldur hitt að auka fjárhagsstuðning við fátækar barnafjölskyldur á Íslandi.
Við getum fækkað fátækum börnum á Íslandi um a.m.k. 2000. Við sjáum það um aldamót var hlutfall fátækra barna á hinum Norðurlöndunum frá 2,4%-3,6%. Í okkar litla samfélagi þar sem við höfum betri yfirsýn og búum við sterkan efnahag getum við gert betur en þau eða a.m.k. jafn vel. Það gerum við einfaldlega með því að beita pólitískri forgangsröðun í sköttum og bótum þannig að hún þjóni frekar því markmiði að fækka fátækum börnum en létta byrði þeirra sem best hafa það.

Hér má sjá skýrsluna sjálfa (PDF form)
Hér má sjá upphaflegu beiðnina