Eitt helsta baráttumál ríkisstjórnar okkar er að minnka launamun kynjanna. Það er ótvírætt að óútskýrður launamunur milli karla og kvenna er eitthvert hróplegasta óréttlæti sem við er að fást í samfélaginu. Það er algjörlega óþolandi að konur séu lítilsvirtar skipulega með því að gjalda þeim lægri laun en körlum í sambærilegum störfum. Það er þessvegna mikið áhyggjuefni fyrir okkur í þingflokkum beggja stjórnarflokkanna að nú berast af því fréttir að síðastliðið ár hafi launamunur verið að vaxa umtalsvert hjá félögum í SFR – stéttarfélagi í almannaþágu.
Könnun SFR leiðir í ljós að heildarlaun karla eru um 100 þúsund krónum hærri á mánuði en laun kvenna. Munurinn er 27% en þegar tekið er tillit til þátta eins og menntunar, vinnutíma, starfsaldurs, starfsstéttar o.fl. eru laun karla 17% hærri, sem er 3% aukning milli ára. Hjá VR er óútskýrður launamunur rétt rúm 12% og hafði aukist örlítið frá síðasta ári.
Ónýtt launakerfi
Það er áhyggjuefni að opinbera launakerfið sé lakara ef eitthvað er, en bæði leiða þau til verulegs launamunar. Ég get hinsvegar ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að launakerfi ríkisins sé ónýtt. Launakerfi hjá almannavaldinu sem leyfir að þegnunum sé mismunað skipulega með ólögmætum hætti í launagreiðslum er bara ónýtt kerfi. Það tekur ekki ábyrgðina af okkur sem stjórnum því, en afhjúpar það augljósa viðfangsefni að skera launakerfið upp frá grunni.
Launakerfi ríkisins er allt of ógagnsætt og flókið. Það er á köflum beinlínis hannað til að fela sporslur og yfirborganir og um leið mismunun. Lausatök í rekstri ríkissjóðs og agaleysi við framkvæmd fjárlaga hafa líka aukið enn á þetta. Óunnin yfirvinna er auðvitað besta dæmið um þvæluna í launakerfi ríkisins, en við strákarnir fáum meira af henni en stelpurnar. Deildarstjórar er annað skemmtilegt dæmi því undir flestum þeirra eru engar deildir, bara kallað þetta til að hækka kaupið. Deildir sem ekki eru til, vinna sem ekki er unninn, flóknir launaflokkar, bílapeningar og allskyns aukasporslur er launaumhverfi sem er hannað til að svindla á konunum.
En það er einmitt launakerfi ríkisins sem á að vera einfalt og gangsætt. Fáir launaflokkar, skýrar reglur um aðrar greiðslur og ekkert svindl. Því hér er verið að höndla með fé almennings og stjórnsýslukvaðir um jafnræði er skylt að uppfylla.
Nefndanefndanefnd
Félagsmála- og fjármálaráðherra hafa skipað þrjár nefndir til að gera tillögur um hvernig ná megi markmiði ríkisstjórnarinnar í launajafnrétti kynjanna. Markmið okkar er að á þessu kjörtímabili verði sá munur minnkaður um helming. Von er á fyrstu tillögum þeirra í nóvemberbyrjun í tengslum við jafnréttisþing. Þetta er virðingarverð viðleitni af hálfu ráðherranna, þó auðvitað hafi verið skipuð um þetta mörg nefndin. Þegar reynt er að gera lítið úr nefndaskipan er rétt að hafa í huga að viðfangsefnið er langt því frá einfalt og mikilvægt að allar aðgerðir verði vel ígrundaðar.
Hinu verður ekki horft framhjá að frá degi til dags starfar fjármálaráðherra að kjarasamningum við starfsmenn ríkisins og í þeim samningum verður að sjá þess stað skýrt og greinilega að stefna ríkisstjórnarinnar er að hækka laun kvenna sérstaklega. Ljósmæðradeilan vekur eðlilega áleitnar spurningar um trúverðugleika í þessu efni. Þó við skattgreiðendur eigum jafnan að reyna að sýna erfiðu hlutverki fjármálaráðherra í kjarasamningum skilning, þá skýtur skökku við að hann kæri konur fyrir kjarabaráttu. Er hugmyndin sú að konur megi ekki grípa til aðgerða til að rjúfa viðvarandi kúgun? Þegar ég horfi á dætur mínar þrjár fæ ég ekki varist þeirri hugsun að hér kæri sá er stefna skyldi.
Pistillinn birtist í 24 stundum 13. september sl.