Iðrandi syndarar

blog

Það hefur verið skemmtilegt í vikunni að fylgjast með forystumönnum stjórnarflokkanna koma fram eins og iðrandi syndarar fyrir alþjóð. Nú mánuði fyrir kosningar sér Framsóknarflokkurinn allt í einu tækifæri á að lofa til hægri og vinstri allskyns úrbótarmálum sem hann þó hefur í engu sinnt s.l. 12 ár. Stærsti kosturinn er þó sá að hin gríðarlegu loforð um framkvæmdir og fjármagn eiga varla að kosta neitt. Eins og kjósendur þekkja hefur þessu verið alveg öfugt farið s.l. 12 ár því allan þann tíma hafa þeir talið allt of dýrt að gera hið góða sem þeir boða nú. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sjáum við svo Geir Haarde sem ætlar að fara að draga úr tekjutengingum hjá öldruðum. Þessi sami landsfundur hefur þó aftur og aftur samþykkt algjört afnám tekjutenginga en í verki hafa lífeyrisþegar aldrei verið eins þétt reyrðir í fjötra þeirra. Aldrei áður hafa þessum sömu lífeyrisþegum verið sendir aðrir eins bakreikningar sem fylgt er eftir af fullri hörku.

 

Það er þó eitthvað kunnulegt við þessa sviðsmynd. Var það ekki einmitt fyrir fjórum árum, á sama tíma árs, að sömu flokkarnir héldu blaðamannafund í Þjóðmenningarhúsinu um stórkostlegar kjarabætur fyrir öryrkja sem voru síðan sviknir strax um haustið? Og var það ekki þá sem það átti að gera svo mikið fyrir gamla fólkið? En eru ekki enn þá 400 manns á biðlistum í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými? Eru ekki ennþá 1.000 manns sem þurfa að deila herbergi með öðrum og hefur ekki þróun skattkerfisins orðið til þess að tekjulægsti hópur aldraðra er farinn að borga umtalsverða skatta?

 

Græni leikþátturinn

 

Auðvitað er ekkert að marka þetta kosningaleikrit. Það sýnir þó að stjórnarflokkarnir vita upp á sig skömmina og að það er vilji til þess hjá almenningi að nota hluta af tekjuaukningu okkar til þess að bæta velferðarkerfið. Til þess að bæta það sýnir sagan okkur að ríkisstjórnir Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks duga skammt því það þarf jafnaðarmenn til þeirra verka.

 

Stjórnarflokkunum hefur hins vegar verið lagið að efla stóriðju í landinu sem leitt hefur til atvinnu- og tekjuaukningar sem ekki ber að vanmeta. Í þeirri uppbyggingu hafa þeir þó farið offari, gengið of nærri náttúrunni og efnahagslífinu. Hluti kosningaleikritsins að þessu sinni er því sá að þeir reyna nú að sveipa sig grænni hulu. Þó kemur skýrt fram hjá bæði Geir og Jóni að þeir vilja ráðast í öll þau stóriðjuverkefni sem kostur er á og eru hundfúlir yfir því að Hafnfirðingar skyldu hafna Straumsvík. Það er auðvitað ekkert gagn af grænu tali ef hér á að halda áfram í stórfelldum umhverfisfórnum og mengandi stóriðju á fullri ferð.

 

Efnahagsundrið

 

Lokaþátturinn í kosningaleikriti stjórnarflokkanna er svo jafnan hræðsluáróður um að aðeins þeim sé treystandi fyrir atvinnu- og efhagsmálum. Nú ber hins vegar svo við að stöðugleikinn er með öllu horfinn, verðbólga er hér mun meiri en í nágrannalöndum okkar og vextir hæstir í heimi. Svo illa hafa þeir misst tökin á þenslunni að forystumenn í atvinnulífinu hafa sagt að engar fjárfestingar standi undir þeim háu vöxtum sem nú eru. Ítrekaðar aðfinnslur um stjórn ríkisfjármála hafa borist frá innlendum og erlendum greiningarstofnunum. Aukin hætta er talin á harðri lendingu og ótryggt efnahagsástand á Íslandi er orðið útrásarfyrirtækjum til trafala. Í stað þeirrar farsælu opnunar viðskiptalífsins sem jafnaðarmenn höfðu forystu um með EES samningnum eru stjórnvöld nú farin að setja skorður við frelsi fyrirtækja til að gera upp í erlendri mynt. Við þær aðstæður skortir augljóslega mjög á trúverðugleika stjórnarflokkanna í efnahagsmálum. Vanrækslusyndir þeirra eru ágætlega raktar í yfirgripsmikilli efnahagsstefnu sem Samfylkingin kynnti í vikunni. Augljóslega er tími til kominn að gefa þessum ágætu flokkum frí því að halda aftur að þenslunni, friða helstu náttúruperlur okkar og efla velferðarkerfið eru allt verkefni sem best eru komin með forystu jafnaðarmanna.

Pistillinn birtist í Blaðinu 14. apr. 2007