Kosningar til Alþingis og sveitarstjórna

blog

Þetta frumvarp var lagt fram á Alþingi í síðustu viku og verður vonandi rætt fyrir vorið: 

 

Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, og lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.

Flm.: Helgi Hjörvar, Lúðvík Bergvinsson, Katrín Júlíusdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Árni Páll Árnason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðbjartur Hannesson, Gunnar Svavarsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir.

I. kafli

  

Breyting á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við lögin bætist ný grein, er verður 20. gr. a, svohljóðandi:
    Nú óskar a.m.k. helmingur þess fjölda kjósenda sem kaus í síðustu almennu alþingiskosningum, sbr. 1. mgr. 20. gr., eftir því að kosið verði að nýju áður en yfirstandandi kjörtímabili lýkur og skulu kosningar þá fara fram.
    Kosningar skv. 1. mgr. skulu fara fram áður en 45 dagar eru liðnir frá því að beiðni skv. 1. mgr. kom fram. Þingmenn halda umboði sínu til kjördags.
    Kjörtímabilið er fjögur ár.

II. kafli

  

breyting á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum.

2. gr.

    Við lögin bætist ný grein, er verður 1. gr. a, svohljóðandi:
    Nú óskar a.m.k. helmingur þess fjölda kjósenda sem kaus í síðustu almennu sveitarstjórnarkosningum, sbr. 1. mgr. 1. gr., eftir því að kosið verði að nýju áður en yfirstandandi kjörtímabili lýkur og skulu kosningar þá fara fram. þá skal og efnt til kosninga samþykki sveitarstjórn slíka tillögu með 3/4 hlutum greiddra atkvæða.
    Kosningar skv. 1. mgr. skulu fara fram áður en 60 dagar eru liðnir frá því að beiðni skv. 1. mgr. kom fram eða samþykkt sveitarstjórnar skv. 1. mgr. liggur fyrir. fulltrúar í sveitarstjórn halda umboði sínu til kjördags.
    Fulltrúar í sveitarstjórn sem ná kjöri í kosningum samkvæmt þessari grein halda umboði sínu fram að næstu almennu sveitarstjórnarkosningum.
                

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2009.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að ákveðinn hluti kjósenda geti farið fram á að kosið verði að nýju til Alþingis meðan á yfirstandandi kjörtímabili stendur. Er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að minnst helmingur þess fjölda sem kaus í síðustu almennu alþingiskosningum geti farið fram á slíkt. Þá er lagt til að hið sama gildi um almennar sveitarstjórnarkosningar. Í frumvarpinu er jafnframt kveðið á um að sveitarstjórn fái heimild til að láta efna til sveitarstjórnarkosninga að nýju þótt kjörtímabil sé ekki liðið. Slík heimild er ekki í núgildandi lögum. Til að tillaga um kosningar að nýju teljist samþykkt þarf 3/4 hluta greiddra atkvæða sveitarstjórnar. 
    Kosningar til sveitarstjórnar skulu fara fram áður en 60 dagar eru liðnir frá því að beiðni berst eða samþykki sveitarstjórnar liggur fyrir en hinir kjörnu fulltrúar halda umboði sínu til kjördags. Þeir sveitarstjórnarfulltrúar sem ná kjöri í slíkum kosningum skulu aðeins halda umboði sínu fram að næstu almennu sveitarstjórnarkosningum, sem fara fram á fjögurra ára fresti skv. 1. gr. laga um kosningar til sveitarstjórnar. Kjörtímabil alþingismanna sem kosnir eru skv. 1. gr. frumvarpsins verður þó fjögur ár, enda kveðið á um það í 31. gr. stjórnarskrár að þingmenn séu kosnir til fjögurra ára. Slík kosning skal fara fram innan 45 daga frá því að beiðni berst, í samræmi við 24. gr. stjórnarskrár, um þingrof.
    Mikilvægt er fyrir kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum og á Alþingi að störf þeirra og stefna á hverjum tíma fái aðhald frá öðrum. Dæmi um slíkt aðhald eru ákvæði stjórnarskrár um málskotsrétt forseta lýðveldisins er gera honum kleift að skjóta málum þingsins til allsherjaratkvæðagreiðslu hjá þjóðinni telji hann að gjá hafi myndast þar á milli. Samfylkingin hefur allt frá stofnun lagt áherslu á mikilvægi þess að almenningur hafi bein áhrif í stærri málum og hafa þingmenn hennar flutt fjölmörg þingmál þar að lútandi. Hefur það m.a. verið stefna flokksins að almenningur sjálfur eigi að geta, með svipuðum hætti og forseti, kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Frumvarp þetta er í anda þessarar áherslu samfylkingarinnar á virkt lýðræði með vel skilgreindum rétti almennings til beinna áhrifa. Í þeim anda hefur flokkurinn áður beitt sér fyrir ákvæðum um rétt íbúa til kosninga um einstök mál í sveitarfélögum, svo sem með breytingum á samþykktum þeirra. Um leið og mikilvægt er að kjósendur hafi bein áhrif á einstakar stærri ákvarðanir er eðlilegt að þeir geti einnig við sérstakar aðstæður haft bein áhrif á stjórn síns sveitarfélags og þá ekki síður á skipan Alþingis, enda má lýðræði í upplýsingasamfélagi nútímans ekki vera fyrirbæri sem aðeins er virkt á fjögurra ára fresti.
    Mikilvægt er að kjósendur geti knúið fram nýjar kosningar ef þeir eru verulega ósáttir við sitjandi stjórnvöld og sjá ekki aðrar leiðir færar til úrbóta en kosningar. Þetta á bæði við um sveitarstjórnir og Alþingi. Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að ef meira en helmingur kjósenda fer fram á kosningar til Alþingis eða í sveitarstjórn verði skylt að efna til þeirra. Slík ákvæði um endurkjör má finna víða, en snúa oft að einstökum kjörnum fulltrúum t.d. í einmenningskjördæmum. Er þar iðulega krafist mun færri undirskrifta en hér er gert ráð fyrir. Ástæða þess að flutningsmenn leggja til að meiri hluta kjósenda þurfi er að þrátt fyrir lýðræðissjónarmið er stjórnfesta einnig mikilvæg og því rétt að krefja um skýran vilja almennings til þess að efnt verði til kosninga.
    Tilgangur frumvarpsins er ekki síst sá að áhrif þess verði óbein og stuðli að lýðræðislegri stjórnarháttum án þess að beita þurfi ákvæðum þess. Þannig veitir það stjórnvöldum á hverjum tíma sjálfsagt aðhald að vita af því að kjósendur geti, nái þeir samstöðu um það, farið fram á kosningar. Það hvetur stjórnvöld til að hafa samráð, vanda ákvarðanir og að miðla vel upplýsingum til almennings um stjórnarathafnir, en allt eru þetta mikilvægir þættir í virku lýðræði sem alltaf má bæta og styrkja.
    Skýrt dæmi um nauðsyn slíks ákvæðis mátti sjá í stjórnarkreppunni sem varð í reykjavíkurborg á yfirstandandi kjörtímabili. Í sveitarfélögum eykur það vandann að ekki er í gildandi lögum gert ráð fyrir að sveitarstjórnin sjálf geti farið fram á kosningar og því gerir frumvarpið einnig ráð fyrir breytingu þar á. Er gert ráð fyrir því að aukinn meiri hluti sveitarstjórnar geti knúið fram kosningar í sveitarfélagi. enda má ljóst vera að óþolandi stjórnarkreppa ríki ef þrír fjórðu hlutar sveitarstjórnar krefjast þess að binda enda á eigið kjörtímabil.
    Fá dæmi eru í sögu lýðveldisins um svo víðtækar undirskriftasafnanir á landsvísu sem hér er gert ráð fyrir, þó dæmi séu um slíkt í einstökum sveitarfélögum. hér er því augljóslega um neyðarhemil að ræða en ekki virkan hluta kosningakerfisins. það er hins vegar mikilvægt lýðræðinu að víðtæk andstaða við sitjandi stjórnvöld hafi lýðræðislegan farveg. rétturinn til að krefjast kosninga væri slíkur farvegur. þannig væri einnig dregið úr hættu á að andófsöfl á hverjum tíma beittu ólýðræðislegum eða andfélagslegum aðferðum í andófi sínu.
    Eftirtektarvert er að rétt almennings til endurkjörs er helst að finna í lýðveldum og í ungum ríkjum. má leiða líkum að því að það endurspegli ólíkar hugmyndir þeirra og gömlu ríkjanna um uppruna valds, þ.e. að það komi frá kjósendum en ekki kónginum. fyrr á tímum var áhrifaleysi almennings milli kosninga oftsinnis rökstutt með þeim hætti að stjórnvöld þyrftu að geta tekið óvinsælar ákvarðanir því almenningur væri ekki eins upplýstur og stjórnvöld. slíkar röksemdir eiga sannarlega ekki við lengur, hafi þær yfirhöfuð átt við, því í samfélagi okkar er allur almenningur vel menntaður, hefur greiðan aðgang að upplýsingum og fylgist ákaflega vel með lýðræðislegri umræðu í hinum flóknustu málum, eins og dæmin sanna. íslenskur almenningur er því fullfær um að ákveða sjálfur hvort nauðsyn krefur að kjósa skuli.