Til hamingju Hafnarfjörður

blog

Í Garðabæ dettur engum í hug að leyfa byggingu álvers í bænum. Álver í Garðabæ hljómar jafnvel skemmtilega fjarstæðukennt. Þar hvarflar auðvitað ekki að nokkrum manni slík áhersla í atvinnuuppbyggingu og óhugsandi er að íbúarnir þar myndu samþykkja að færa þær fórnir í umhverfi, ímynd og loftgæðum sem slíkri starfsemi fylgir. Svona stóriðja er jú jafnan byggð upp á láglaunasvæðum þróunarlandanna og í iðnríkjunum á svæðum sem lengi hafa átt í erfiðleikum og glímt við atvinnuleysi eða fólksflótta. Á slíkum stöðum er fólk nefnilega tilbúið að færa fórnir fyrir verksmiðjustörf.

Hafnarfjörður er athyglisverð undantekning frá meginreglunni en þar er verksmiðja frá gamalli tíð sem vill gott betur en tvöfalda sig. Auðvitað orkar það tvímælis í nútímasamfélagi og hefur bæjarstjórnin undir forystu Samfylkingarinnar brugðið á það ráð að láta bæjarbúa sjálfa ákveða í atkvæðagreiðslu í dag hvort leyfa skuli stækkun. Það er óvenjulegt að almenningi sé með þessum hætti leyft að ráða úrslitum stórra mála og full ástæða til að óska Hafnfirðingum til hamingju með þetta tækifæri til að ráða sjálfir þróun bæjarins. Þetta er spennandi tilraun í þróun lýðræðis og gaman að sjá hinn mikla áhuga sem á kosningunni er.

Austur og öfgar

Eins og í öðrum kosningum eru engar skorður settar við auglýsingum. Óhóflegur og einhliða fjáraustur í áróður sýnir að í framtíðinni þarf að setja aðilum mörk því menn kunna sér ekki hóf. En fjáraustur getur auðvitað slegið í báðar áttir og óhóf í auglýsingum getur skerpt andstöðu.

Sama máli gegnir um öfgarnar á báða bóga, þær eru sjaldnast málstaðnum til framdráttar. Þannig var eðlilegt fyrir andstæðingana að afsaka ómálefnalega auglýsingu um hræðilega mengun því þó mengun frá álverum sé mikil er hún langt undir heilsuverndarmörkum. Með svipuðum hætti hefur verið leiðinlegt að fylgjast með hræðsluáróðri um lokun og að sjá starfsmönnum og atvinnu þeirra beitt fyrir vagninn með myndbirtingum o.fl. Og þó vita allir að álfyrirtæki slást um að fá að byggja hér verksmiðju af þeirri stærð sem er í Straumsvík núna. Hún er því ekki að fara að loka, hvernig sem atkvæðagreiðslan fer.

Hræðsluáróður á báða bóga lýsir auðvitað helst vantrausti á kjósendum. Auðvitað vita Hafnfirðingar að bæði eru kostir og gallar við stækkunina. Þeir vita að verksmiðjan skapar störf en fælir frá önnur. Að hún mengar en borgar í bæjarsjóð. Að hún eykur verðbólgu og hækkar vexti en eykur hagvöxt. Og það eru engir betur til þess fallnir en bæjarbúar sjálfir að meta þessa kosti og galla, þó kommúnistar kunni að vera annarrar skoðunar.

Davíð í Samfylkinguna

Ekki er líklegt að ráðist verði í nema eitt verkefni í stóriðju. Jafnvel Seðlabankastjóri er genginn til liðs við Samfylkinguna og segir það óráðlegt. Kyoto leyfir heldur ekki nema eitt verkefni. Ef umhverfismál og efnahagsástand leyfa að ráðist verði í þessa einu stóriðjuframkvæmd þarf að liggja fyrir hverjir vilja svona starfsemi. Þær raddir hafa heyrst að um stækkun í Straumsvík ættu fleiri en Hafnfirðingar að mega kjósa en það er misskilningur því við kjósum um umhverfis- og atvinnustefnuna í alþingiskosningum í maí.

Hvort Hafnfirðingar vilja fyrir sitt leyti leyfa stækkun í Straumsvík er alfarið bæjarmál, því það snýst um bæjarbraginn og sjálfsmynd bæjarbúa. Þó að á mörgum öðrum svæðum suðvestanlands leggi menn áherslu á þjónustu og þekkingarstörf þá er það algjörlega mál Hafnfirðinga ef þeir vilja leggja áhersluna á þungaiðnað. Það val þeirra hlýtur fyrst og fremst að ráðast af trú á eigin getu og möguleikum Hafnarfjarðar í framtíðinni og það mat leggja þeir sjálfir. Og þó lýðræðið sé flókið, seinvirkt, erfitt og dýrt er engin betri leið til að ráða úrslitum mála.