Stjarnfræðileg vanhæfni

blog

Dramadrottningin Davíð Oddsson þráir augljóslega að allt snúist um hann sjálfan. En hvað sem þeirri barnslegu þrá líður snýst umræða um stöðu Seðlabankans um annað og meira en eina persónu en það er traust og trúverðugleiki þessarar mikilvægu stofnunar. Pólitískum deilum við Davíð Oddsson er mikilvægt að halda utan við það mat en sjálfur hef ég gert grein fyrir afstöðu minni í þeim efnum m.a. í greininni „Klassískur kommúnistaleiðtogi“ í Morgunblaðinu vorið 2001.

Á næstu dögum þurfum við að taka málefnalega afstöðu til þess hverjum við ætlum að treysta fyrir þeim 700 milljörðum sem við með harmkvælum og píslargöngu höfum grátið sem neyðaraðstoð út úr alþjóðastofnunum og frá viðskiptalöndum okkar. Spyrja verður á faglegum forsendum hvort yfirstjórn Seðlabankans sé treystandi fyrir þessu fjöreggi okkar, óháð einstökum persónum. Þá þarf að hafa eftirfarandi í huga:

1.         Seðlabankinn er gjaldþrota. Stjórnendur hans töpuðu 150 milljörðum í óvarlegri lánastarfsemi til sk. „óreiðumanna“ í því sem kallað var ástarbréfaviðskipti. Þetta jafngildir hálfri milljón króna á hvert mannsbarn í landinu.

2.         Seðlabankinn nýtti ekki góðu dagana til að byggja upp gjaldeyrisvaraforða í samræmi við vöxt fjármálakerfisins, þrátt fyrir ábendingar um nauðsyn þess m.a. frá Þorvaldi Gylfasyni. Viðbúnaður bankans við fjármálakreppu var því í skötulíki.

3.         Jafnvel í vor synjaði bankinn láni frá J.P. Morgan sem bauðst á góðum kjörum og nam hærri fjárhæð en aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins nú. Lýsir það ótrúlegu vanmati á viðbúnaðarþörf.

4.         Bankinn áttar sig ekki á hlutverki sínu í fjármálastöðugleika og beitti ekki stjórntækjum sínum til að hemja vöxt bankanna, heldur lækkaði þvert á móti bindiskyldu sem var mjög misráðið.

5.         Seðlabankinn hefur nær aldrei náð verðbólgumarkmiði sínu frá því honum var sett það í upphafi aldarinnar.

6.         Bankinn vanmat augljóslega áhrif of sterks gengis á neyslu og fjárfestingargleði og þar með þenslu.

7.         Að geyma gjaldeyrisforða þjóðarinnar í Englandi eftir að Icesave vandinn var ljós og hætta á frystingu hans, er líkt því að vera í sjóorrustu hjá skipstjóra sem gleymdi púðrinu í landi. Yfirsjónin ætti að varða við þjóðaröryggi.

8.         Óviðunandi er að stjórnendur Seðlabankans hafi frétt það í London í febrúar sl. að íslensku bankarnir væru í alvarlegum vanda. Ætlast verður til þess vegna stöðu og hlutverks bankans að hann hefði átt að uppgötva það sjálfur og fyrr.

9.         Óskiljanlegar eru ívilnanir hinn 15. apríl í tengslum við bindiskyldu vegna útibúa erlendis eftir þær upplýsingar sem Seðlabankinn hafði fengið í London.

10.       Hafi Seðlabankinn fengið svo greinargóðar upplýsingar um stöðu bankanna í London er skýrsla bankans um fjármálalegan stöðugleika frá maí sl. beinlínis villandi upplýsingagjöf.

11.       Ófaglegt er að engin viðbragðsáætlun hafi verið til í bankanum vegna fjármálakreppu.

12.       Lækkun og hækkun vaxta á víxl jók ekki trúverðugleika.

13.       Óheppilegt var og trúlega viðvaningsháttur að Seðlabankinn keppti við viðskiptabankana um fjármagn, m.a. með skuldabréfaútgáfu og í lánalínum.

14.       Viðvaningsháttur var að bankinn þagði þegar fréttir bárust af því að hann væri ekki með í samningum norrænu seðlabankana við þann bandaríska. Að bankinn skyldi ekki ná samningum við þann bandaríska var nógu slæmt en þögnin jók á ótta og óvissu og gróf enn frekar undan trúverðugleika á ögurstundu.

15.       Ákvörðun um ríkisvæðingu Glitnis var stórslys. Svo röng var hún að stjórnvöld vonuðust fljótlega eftir þroti bankans svo ekki þyrfti að efna samninga! Hve illa er þá komið fyrir trúverðugleika Seðlabankans?

16.       Fum og fát í gengismálum dró enn frekar úr trúverðugleika og fagmennsku í Seðlabanka Íslands. Ákvörðun um að festa gengið við 175 stig verður lengi kennd sem hrapaleg mistök, enda lifði „staðfesta“ bankans í gengismálum aðeins í tvo daga, því oftrúin á krónuna var svo víðsfjarri veruleikanum á gjaldeyrismarkaði. Hún hefur síðan fallið um tugi prósenta.

17.       Kastljósviðtal við formann bankastjórnar hjálpaði ekki til við að verja stærsta fyrirtæki landsins, Kaupþing, falli.

18.       Þyngra er en tárum taki ótímabær yfirlýsing Seðlabankans um sk. Rússalán. Bæði spillti það mjög þeim lánasamningum sem Geir Haarde hafði átt frumkvæði að og einnig orðspori okkar á alþjóðavettvangi.

19.       Fyrrnefnt Kastljósviðtal, sem m.a. var birt í Wall Street Journal, dró nokkuð úr trúverðugleika íslensks fjármálakerfis á viðkvæmu augnabliki. Einkum þau ummæli sem voru þýdd svo: …Iceland is „not going to pay the banks' foreign debts“.  

20.       Óheppilegt var að seðlabankastjóri skyldi hóta stjórnarformanni stærsta fyrirtækis landsins knésetningu.

21.       Óheppilegt er að seðlabankastjóri dylgi um viðskipti einstaklinga við bankakerfið og ástæður beitingu hryðjuverkalaga.

22.       Óheppilegt er að seðlabankastjóri aflétti einhliða trúnaði af fundum sínum með forystumönnum ríkisstjórnarinnar og samningum við IMF.

23.       Óheppilegt er að seðlabankastjóri veiti seðlabankastjórum annarra ríkja tilsögn í mannasiðum.

            Öll gerum við mistök og sætum stundum ósanngirni. En þegar heildarmyndin er metin, ásamt öllu því smálega sem ég hirti ekki um að tína til, er eðlilegt að efasemdir vakni. Þær styrkjast við lestur nýjasta heftis Peningamála og óraunsærra væntinga um traust og trúverðugleika. Sá lestur vekur áhyggjur um að seðlabankastjórnin gæti eytt IMF láninu í enn einn óraunsæjan leiðangur sem bankinn hefði ekki styrk til að ljúka. Það hefur hent margar þjóðir í okkar stöðu og þær setið eftir enn skuldugri en fyrr. Það er þessvegna ekki verið að persónugera vandann þegar kallað er eftir breytingum í Seðlabankanum. Það er einfaldlega verið að segja hið sjálfljósa að þegar við nú stöndum á hyldýpisins brún er mikilvægt að hafa faglega yfirstjórn Seðlabankans.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. nóvember