Evrópa og eggjakast

blog

Mörgum brá í brún í vikunni að heyra sjónvarpsfréttamann ræða hvort hægt væri að sviðsetja eggjakast fyrir myndavélarnar vegna útsendingar frá mótmælaaðgerðum vörubílstjóra við Rauðavatn. En þetta hald manna var auðvitað úr lausu lofti gripið. Eftir að samtal fréttamannsins við starfsfélaga sína varð almælt sendi hann út leiðréttingu þess efnis að þetta hafi aldrei staðið til, heldur verið í kaldhæðni sagt milli kollega, en ekki ætlast til að það væri tekið alvarlega.

Fréttamaðurinn var ekki eini fulltrúi trúverðugleikans í heiminum sem þurfti að leiðrétta sig í fyrradag. Þess þurfti líka breska forsætisráðuneytið sem til þessa hefur verið orðlagt fyrir varfærni og nákvæmni í sínu starfi. Sem kunnugt er hittust þeir Geir Haarde og Gordon Brown á sumardaginn fyrsta og ræddu alvarleg mál meðan við hin vorum í skrúðgöngum og hoppuköstulum. Og eftir fundinn tilkynnti Downingstræti 10 að þeir hefðu m.a. rætt strategískar viðræður æðstu embættismanna vegna þess að sívaxandi líkur væru á inngöngu Íslands í ESB.

Sitthvað ESB og Evrópumál

Þó sumum hafi þótt þetta hljóma líklega var það strax borið til baka af okkar ráðuneyti. Þannig segir aðstoðarkona ráðherra í Morgunblaðinu í gær „að Evrópusambandið hafi ekkert verið rætt“.  Þó sagði í tilkynningu forsætisráðuneytis okkar að þeir Geir og Gordon hefðu rætt Evrópumálin, en það er auðvitað sitthvað ESB og Evrópumál.

Þó hefði ekkert verið eðlilegra en að ræða Evrópusambandið og sívaxandi líkur á inngöngu Íslands á fundi þeirra Gordons og Geirs. Þeir voru sannanlega að ræða hinar gerbreyttu forsendur í bæði öryggis- og efnahagsmálum okkar sem nú eru og auðvitað liggur fyrir að mikill meirihluti þjóðarinnar vill hefja undirbúning að aðild að ESB. Ekki kannski af því að við séum svo hrifin af skrifræðinu í Brussel eða langi svo mikið að senda þingmenn á Evrópuþingið, heldur fyrst og fremst vegna þess öryggis og stöðugleika sem er að sækja í ESB og ekki síst myntbandalag þess.

Einnig liggur fyrir að landsmálaforysta Íslands, jafnt fagleg sem flokkspólitísk, hefur ekki verið með eða á móti aðild að ESB af trúarástæðum. Þar ræður víðast kalt hagsmunamat. Forsendur þess hagsmunamats hafa breyst hratt og því miður ekki örugglega á síðustu misserum. Vaxandi krafa er úr atvinnulífinu um að látið verði reyna á hvaða kjör bjóðist við aðild, en þegar hefur verkalýðshreyfingin tekið þá afstöðu. Þá hafa æ fleiri stjórnmálamenn sett málið á dagskrá með hugmyndum um vegvísa, breytingar á stjórnarskrá, tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu o.s.frv. Einnig hafa kynslóðabreytingar áhrif en í pólitík, á hinum félagslega vettvangi og í fjölmiðlum er yngra fólk, hlynnt ESB-aðild, að taka sæti kynslóðar sem hafði meiri efasemdir.

Göngum upprétt inn

Við sem lengi höfum talað fyrir aðild höfum lagt áherslu á m.a. mikilvægi þess að ráða sjálf för okkar inn í ESB, fremur en hrekjast þangað undan veðri og vindum. Erfiðleikar á fjármálamarkaði gætu leitt til þess að við teljum ekki aðrar leiðir færar og leitum eftir aðildarviðræðum á þeim forsendum. Það er mikilvægt að með andvaraleysi komum við okkur ekki í þá stöðu, heldur hefjumst strax handa og setjum fram eigin forsendur og skilyrði fyrir inngöngu. Við eigum að ganga styrk til samninga og þó nú séu blikur á lofti byggir sterkur efnahagur okkar ekki síst á mat og orku, en verðhækkanir á þessu tvennu eru ekki síst sá vandi sem þjóðirnar glíma við.  Kröfum okkar um forræði auðlindanna eigum við að halda á lofti því aðild að ESB á ekki að vera af neyð, heldur vegna þeirra stóru tækifæra sem í því felast til að bæta lífskjör almennings á Íslandi.

Pistillinn birtist í 24 stundum 26. apríl sl.