Ég fékk í dag svar frá utanríkisráðherra við fyrirspurn minni um markað fyrir hvalkjöt. Það er athyglisvert að skoða verðþróunina síðustu ár en í ljós kemur að verð á hvalkjöti hefur verið að lækka. Það er mikilvægt að skoða allar staðreyndir vel þegar hagsmunirnir sem um ræðir eru vegnir og metnir.
Hér er svar utanríkisráðherra:
Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvar um markað fyrir hvalkjöt.
1. Hversu stór hefur markaður fyrir hvalkjöt verið í Japan frá árinu 1999, mælt í tonnum og skipt eftir árum?
Samkvæmt opinberum upplýsingum er árlegt framboð á hvalkjöti um þessar mundir um 6.000 tonn, þar af koma 4.000 tonn vegna vísindaveiða og 2.000 tonn vegna strandveiða. Framboðið hefur aukist frá 1999 vegna aukinna vísindaveiða Japana. Árleg neysla er sveiflukennd milli ára. Ómögulegt er að segja nákvæmlega hversu stór markaðurinn er í raun þar sem honum er miðstýrt milli ára. Þess má þó geta að árið 1987, þegar veiðibanni IWC var komið á, var landað 14.500 tonnum af hvalkjöti í Japan.
2. Hvert hefur meðalverð á kílói af hvalkjöti verið í jenum, skipt eftir árum?
Ár Tonn Meðalverð í jenum
1999 2.141 2.236
2000 2.448 2.166
2001 2.618 1.944
2002 3.257 1.898
2003 3.380 1.926
2004 4.154 1.829
2005 5.559 1.309
2006 4.154 1.414
2007 4.050 1.485
Hafa verður í huga að verð ræðst einnig af því um hvaða hvalategund er um að ræða og af hvaða hluta hvalsins kjötið er. Sem dæmi getur verð á verðmætasta kjötinu verið 12.000 jen pr. kíló og allt niður í 600 jen pr. kíló fyrir ódýrustu bitana.