Harður leikur

blog

Stundum verða stjórnmálin okkur öllum sem við þau störfum til minnkunar. Þá er eins og síðri hvatir okkar verði alsráðandi, s.s. hégómleiki, hefnigirni, sviksemi og græðgi. Rógsherferðir og persónuníð skreyta svo drullukökuna.

Það var annarskonar og betri kaka í boði þegar Davíð Oddsson hélt hátíð sína í Tjarnarsal ráðhússins á fimmtudag í síðustu viku. Þar á hann að hafa þakkað þáverandi forseta borgarstjórnar, Ólafi F. Magnússyni, fyrir að veita sér og sínum afnot af ráðhúsinu á afmælinu, enda gott að eiga góða að. Bankastjórinn hefur nokkrum dögum síðar orðið jafn hissa og aðrir þegar í ljós kom hver áhrínsorð þetta voru. Dramatískur fyrirboði í anda Íslendingasagnanna eins og annað þessa dagana. 

Það þarf ástæðu

Viku síðar gekk reiðialda yfir ráðhúsið og um kvöldið komst ég að því að dóttir mín hafði með menntaskólafélögum sínum farið þangað að mótmæla. Hún vildi að ég setti lög um það að menn þyrftu að hafa ástæðu til að rjúfa stjórnarsamstarf. Hún er föðurbetrungur, því sjálfur hafði ég verið upptekinn af ýmsum aukaatriðum málsins. Því þó á slíkri lagasetningu séu augljós vandkvæði er mergurinn málsins sá að Ólafur F. Magnússon, læknir og borgarstjóri, hefur ekki með sannfærandi hætti fært fram neinar gildar ástæður fyrir því að svíkja samstarfsmenn sína. Fyrirvaralaust og án þess að gera grein fyrir alvarlegum málefnaágreiningi eða úrbótum sem hann krefðist, sveik hann sitt heit. Það verður ekki réttlætt með því að kannski hafi aðrir ætlað að svíkja.  Og samábyrgir þessu urðu sjálfstæðismenn með því að launa honum brest sinn með æðsta og mikilvægasta embætti Reykjavíkurborgar, óverðskuldað.

Það var gott að eiga Dag að oddvita þegar óheilindin voru afhjúpuð, svo saklaus sem hann augljóslega var af þeim. Það gaf ungu fólki einhver ærlegheit að trúa á mitt í ruglinu og það er mikilvægt. Alvarleiki málsins er nefnilega trúnaðarbrestur stjórnmála við almenning sem enn rýrir tiltrú á stjórnmálum og var ekki á bætandi.

Við þurfum að hafa í huga að í löndum þar sem traust á stjórnmálin hverfur fylgir almennt siðferði og traust manna á meðal fljótt á eftir. Mestu forréttindin við að vera Íslendingur er einmitt það traust, gagnkvæm virðing, umburðarlyndi og samkennd sem þetta litla samfélag á og um það þurfum við að standa vörð.

Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var mynduð bundu margir vonir við að nýtt skeið væri runnið upp í íslenskum stjórnmálum. Breiður og sterkur meirihluti styrkti miðjuna í stjórnmálunum og starfað að hagsmunum venjulegs fólks. En víkjandi yrðu gömlu átakastjórnmálin og sérhagsmunabröltið.

Bingi

Á hinum sögulega borgarstjórnarfundi axlaði Björn Ingi Hrafnsson, Framsóknarflokki, skinn sín og hætti í borgarstjórn. Í stuttri viðdvöl hans þar hefur ítrekað verið rætt um óheilindi, refskap, spillingu o.þ.h. þegar hann hefur verið annarsvegar. Það hefur þó farið nokkuð eftir því með hverjum hann hefur starfað hverju sinni, hvernig menn í öllum flokkum hafa um hann talað og oft ótrúlegur viðsnúningur hjá sama fólkinu í ummælum eftir því hvort hann var að vinna með þeim eða ekki. Ræður sjálfstæðismanna á fundinum voru þannig næsta ótrúlegt lof eftir lastið síðustu 100 daga. Kannski brottför Binga eigi að verða okkur stjórnmálamönnum nokkur lærdómur um að af meiri hófsemi og stillingu megum við stundum fjalla hver um annan. Það yrði kannski til að auka eitthvað tiltrú þá sem brýnast er að reisa.

Pistillinn birtist í 24 stundum 26. janúar