Rannsóknarrétturinn

blog

Við kerfishrun rís eðlilega krafa um rannsókn, að sannleikurinn verði leiddur í ljós og hinir seku dregnir til ábyrgðar. Formenn flokkanna hafa mótað tillögur um rannsóknarnefnd er gefi út skýrslu um hrunið. Ennfremur hefur verið kynntur farvegur þeirra sakamála sem rannsaka þarf. Þetta eru mikilvægir áfangar. En þegar heiftin ólgar er brýnt að gæta að umburðarlyndi og víðsýni. Þó rétt sé að ríkisvaldið beiti sér fyrir einni rannsókn þá verður sú rannsókn aldrei tæmandi og niðurstaða hennar verður aldrei sannleikurinn eða réttlætið. Til þess er umfang málsins of mikið og hliðar þess margar. Þetta er hið stóra mál okkar kynslóðar og í bönkunum og stjórnkerfinu eru leyndarskjölin okkar. Það er þess vegna full ástæða til þess að opna einsog frekast er kostur aðgang að gögnunum svo gagnsæi verði sem mest. Mikilvægt er líka að gögn erlendra starfsstöðva íslensku bankanna verði afrituð og flutt heim, því þar hefur margur snúningurinn verið tekinn í skjóli lúxemborgar og skattaeyjanna en á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda. Nauðsynlegt er þó um leið að gæta að þeim hluta bankaleyndar sem verndar friðhelgi einkalífs.

Við höfum við svipaðar aðstæður fjölmörg fordæmi fyrir því að auk rannsóknar hins opinbera sé með lögum veittur aðgangur að gögnum um stór, umdeild mál. Þá er slíkur aðgangur veittur fjölmiðlamönnum, fræðimönnum eða öðrum rannsakendum með skilyrðum um takmarkanir á aðgangi, ópersónugreinanlegan aðgang, trúnað eða annað til að tryggja að ekki sé misfarið með viðkvæmar persónuupplýsingar og forðast óstaðfestan söguburð og slúður. Sagnfræðin hefur sín sjónarhorn, verkfræðin önnur, viðskiptafræðin hin þriðju, lögfræðin, siðfræðin, hagfræðin, fjölmargar fræðigreinar hafa margt að rannsaka, læra og miðla. Þetta gefur fólki úr ýmsum áttum, með ólíka reynslu og menntun, tækifæri til að skoða það sem gerðist frá mörgum og ólíkum sjónarhornum og miðla síðan niðurstöðum sínum í umræðuna til að auðga hana og hjálpa okkur öllum við að skilja hvað gerðist og hvernig skynsamlegast er að haga málum í framtíðinni. Og einmitt framtíðarinnar vegna skiptir máli að sem flestir komi að rannsókninni því hinar fjölbreytilegu skoðanir og frjáls skipti á þeim hafa jafnan verið drifkraftur framfara í heiminum. Því við erum hvorki kommúnistar né fasistar sem fara um með stóra dóm, heldur lýðræðissamfélag sem ræðir og rannsakar áður en dæmt er.

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. nóv. 2008.