Stjórnmál og viðskipti

blog

atburðir undanfarinna vikna í orkuiðnaðinum á íslandi sýna okkur enn einu sinni fram á það sem eru að verða viðtekin sannindi, að stjórnmál og viðskipti eiga ámóta vel saman og olía og eldur. gagnast vel ef brenna á eitthvað til grunna, en síður til uppbyggingar. fall hins ólánlega borgarstjórnarflokks sjálfstæðisflokksins er gott dæmi um það.

en hverju sætir þetta? á síðustu öld drottnuðu stjórnmálin yfir viðskiptunum, réðu því hverjir fengu landsfé, leyfi til starfsemi og réðu öllu öðru sem máli skipti.  en á nýrri öld unum við einfaldlega ekki samkrulli stjórnmála og viðskipta. sem betur fer.

menntaskólafrjálshyggja

þessari viðhorfsbreytingu ræður ekki menntaskólafrjálshyggja eins og einkennir þá sem til voru í allt með eða án villa. það er trúaratriði hjá fáum að hið opinbera geti ekki staðið fyrir atvinnustarfsemi. þannig getur hið opinbera rekið orkuiðnaðinn eða falið það einkaaðilum og hið sama gildir um margar aðrar greinar í samfélaginu. en á hinu fer illa að hið opinbera og einkaaðilar starfi á sama markaði. það skapar viðvarandi átök, deilur um jafnræði, samkeppnisstöðu o.s.frv.

enn verr virðist gefast að blanda eignarhaldi opinberra aðila og einkaaðila í fyrirtækjum, eins og dæmið um reykjavík energy invest sýnir. ástæðan er augljós, það eru einfaldlega allt aðrar kröfur gerðar til hins opinbera en einkafyrirtækja og því hætt við að sameiginlegt eignarhald gangi illa. þannig þarf í viðskiptum að taka skjótar ákvarðanir, meðan hið opinbera á að leggja áherslu á vandaða málsmeðferð og ítarlega umræðu. í viðskiptum er leynd stundum nauðsynleg, meðan hið opinbera þarf að leggja áherslu á gagnsæi og hefur upplýsingaskyldu. í viðskiptum þarf að ívilna viðskiptavinum og starfsmönnum, meðan jafnræðis er krafist af hinu opinbera.

það er þess vegna engin tilviljun að samkrull einkafyrirtækja og hins opinbera í fyrirtækjum valdi deilum, tortryggni og úlfúð. annað dótturfyrirtæki orkuveitunnar, lína.net, sýndi okkur þetta líka. eftir viðvarandi deilur um samkeppnisrekstur og samstarf við einkaaðila var ljósleiðaralagningin flutt inn í orkuveituna. við það varð sátt um starfsemina og í dag er helst deilt um hvort ljósleiðarinn sé 10 eða 20 milljarða virði. norðmenn, sem gengið hafa nokkuð langt í samstarfi hins opinbera við einkafyrirtæki, virðast líka finna fyrir breyttu umhverfi þar sem deilur í tengslum við kaupréttarsamninga, mútugreiðslur o.fl.  hafa skekið fyrirtæki með aðild hins opinbera. allt virðist þannig bera að sama brunni, að í nútímasamfélagi fari blandað eignarhald hins opinbera og einkafyrirtækja illa saman.

ábyrgð stjórnvalda

stjórnmálin eiga hins vegar að greiða atvinnulífinu leið, ekki síst inn á nýja markaði eins og iðnaðarráðherra hefur gert með ágætum síðustu daga í indónesíu. það á líka að styðja við nýsköpun og hið opinbera mun trúlega enn um hríð styðja nýsköpunarfyrirtæki með hlutafjárframlögum, en það er mikilvægt að sá stuðningur sé alfarið byggður á faglegum sjónarmiðum og laus við pólitísk afskipti. sú reynsla sem verið hefur af slíkri starfsemi hlýtur þó líka að vekja vaxandi efasemdir um að rétt sé af hinu opinbera að styrkja fyrirtæki með þeim hætti. skýrara og farsælla virðist að veita fremur beina styrki til rannsókna og þróunar, enda vandséð hvað hið opinbera á að fá út úr eignaraðild í nýsköpunarfyrirtækjum. því þegar allt kemur til alls á hið opinbera að einbeita sér að hinu opinbera:  að því að veita almannaþjónustu og sinna rekstri í almannþágu og veita fólki og fyrirtækjum þjónustu.