Í Fbl. á laugardag svarar bankastjórn Seðlabanka Íslands grein minni „Stjarnfræðilegt vanhæfi“ sem birtist í blaðinu á föstudag og var um bankann. Bankastjórn Seðlabankans reynir í 23 tölusettum liðum að verja aðgerðir sínar og aðgerðaleysi. Með svari sínu staðfestir bankastjórnin í öllum aðalatriðum gagnrýni mína og þarflaust að leiðrétta það sem rangt er farið með hjá henni, enda nóg samt. Gríðarlegt tjón bankans, viðbúnaðarleysi, viðvaningsháttur, fát í gengisákvörðunum, fum í vaxtaákvörðunum, ívilnanir við útþenslu bankanna, kolröng ráðgjöf um ríkisvæðingu glitnis, árangursleysi peningamálastefnunnar og margítrekaðar óheppilegar yfirlýsingar – allt stendur það.
Það að bankastjórn Seðlabanka Íslands telji sig knúna til að verja sig í 23 tölusettum liðum vegna aðsendrar greinar í dagblaði sýnir best hve trausti rúinn bankinn er, bæði hjá öðrum og sjálfstrausti sínu. Allir eru á einu máli um að fátt er mikilvægara í þeim erfiðleikum sem fram undan eru en að endurreisa traust og trúverðugleika bankans, því hann mun gæta fjöreggs okkar. Það verður aðeins gert með því að setja bankanum faglega yfirstjórn. Þannig losnar bankinn einnig úr pólitískum átökum sem á degi hverjum skaða trúverðugleika hans og starfsemi alla.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 25. nóv. 2008.