Enginn Reykvíkingur í Sjálfstæðisflokknum?

blog

Það er rétt svo að maður fylgist með pólitíkinni með öðru auganu heima í fæðingarorlofi. En út um það sá ég í vikunni Sturlu Böðvarsson, sverð Sjálfstæðisflokksins sóma og skjöld í samgöngumálum, kynna framtíðaráætlanir sínar. Ekki hélt ég að fyrir okkur Reykvíkinga gæti vont versnað í þeim efnum, enda erum við vondu vön af samgönguráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Þeir láta okkur greiða langstærsta hluta bensíngjaldanna en verja aðeins einum þriðja þeirra til samgöngubóta hjá okkur. Í nýrri samgönguáætlun versnar þetta enn og er engu líkara en að í þingflokki Sjálfstæðismanna sé enginn Reykvíkingur svo algjörlega eru verkefnin hér hundsuð.

       
Yfirbyggðar kappakstursbrautir

Sem kunnugt er hefur mikill áhugi verið í tíð þessarar ríkisstjórnar á jarðgangagerð milli fáfarinna staða. Svo fáfarinna raunar að fréttir herma að þau nýjustu séu notuð til kappakstursæfinga, enda ótrúleg framför á snjóþungum svæðum að fá yfirbyggðar kappakstursbrautir með þessum hætti án nokkurs tilkostnaðar. Á þessum sama tíma er þessi sami Sjálfstæðisflokkur að leggja fram áætlun sem á kjörtímabili borgarstjórnar  gerir ekki ráð fyrir göngum við Mýrargötu og á Miklubraut, fjölförnum þjóðleiðum sem vegna byggðaþróunar þurfa að grafast í jörð að hluta. Hún gerir alls ekki ráð fyrir Öskuhlíðargöngum eða Kópavogsgöngum til að auðvelda samgöngur milli miðborgarinnar og Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar þó þar á milli séu farnar tugþúsundir ferða daglega. Hún gerir aðeins ráð fyrir hálfum mislægum gatnamótum á Miklubraut og Kringlumýrarbraut, hvernig sem það nú er hægt. Hins vegar fullri kostun mislægra gatnamóta í Elliðaárdal sem borgaryfirvöld hafa hafnað! Þá hefur flokkurinn eftir 16 ára samfellda setu í samgönguráðuneytinu ekki enn gert upp við sig hvaða leið eigi að fara með Sundabraut og hefur aðeins fundið fjármagn fyrir henni hálfa leið. Að Sundabrautin verði aðeins lögð hálfa leið fyrst um sinn hefur valdið íbúum Grafarvogs verulegum áhyggjum því þannig mun umferð til og frá borginni að verulegum hluta fara um hverfið. Er nema von að sagt sé að Reykvíkingar eigi enga stjórnarþingmenn? Og augljóslega er orðið brýnt hagsmunamál vegfarenda í Reykjavík að skipta um samgönguyfirvöld.

Almenningssamgöngur og loftslagsmál

Eitt síðasta verkið mitt á þinginu áður en ég fór  aftur í fæðingarorlof var að innan umhverfisráðherra eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Því miður var hún ekki tilbúin en hefur nú litið dagsins ljós með markmiði um helmings samdrátt loftmengunar á næstu 43 árum. Það er útaf fyrir sig lofsvert en ég spurði ráðherrann um afstöðu ríkisstjórnarinnar til yfirlýsinga Evrópusambandsins sem snúa að því að minnka mengun mun fyrr. Þar hafa menn sagt að þeir séu tilbúnir í 20% samdrátt innan 13 ára og 30% ef önnur iðnríki eru tilbúin til hins sama. Og eðlilegt er að spurt sé hvort við séum tilbúin í það. Og þá hvernig stjórnvöld hyggist gera það því aðgerðir ríkisstjórnarinnar virðast flestar vera í allt aðra átt eins og stóriðjupólitíkin, ofurgjöldin á díselolíu og tollaafslættir fyrir mest mengandi bílana eru allt dæmi um.

Og þegar við erum að ræða um samgönguáætlun sömu dagana er umhugsunarefni að í henni ætlum við að verja nærri 400 þúsund milljónum króna án þess að vart sé nokkurrar áherslu á almenningssamgöngur. Áhugi ríkisins á almenningssamgöngum hefur aðallega falist í að leggja skatta og gjöld á þær. Strætó borgar 300 milljónir í ár fyrir að fá að veita almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu! Og þó almenningssamgöngur verði aldrei nema lítill hluti lausnarinnar þá er hægt að efla þær. Það sýnir nýji meirihlutinn á Akureyri t.d. með því að hafa frítt í strætó og fjölga farþegum um helming með litlum tilkostnaði.

Grein þessi birtist í Blaðinu 17.02.2007.