Úrskurður umhverfisráðherra

blog

Nokkur umfjöllun hefur verið í vikunni um úrskurð umhverfisráðherra vegna álvers á Bakka, sem hún kynnti m.a. með opnum fundi á Húsavík. Á fund umhverfisnefndar Alþingis í fyrradag fengum við alla málsaðila til að fara yfir málið og óhætt að segja að eftir þá umfjöllun kemur andstaða við úrskurð ráðherra spánskt fyrir sjónir.

Til að byggja álver á Bakka við Húsavík þarf að ráðast í margarvíslegar framkvæmdir. Ákvörðun ráðherra felur í sér að þær eigi að meta saman, en ekki hverja fyrir sig. Það er hverjum manni augljóst að fyrir því eru málefnaleg rök og almennt skynsamlegra að skoða hluti heildstætt en í bútum. Með ákvörðuninni er þessvegna verið að vanda undirbúning sem mest og tryggja sem heildstæðastar og bestar upplýsingar um framkvæmdirnar og áhrif þeirra. Það er allra hagur og því kemur andstaðan undarlega fyrir sjónir. Nú er þessari heimild beitt í fyrsta sinn og eðlilegt að framkvæmdaaðilar finni til óvissu þessvegna. En aðalatriðið er að framkvæmdirnar sem hafa munu veruleg langtímaáhrif. Því er brýnt að vanda undirbúning sem mest, það er allra hagur og nokkrir mánuðir til eða frá eru hreint aukaatriði.

Lögmæti

Það er skiljanlegt að Þingeyingar undrist að Bakki sæti annarri meðferð en Helguvík. Best hefði auðvitað verið að umhverfismat á þeim framkvæmdum væri eins, enda ekki síður mikilvægt að vanda þar undirbúning. Þegar umhverfisráðherra úrskurðaði um Helguvík mat hún það hinsvegar svo að málið væri of langt komið til að lögmætt væri að krefjast heildarmats.

Með svipuðum hætti hafa líka verið settar fram efasemdir um lögmæti þess að beita ákvæðinu vegna álvers á Bakka. Það er eðlilegt því hér er ákvæðinu beitt í fyrsta sinn og aldrei reynt á túlkun þess áður. Mikilvægt er að hafa hugfast að efasemdir um lögmæti byggjast á því að gengið sé óhóflega á sérhagsmuni. Úrskurðurinn byggir hinsvegar ótvírætt á almannahagsmunum og markmiðum laga um umhverfismat.

Sérhagsmunirnir sem um ræðir eru í þokkabót að verulegu leyti einkaréttarlegir hagsmunir fyrirtækja í almenningseigu, s.s. Landsvirkjunar, Landsnets og Þeistareykja. Verður því að telja langsótt að á þau lögmætissjónarmið reyni, auk þess sem gott samstarf hefur verið milli málsaðila. Röksemdir um að þetta leiði til aukins vaxtakostnaðar framkvæmdaaðila eru líka algjörlega óboðlegar því aðilar sem hyggja á hundraðþúsundmiljóna fjárfestingu verða að vera því viðbúnir að rannsóknir á frumstigi tefjist og þurfi að una því þó útlagt brotabrot af framkvæmdakostnaði skili ekki vöxtum litlu síðar en ætlað var.

Öfgar

Viðbrögð vegna Bakka eru þeim mun skrýtnari þegar til þess er litið að engin bilbugur er á framkvæmdaaðilum svo óljóst er hvaða hætta er á ferðum. Vegna lausafjárkreppunnar er að vísu vaxandi áróður um að samþykkja þurfi allar fyrirætlaðar framkvæmdir í landinu athugunar- og umsvifalaust til að forða hér hruni. Þegar þannig er hrópað er rétt að hafa í huga að nokkrir mánuðir til eða frá munu ekki ríða baggamun í þeim efnum. Ennfremur er mikilvægt að átta sig á að fjárfestingar í stórverkefnum af þessu tagi segja ekki til sín fyrr en eftir langan tíma og munu ekki leysa lausafjárkreppuna sem nú ríkir.

Það væri okkur líkt að fara alltof geyst í framkvæmdir nú eins og í fjármálum síðustu ár. Þó ættum við að hafa lært af reynslu útrásaráranna að kapp er best með forsjá, að til þess skuli vanda sem lengi á að standa. Fyrirhyggja, vandvirkni og öguð vinnubrögð eru líklegust til farsældar. Þessvegna þurfum við vandaða umræðu en ekki upphlaup og óbilgirni.

Pistillinn birtist í 24 stundum 16. ágúst sl.