Best að menga á Íslandi?

blog

Það var gefandi að hlýða á fyrirlestur Al Gore um loftslagsmál í háskólabíói á þriðjudaginn. Þrátt fyrir að hafa farið á myndina um óhentugan sannleika er fyrirlesturinn enn áhrifameiri í lifandi flutningi. Ekki spillti að hann var sniðinn að stað og stund og kryddaður þekkingu fyrirlesarans á Íslandi. það yljar alltaf landanum að frægir menn frá útlöndum viti að við séum til.

Með einurð sinni og þolgæði hefur Al Gore valdið viðhorfsbreytingum um heim allan. Það sem var óljóst og umdeilt fyrir aðeins fáum árum viðurkenna nú allir sem staðreynd;  stærsta og mikilvægasta verkefni samtímans. Það er ótrúlegt fordæmi og mikil hvatning öllum þeim sem tala fyrir mikilvægum úrbótum í samfélaginu að unnt sé að ná jafn miklum árangri og  Al Gore.

Tvískinnungur

Nú skildi maður ætla að talsmenn loftslagsmengunar létu lítið fyrir sér fara þegar staðreyndir málsins liggja fyrir í niðurstöðum færustu vísindamanna sem rannsakað hafa áhrif loftslagsbreytinga fyrir Sameinuðu þjóðirnar. En fjandinn deyr ekki ráðalaus og nú eru stjórnmálamenn, sem fyrir skemmstu boðuðu að það væru engar loftslagsbreytingar, farnir að nota þær til að réttlæta aukna loftslagsmengun á Íslandi! Þeir segja nú sem svo að betra sé að álver mengi á Íslandi knúið grænni orku, en að það  mengi í Kína knúið kolaorku því þá mengi það meira „hnattrænt“ eins og það heitir svo fínt.

Sumum þykir hér örlátt viðhorf á ferðinni sem sé reiðubúið að fórna að mestu  náttúrugæðum Íslands til að draga pínulítið úr aukningu loftmengunar í Kína.  En trúlega helgast viðhorfið oftar af skeytingarleysi um náttúruna en örlæti. Hverjum manni ætti að vera ljóst að það er fáránlegt að fórna náttúrugæðum Íslands til þess eins að draga ofurlítið úr aukningu mengunar hjá annarri þjóð. En jafnvel þó það væri réttlætanlegt á það ekki við því dæmi mengunarsinnanna er ímyndun ein.

Valkostirnir eru einfaldlega ekki að knýja álver grænni orku hér eða kolum annarsstaðar. Meirihluti álvera heimsins er knúinn endurnýjanlegri orku, en ekki bara á Íslandi. Ábyrg alþjóðafyrirtæki einsog Alcoa eru ekki að fara að reisa ný álver árið 2008 sem knúin eru kolaorku. Valkostir okkar hafa því lítið með kolaorkuver í Kína að gera. Annaðhvort byggir Alcoa álver á Bakka sem knúið er endurnýjanlegri orku, eða það byggir álver annarsstaðar í heiminum sem líka yrði knúið endurnýjanlegri orku. Loftfimleikarnir um að betra sé að álver mengi hér eru þessvegna einkum ímyndunarleikur.

Verkefnið

Þessir rökfimleikar hafa verið nýttir til að krefjast áfram sérstakra aukaheimilda fyrir okkur Íslendinga til að menga loftslag jarðar meira en loftslagssamningar almennt heimila. Það er ógæfuleg nálgun að stærsta verkefni samtímans, minnkun loftslagsmengunar, að hugsa fyrst og fremst um hvernig við sjálf getum fengið undanþágu frá takmörkunum. Stundum erum við svo sjálfsupptekin að við höldum að aðeins Ísland hafi sérstöðu í heiminum. Staðreyndin er auðvitað sú að allar þjóðir hafa sérstöðu og ef 200 þjóðir ætla að leggja áherslu á undanþágur sínar er hætt við að þær nái aldrei saman um aðalatriðið, að draga úr loftslagsmengun.

Við drögum heldur ekki úr loftslagsmengun með því að leita eftir mengandi starfsemi. Við eigum þvert á móti að nýta okkar grænu orku í starfsemi sem ekki mengar s.s. netþjónabú, kísilflögur o.s.frv. Auðvitað eigum við ekki síst að hjálpa öðrum þjóðum að framleiða græna orku. Þannig vinnum við trúlega mest gagn í loftslagsmálum fyrir nú utan að skapa með því miklu áhugaverðari störf og viðskiptatækifæri en mengandi stóriðja býður.

Pistillinn birtist í 24 stundum 12. apríl sl.