Allt fyrir ekkert

blog

Samskipti Íslendinga við útlönd á stuttu lýðveldisskeiði okkar einkennast iðulega af því viðhorfi að við eigum að fá allt fyrir ekki neitt. Hversvegna okkur þykir það eftirsóknarvert er athyglisvert íhugunarefni. En það ber líka vitni um einfeldningslega afstöðu ungrar þjóðar til heimsins.

Skýrasta dæmið um þetta voru auðvitað samskipti okkar við bandaríska herinn. Annað skýrt dæmi er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið – EES samningurinn. Þegar hann var gerður og allt fram á þennan dag hafa fjölmargir málsmetandi Íslendingar keppst við að skýra hann þannig að þar höfum við fengið allt fyrir ekki neitt. Þ.e.a.s. að við fáum í gegnum samninginn aðgang að mörkuðunum sem sé hið eftirsóknarverða en sleppum við þátttöku í stofnanahlutanum, skrifræðinu og kostnaðinum. En einsog jafnan er þetta sjálfsblekking, enda bara börn sem trúa því að hægt sé að fá allt fyrir ekki neitt.

Með því að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu hófst bylting í atvinnuháttum á Íslandi. Okkar litla samfélag varð hluti af markaði hundruða milljóna manna og tileinkaði sér leikreglur þess stóra markaðar og alþjóðavæddist með undraskjótum hætti, af því kappi sem aðeins Íslendingar geta sýnt. Og það var gaman.

Lærdómsrík er lýsing Stefan Zweig í „Veröld sem var“ á Vínarborg í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þar töldu menn sig hafa fundið hið endanlega samfélag alþjóðaviðskipta og frjálsrar verslunar, unnu í bönkum á daginn en voru í óperunni á kvöldin og höfðu helst áhyggjur af tryggingum og því að leggja inná söfnunarreikninga fyrir kornabörn. Í reynsluleysi okkar höfðum við svipaðar ranghugmyndir 100 árum síðar og töldum okkur geta spilað á evrópska markaðnum en þyrftum hvorki á evrunni né Evrópusambandinu að halda því við værum að fá allt fyrir ekki neitt.

Evruvæðing atvinnulífsins, amatörismi Seðlabankans og vanmáttur ríkisstjórnarinnar afhjúpa nú þegar kreppir að hve tilfinnanlega við höfum einangrað okkur. Engum blandast nú hugur um að við hefðum þurft öfluga mynt, stuðning sterkra stofnanna, raunverulegan seðlabanka og aðild að samfélagi þeirra þjóða er mynda markað okkar, Evrópusambandið, til að takast á við það flóð sem á okkur skall. Það er nefnilega ekki hægt að fá allt fyrir ekki neitt og það er ástæða fyrir því að yfir markaði skipuleggja menn stofnanir, skrifræði, öryggisventla og pólitíska stjórn. Því með reglulegum hætti bresta markaðir.

Við höfum nú sótt eitt dýrasta námskeið sögunnar um þessi grundvallaratriði. Lærum af þeim og byggjum nýtt Ísland upp í samfélagi við þær þjóðir sem við viljum deila mörkuðum með. Því það er líka auvirðilegt gildismat að vilja græða á aðild að markaði, en sniðganga samfélagsstofnanir hans. Svolítið einsog að vera fullfrískur á sósíalnum. Sæmir okkur ekki og sem aldrei fyrr þurfum við nú að gæta sóma okkar.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. október