Nauðsynlegt að koma í veg fyrir málamyndagerninga og undanskot eigna

blog

Ég lagði fram fyrir nokkrum dögum frumvarp um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti. Markmið frumvarpsins er að tryggja að hægt verði að ganga frá þeim málum sem upp koma í kjölfar bankahrunsins, án þess að hætta sé á að hagsmunir spillist vegna álags og tímaskorts. Lagt er til að þetta verði framkvæmt á þann hátt að rýmka tímafresti riftunar ráðstafana þrotamanna tímabundið.

Í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem nú eru í íslensku samfélagi er ljóst að þau tímamörk og frestir sem lögin gera ráð fyrir til að ónýta afturvirkar ráðstafanir þrotamanns sem falla undir lögin eru tiltölulega stuttir og ekki hugsaðir út frá þeim aðstæðum sem við er að glíma nú. Það er fyrirséð að málafjöldi verði gríðarlegur og álag á stofnunum sem koma að þessu ferli á efalaust eftir að stigmagnast á næstu missirum með þeim afleiðingum að kerfið hefur ekki undan og mun lengri tíma tekur að ljúka málum.

Eins er ljóst að fjölmargir aðilar hafa gripið til ráðstafana í kjölfar bankahrunsins sem flokkast geta sem málamyndagerningar og undanskot eigna og getur það ekki liðist að þeir aðilar verði látnir komast upp með slíkt. Til að koma í veg fyrir háttsemi af þessu tagi er lagt til í frumvarpinu að tímamörk og frestir riftunar ráðstafana þrotamanna skuli miðast við 4 ár fyrir frestdag.