Það er skemmtilega lýsandi um hve miklir umhverfissóðar við Íslendingar erum að við höfum sama orð um kjána og umhverfisverndarmann: græningi. Þó brá mörgum í brún að sjá loftmengun hér borna saman við það sem gerist á meginlandi Evrópu í iðnaðarhaugnum sjálfum. Tala nú ekki um þegar við erum jafn rík af tuttugu metrum á sekúndu og raun ber vitni. En það er ekki alltaf rok og æ oftar er loftmengun hér yfir heilsuverndarmörkum með alvarlegum afleiðingum, ekki síst fyrir börn og ungmenni.
Samt höfum við lítið sem ekkert hafst að. Í raun hafa flestir ekki fyrr en síðustu ár áttað sig á því hve alvarleg mengunin er og eitthvað eru göturnar vonandi bleyttar meira en áður var. En við höfum frekar horft á mengunina en að grípa til áhrifaríkustu aðgerðanna sem er að hreyfa við nagladekkjunum. Það er nefnilega, þrátt fyrir vitneskju okkar um mengunina og afleiðingar hennar, ennþá ókeypis að menga með nagladekkjum og öllum frjálst. Þó vitum við að fyrir aldamótin ákváðu þeir í Osló að setja mengunarskatt á naglana og minnkuðu mengun í borginni mælanlega með því einu. En þó margt sé dýrara á Íslandi en annars staðar er þó oftast ókeypis að menga.
Loftmengun með tollafsláttum
Það er oft áhugavert að fylgjast með umræðum okkar um loftmengun. Við erum þannig oft ákaflega áhugasöm um nýja tækni í bílaiðnaði. Einhverja nýja tækni sem ef til vill og kannski geta orðið til þess að draga úr mengun eftir þrjátíu ár en þangað til munum við menga heiminn jafn mikið eða meira og síðustu tvær aldir. Við höfum hins vegar engan áhuga á því sem hægt er að gera til að draga úr mengun bifreiða núna. Þannig hafa stjórnvöld beinlínis lækkað álögur á eyðslufreka bíla frá því sem áður var, enda á að vera ókeypis að menga. Af mjög eyðslufrekum bílum eru svo veittir sérstakir tollaafslættir í nafni landbúnaðar. Síðasta aðgerð ríkisstjórnarinnar til að minnka mengun bílaflotans voru breytingar á olíugjaldi til að hvetja fólk til að skipta úr bensínbílum yfir í dýrari en umhverfisvænni díselbíla. Það er gert með því að láta díselolíuna vera dýrari en bensínið!
En þetta eru auðvitað smámunir hjá mengandi stóriðju. Einhvern veginn höfum við haft þetta tuttugu metra á sekúndu viðhorf til hennar og látið okkur loftmengun í léttu rúmi liggja enda blási það allt burt. En nú þegar við erum orðin einhver stærsti málmbræðir heims dugir það viðhorf ekki lengur. Við þurfum einfaldlega að hafa raunverulegar áhyggjur af mengun stóriðjunnar og taka þá afstöðu að það sé ekki æskilegt að menga og spilla meiru ókeypis í hennar þágu. Já ókeypis, því alla þá mengun og náttúrufórnir sem þessu hafa fylgt hafa verið ókeypis.
Slegist um ókeypis mengun
Nú höfum við bætt um betur með því að fá sérstök heimildarákvæði til að menga um 1,6 milljón tonna meira árlega en ella og sú mengunarheimild veldur því að helstu álfyrirtæki heims slást um að fá að stækka, byggja við og byggja nýjar mengandi bræðslur því það er ókeypis. Við setjum verðmiða á það sem máli skiptir og í því kerfi okkar skipta náttúrugæði ekki máli því þeim fórnum við fyrir ekki neitt. Það er umhugsunarvert verðmætamat sem minnir á frumbyggja.
Vont en það versnar. Því nú hefur umhverfisráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp um að þegar við verðum búin að gefa alþjóðafyrirtækjunum leyfin til að auka mengun á Íslandi þá geti þau keypt sér mengun í útlöndum, eða skógrækt og mengað í krafti þess enn meir á Íslandi. Ætli það verði ekki bæði tollfrjálst og skattfrjálst að flytja inn erlenda mengun? Hvað sem því líður hvet ég alla til að koma á morgun klukkan tvö í Háskólabíó og sjá í boði okkar í Samfylkingunni brýna heimildarmynd Al Gore um stærsta viðfangsefni samtímans loftslagsmálin. Ókeypis.
(Þessi pistill birtist í Blaðinu 03. mars 2007)